Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 159. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 159  —  159. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. A, svohljóðandi:
    Skattstjóri getur heimilað að tvö eða fleiri skráningarskyld hlutafélög og einkahlutafélög, sbr. 1. mgr. 5. gr., verði samskráð. Skilyrði samskráningar eru að eigi minna en 90% hlutafjár í dótturfélögum sé í eigu móðurfélagsins sem óskar samskráningar eða annarra dótturfélaga sem einnig taka þátt í samskráningunni. Jafnframt hafi öll félögin sama reikningsár. Samskráning skal vera í nafni móðurfélagsins og skal að lágmarki standa í fimm ár. Ef samskráningu er slitið er ekki heimilt að fallast á slíka skráningu að nýju fyrr en að liðnum fimm árum frá því að fyrri samskráningu var slitið.
    Umsókn um samskráningu skal beint til skattstjóra í því skattumdæmi þar sem móðurfélagið er heimilisfast eigi síðar en átta dögum fyrir upphaf fyrsta reikningsárs sem samskráningu er ætlað að taka til. Breytingar á forsendum samskráningar, svo sem breytt eignarhald, skal tilkynna eigi síðar en átta dögum eftir að breyting á sér stað.
    Með samskráningu falla á móðurfélagið allar skyldur varðandi uppgjör, skil og álagningu virðisaukaskatts skv. VII. og IX. kafla laga þessara vegna allra þeirra félaga sem samskráð eru. Öll bera félögin þó óskipta ábyrgð á greiðslu virðisaukaskatts á grundvelli samskráningarinnar.
    Viðskipti milli samskráðra félaga hafa ekki í för með sér skyldu til innheimtu og skila virðisaukaskatts, nema að því leyti sem um er að ræða afhendingu vöru eða þjónustu til annarra nota en varðar sölu viðtakandans á virðisaukaskattsskyldum vörum og þjónustu eða til nota í tilgangi er varðar atriði sem rakin eru í 3. mgr. 16. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við skráningu frá og með 1. janúar 2005.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem fela í sér að skráningarskyldum hlutafélögum og einkahlutafélögum verði heimiluð samskráning á virðisaukaskattsskrá að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Markmiðið með þessari breytingu er að gera móður- og dótturfélögum kleift að vera ein skattaleg eining þannig að heildarvirðisaukaskattur allra félaganna verði jafnhár og hann hefði orðið ef öll starfsemi félaganna hefði verið rekin í einu félagi.
    Með breytingunni er opnað fyrir þann möguleika að hlutafélög og einkahlutafélög sem stofnað hafa eitt eða fleiri dótturfélög geti skilað sameiginlega virðisaukaskatti fyrir öll félögin. Af ýmsum rekstrarlegum ástæðum getur verið hagkvæmt fyrir fyrirtæki að vera með atvinnustarfsemi í fleiri en einu félagi, t.d. vegna stjórnunarlegra ástæðna eða atriða sem snerta fjármögnun, ábyrgð eða annað.
    Réttaráhrif samskráningar félaga á virðisaukaskattsskrá verða þau að með tilliti til virðisaukaskatts skoðast starfsemi hinna samskráðu sem ein starfsemi og viðskipti milli samskráðra bera ekki virðisaukaskatt umfram það sem væri ef starfsemi samskráðra félaga væri öll á einni hendi. Því ber að innheimta virðisaukaskatt í viðskiptum milli samskráðra félaga í tilvikum sambærilegum við skattskyldar úttektir skráðra aðila skv. 1. mgr. 11. gr. laganna. Hvert hinna samskráðu félaga um sig ber fulla ábyrgð á greiðslu virðisaukaskatts af samskráðri starfsemi.
    Heimild til samskráningar er eingöngu ætlað að taka til skyldubundinnar skráningar skv. 5. gr. laganna en ekki frjálsrar eða sérstakrar skráningar á grundvelli 6. gr. laganna.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að sömu skilyrði hvað varðar eignarhald, sama reikningsár og lengd samskráningar verði sett fyrir heimild til samskráningar á virðisaukaskattsskrá og gilda um samsköttun félaga í 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.
    Lagt er til að umsóknir um samskráningu berist skattyfirvöldum í síðasta lagi átta dögum fyrir upphaf fyrsta reikningsárs sem óskað er eftir að samskráningin taki til. Er sá tímafrestur sá sami og gildir um tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. 5. gr. laganna.
    Þá er lagt til að uppgjör og skil virðisaukaskatts samskráðu félaganna verði í nafni og á ábyrgð móðurfélags en greiðsluábyrgð hvíli óskipt á öllum félögunum.
    Í lokamálsgrein greinarinnar er lagt til að áréttað verði að samskráningu er ekki ætlað að veita samskráðum félögum rýmri rétt en hefði verið ef starfsemi þeirra hefði verið á hendi einnar lögpersónu.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 50/1988,
um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta miðar að því að heimilt verði að samskrá móður- og dótturfélög á virðisaukaskattsskrá að uppfylltum vissum skilyrðum. Tilgangurinn með því er að fyrirtæki sem af rekstrarlegum ástæðum skipta starfseminni í tvö eða fleiri félög geti starfað sem ein skattaleg eining þannig að virðisaukaskattur allra félaganna verði ekki hærri í heildina en hann hefði orðið ef öll starfsemin hefði verið rekin í einu félagi. Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs né heldur á tekjur af virðisaukaskatti.