Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 216. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 218  —  216. mál.




Skýrsla



iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005.

(Lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



    Hér með leggur iðnaðarráðherra fram á Alþingi skýrslu um framvindu stefnumótandi áætlunar ríkisstjórnarinnar í byggðamálum fyrir árin 2002–2005. Í skýrslunni er gerð grein fyrir meginþáttum byggðaáætlunarinnar, hvaða aðgerðum stjórnvöld hafa staðið fyrir í því skyni að ná markmiðum hennar og lagt mat á hvernig til hefur tekist.

Meginþættir byggðaáætlunar.


    Alþingi samþykkti eftirfarandi ályktun 3. maí 2002:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 2002–2005. Meginmarkmið áætlunarinnar verði eftirfarandi:
     a.      Að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga í landinu og skapa íbúum á landsbyggðinni sem hagstæðust búsetuskilyrði.
     b.      Að aðstoða byggðarlög á landsbyggðinni við að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum í atvinnuháttum með því að efla sveitarfélögin, veita markvissan stuðning við atvinnuþróun, menntun, trausta samfélagsþjónustu og uppbyggingu grunngerðar.
     c.      Að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og bestu möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu.
     d.      Að auðvelda byggðum landsins að rækta menningu sína, auðga með því þjóðlífið og skapa fjölbreytilegri kosti fyrir borgarana í búsetu og lífsstíl. Í því felst m.a. að stuðla að varðveislu byggðar sem á sér rótgróna sögu og hefur menningarsögulegt gildi, svo og að virða tengsl fólks í fámennum byggðarlögum við átthaga sína með því að gera því kleift að búa þar áfram.
     e.      Að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og að fyrirtæki á landsbyggðinni geti nýtt atvinnukosti sína sem best með sjálfbæra nýtingu auðlinda og góða umgengni um náttúru landsins að leiðarljósi.“
    Lagt var til að þær aðgerðir sem beitt yrði til að ná fram meginmarkmiðum byggðaáætlunar byggðust á eftirtöldum meginstoðum: Traustu og fjölbreyttu atvinnulífi, öflugum
byggðarlögum, aukinni þekkingu og hæfni, bættum samgöngum og áherslu á sjálfbæra þróun.
    Byggðaáætlunin hefur tólf stefnumarkandi áherslusvið:
     1.      Nýting sóknarfæra í atvinnulífi.
     2.      Markvisst þróunarstarf í öllum landshlutum.
     3.      Skilvirkt stuðningskerfi atvinnulífs.
     4.      Stefnumótun innan atvinnugreina með framleiðslustýringu.
     5.      Efling sveitarfélaga.
     6.      Búsetuskilyrði.
     7.      Starfsskilyrði atvinnuveganna.
     8.      Mikilvægi menningar.
     9.      Efling Akureyrar sem byggðakjarna fyrir Norður- og Austurland.
     10.      Bættar samgöngur.
     11.      Greiður aðgangur að fjarskipta- og upplýsingatækni.
     12.      Aukið alþjóðlegt samstarf.
    Samþykkt Alþingis fylgdu tillögur um aðgerðir í tuttugu og tveimur liðum til að ná fram meginmarkmiðum byggðaáætlunarinnar. Aðgerðirnar eru ekki tæmandi og taka ekki til allra þeirra viðfangsefna sem fjallað er um í framangreindum stefnumarkandi áherslusviðum. Tiltekin ráðuneyti eða Byggðastofnun bera ábyrgð á framkvæmd hverrar aðgerðar. Til þess að tryggja sem best framgang áætlunarinnar var skipuð sérstök verkefnastjórn til að hafa yfirumsjón með framkvæmdinni. Hana skipa fulltrúar félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, landbúnaðarráðuneytis, menntamálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Hlutverk verkefnastjórnarinnar er nánar tilgreint að fylgjast með framgangi verkefna samkvæmt tillögunum tuttugu og tveimur um beinar aðgerðir, upplýsa viðkomandi ráðuneyti um framgang byggðaáætlunar eins og þurfa þykir og beita sér eftir þörfum fyrir því að unnið sé að framgangi áætlunarinnar. Verkefnastjórnin skal gera iðnaðarráðherra grein fyrir framkvæmd og framvindu byggðaáætlunarinnar árlega.

Öflun efniviðar.


    Skýrsla þessi var unnin þannig að iðnaðarráðherra fól Byggðastofnun haustið 2003 að taka saman þær upplýsingar sem hún hefði tiltækar um framkvæmd tillagnanna tuttugu og tveggja um aðgerðir, sem gerð er tillaga um í byggðaáætlun. Í kjölfarið óskaði iðnaðarráðherra eftir nánari upplýsingum frá þeim ráðuneytum, sem fulltrúa eiga í verkefnisstjórn um framvindu byggðaáætlunarinnar, auk forsætisráðuneytis. Bæði var óskað eftir að ráðuneytin greindu frá framvindu þeirra aðgerða sem þau eru ábyrg fyrir og að þau skiluðu eftir atvikum upplýsingum um aðrar aðgerðir sem unnið hefði verið að á þeirra vegum og tengdust meginmarkmiðum byggðaáætlunarinnar. Þessar upplýsingar voru teknar saman og þess að lokum farið á leit við Byggðastofnun að hún legði heildarmat á hvernig framkvæmd byggðaáætlunarinnar hefði undið fram, þar á meðal hvernig miðaði í átt að meginmarkmiðum áætlunarinnar. Jafnframt var í október 2004 leitað eftir frekari upplýsingum frá Byggðastofnun og ráðuneytum um framvindu byggðaáætlunar.

Heildarmat Byggðastofnunar á árangri.


    Bréf Byggðastofnunar til iðnaðarráðherra, dags. 20. nóvember 2003, fer hér á eftir:
    „Með bréfi dagsettu 4. nóvember 2003 fór iðnaðarráðuneytið þess á leit við Byggðastofnun að lagt verði heildarmat á hvernig miðað hafi í átt að meginmarkmiðum stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum fyrir árin 2002–2005.
    Ljóst er að framkvæmd er hafin við flestar þær aðgerðir sem upp var lagt með í byggðaáætlun fyrir 2002–2005. Jafnframt hefur á ýmsum sviðum verið unnið að því af hálfu stjórnvalda að efla og bæta starfsskilyrði atvinnulífsins og búsetuskilyrði fólks á landsbyggðinni.
    Meginmarkmið byggðaáætlunar eru fimm og eru nokkuð almennt orðuð, þannig að það er vandkvæðum bundið að leggja sjálfstætt mat á einstaka þætti. Almennt er þó hægt segja að unnið sé að fjölmörgum verkefnum, sem tengjast áhersluatriðunum fimm.
    Annað atriði sem skapar vanda við mat er að einungis hluti af áætlunartímanum er liðinn og vinna því í mörgum tilvikum hafin, en henni ekki lokið. Eins og gefur að skilja mun árangur af framkvæmd byggðaáætlunar koma í ljós með vaxandi þunga eftir því sem líður á áætlunartímabilið.
    Með byggingu raforkuvers við Kárahnjúka og samningum um byggingu álvers á Reyðarfirði er stigið eitt stærsta spor sem stigið hefur verið á síðari árum til að bæta lífskjör og afkomumöguleika fólks á Austfjörðum þaðan sem fólksflótti hefur verið hvað mestur á undanförnum árum. Þessi framkvæmd hefur nú þegar haft mjög mikil áhrif á atvinnuástand
og íbúaþróun á Austurlandi þó svo hún sé rétt farin af stað.
    Þá hefur ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 11. febrúar 2003 um sérstakt 700 millj. kr. framlag til þess annars vegar að leggja fram hlutafé í sprotafyrirtækjum og fyrirtækjum í skýrum vexti og hins að styðja rekstur vel mótaðra stuðningsverkefna til að styðja grunngerð nýsköpunar og atvinnuþróunar augljós áhrif til að bæta starfsskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni.
    Sérstakt átak sem ákveðið var að ráðast í til að flýta samgöngubótum sem ríkisstjórnin ákvað er til þess fallið að draga úr mismun á lífskjörum fólks og bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni. Hér er ástæða til að benda á að samkvæmt áliti Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Byggðarannsóknastofnunar Íslands þá eru samgöngubætur sú aðgerð sem best er til þess fallin að bæta afkomu og lífskjör íbúa á landsbyggðinni.
    Sérstök byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð hefur að markmiði að efla búsetu á Norðurlandi og hafin er vinna við byggðaáætlun fyrir Vestfirði, þar sem stefnt er að eflingu byggðar vestra. Uppbygging Háskólans á Akureyri og rannsóknarstarfs honum tengt hefur haft mjög mikil og jákvæð áhrif á byggðaþróun á Akureyri. Hið sama má segja um uppbyggingu framhaldsnáms víðar á landinu.
    Samningar um byggingu menningarhúsa á landsbyggðinni munu gera almenningi auðveldara að rækta menningu sína og auðga þar með þjóðlífið.
    Það er mat stofnunarinnar að skýrslan lýsi framkvæmd áætlunarinnar með fullnægjandi hætti og að samkvæmt henni sé vinna við flesta liði í viðunandi farvegi. Hins vegar verður ekki hægt að meta árangur að fullu fyrr en að áætlunartímabilinu lýkur.“

     Framvinda aðgerða sem lagðar eru til í byggðaáætlun.
 1.    Endurskipulagning atvinnuþróunar á landsbyggðinni – nýsköpunarmiðstöð á Akureyri.

Framkvæmd. – Impra nýsköpunarmiðstöð.


    Impra nýsköpunarmiðstöð tók til starfa á Akureyri í desember 2002. Nýsköpunarmiðstöðinni er ætlað að efla nýsköpun í atvinnulífi á landsbyggðinni, hafa frumkvæði að þróun viðskiptahugmynda og auka þannig fjölbreytni í atvinnulífi og atvinnutækifæri á landsbyggðinni. Iðnaðarráðuneytið fól Iðntæknistofnun Íslands að setja nýsköpunarmiðstöðina á stofn og reka hana til 31. desember 2005. Helstu verkefni nýsköpunarmiðstöðvar frá opnun eru þessi:

Stuðningsverkefni fyrir fyrirtæki í rekstri:


     a.      Verkefnið „Nýsköpun í starfandi fyrirtækjum“. Markmið að bæta árangur í rekstri, auka þekkingu og gera fyrirtæki hæfari til að takast á við nýjungar, fjórtán fyrirtæki hafa tekið þátt í verkefninu, níu hafa lokið því og fimm fyrirtæki munu ljúka verkefninu í byrjun árs 2005.
     b.      „Vöruþróun í starfandi fyrirtækjum“. Tuttugu og sex fyrirtæki hafa tekið þátt í verkefninu við þróun jafnmargra nýrra vörutegunda. Ellefu fyrirtæki hafa nú þegar lokið sínum verkefnum og sett vörur á markað og 15 fyrirtæki munu væntanlega ljúka sínum verkefnum í lok ársins 2004.
     c.      Verkefnið „Skrefi framar“ hefur að markmiði að styðja fyrirtæki til að afla sér ráðgjafar og byggja upp þekkingu til að auka veltu og arðsemi, 20 fyrirtæki hafa tekið þátt í verkefninu, ellefu hafa lokið því nú þegar og 8 munu ljúka því fyrir áramót 2004/2005 og eitt á miðju ári 2005.
     d.      Verkefnið „Hagnýt viðmið“ fyrir meðalstór fyrirtæki hefur verið rekið á landsvísu til að gefa fyrirtækjum færi á að meta rekstur sinn í samanburði við það besta sem gerist í Evrópu.
     e.      Fjögur hagnýt leiðbeiningarrit hafa verið gefin út og dreift til atvinnuráðgjafa, fyrirtækja og frumkvöðla um allt land: Vöruþróun, Gæðahúsið, Markaðsmál, Verkefnastjórnun. Fimmta leiðbeiningarritið, Klasar verður gefið út í lok október 2004.
     f.      Búið er að setja upp verkáætlun um þróun netsamstarfsverkefna/klasa, m.a. í samstarfi við Byggðastofnun og mun vinna samkvæmt þeirri áætlun hefjast í nóvember 2005.

Stuðningsverkefni fyrir frumkvöðla:


     a.      Vaxandi eftirspurn er eftir handleiðslu fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Unnið hefur verið að gerð nýs upplýsingaefnis fyrir frumkvöðla.
     b.      Gagnvirk handleiðsla er ný þjónusta sem opnuð verður á internetinu í nóvember. Upplýsingaefni, fræðsla og hagnýt rekstrartæki fyrir frumkvöðla og fyrirtæki.
     c.      Brautargengi er fimmtán vikna námskeið fyrir konur til að hvetja þær til atvinnusköpunar og til að bæta rekstur fyrirtækja sem þær reka. Námskeiðinu lýkur með gerð viðskiptaáætlunar. Námskeiðið hefur verið haldið samtímis með hjálp fjarfundarbúnaðar á Akureyri, Ísafirði og á Egilsstöðum og á haustmánuðum 2004 er kennt á Akureyri, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum. Alls hafa um 60 konur tekið þátt í verkefninu á landsbyggðinni.
     d.      Frumkvöðlaskólinn starfar á Akureyri. Kennt er á miðvikudögum og er náminu skipt í þrjú missiri. Fyrstu tvö byggjast á kennslu, en það þriðja á verkefnavinnu með frumkvöðlafyrirtæki. Nú þegar hefur hluti þátttakenda hafið rekstur/undirbúning að rekstri fyrirtækja.
     e.      Frumkvöðla- og handleiðslustyrkir styðja nýsköpunarhugmyndir einstaklinga og fyrirtækja. Styrkirnir eru til nýnæmisathugana, einkaleyfisumsókna, hönnunarverndar, viðskiptaáætlana, þróunar, prófana og annarra verkefna á frumstigi nýsköpunar.
     f.      Átak hefur verið gert í þátttöku örfyrirtækja í sjálfsmatsverkefninu „Hagnýt viðmið“ í samstarfi við atvinnuþróunarfélög og Samtök iðnaðarins. Ólympíuleikar ungra frumkvöðla voru haldnir 18.–19. júní sl. í samstarfi við Career Scotland og fimmtán önnur þátttökulönd. Stefnt er á að halda undankeppni í öllum landsfjórðungum á árinu 2004 í því skyni að auka áhuga nemenda á aldrinum 15–18 ára á nýsköpun.

Þjónusta við atvinnuþróunarfélög:


     a.      Vinna er hafin við ellefu samstarfsverkefni Impru og atvinnuþróunarfélaganna.
     b.      Fiskur undir steini – markmið að útbúa leiðbeiningarefni og rekstrarlíkan um stofnun og rekstur smábáta og minni fiskvinnsla fyrir atvinnuráðgjafa(Vestfirðir og Norðurland eystra).
     c.      Nýsköpunarnám fyrir grunnskóla á landsbyggðinni (Vestfirðir).
     d.      Námskeið um stofnun og rekstur fyrirtækja (Austurland).
     e.      Svæðisbundið ráðgjafaverkefni í fyrirtækjum (Vesturland).
     f.      Þarfagreining á upplýsinga- og hugbúnaðarþörfum atvinnuþróunarfélaganna.
     g.      Þróun verkskráningarkerfis fyrir atvinnuþróunarfélögin.
     h.      Reiknilíkan og leiðbeiningarefni fyrir lítil ferðaþjónustufyrirtæki.
     i.      Gagnabanki og leiðbeiningar um fjármögnun og stoðkerfi atvinnulífsins.
     j.      Gæðalíkan í ferðaþjónustu – námskeið (Vestmannaeyjar).
     k.      Reiknilíkan og leiðbeiningar fyrir smáiðnað og handverk.
     l.      Gagna- og verkfæragrunn fyrir atvinnuþróunarfélög var opnaður á internetinu í desember 2003.
     m.      Námskeiðið „Hlutverk ráðgjafans“ var haldið fyrir atvinnuráðgjafa í október. Alls sóttu 32 atvinnuráðgjafar alls staðar að af landinu námskeiðið.
     n.      Impra stóð að haustfundi atvinnuráðgjafa í samstarfi við Byggðastofnun í október.
     o.      Starfsmaður á Akureyri tekur þátt í þremur Evrópuverkefnum til þess að byggja upp þekkingu á Evrópusamstarfi á Akureyri og til þess að leggja sérstaka áherslu á þátttöku fyrirtækja á landsbyggðinni í Evrópuverkefnunum. Markmið tveggja verkefnanna er að auka þátttöku lítilla og meðalstórra fyrirtækja í rannsóknarverkefnum, koma þeim í tengsl við evrópsk fyrirtæki, hvetja til tækniyfirfærslu og betri nýtingar á upplýsingatækni í rekstri. Markmið þess þriðja er að efla frumkvöðlakraft ungs fólks á landsbyggðinni en verkefnið er unnið í samstarfi við Samband sveitarfélaga á Vesturlandi, m.a. með stuðningi Byggðastofnunnar.

Nýir samningar Byggðastofnunar við atvinnuþróunarfélögin.


    Hinn 14. febrúar 2003 voru undirritaðir nýir samningar Byggðastofnunar við átta atvinnuþróunarfélög um verkefni á sviði atvinnu- og byggðaþróunar. Með nýju samningunum er nánar kveðið á um verkefni félaganna, greiðslur og greiðslufyrirkomulag. Er tilgangurinn sá að gera samningana markvissari og gegnsærri. Jafnframt því að gerðir voru nýir samningar við félögin þá voru greiðslur til þeirra hækkaðar frá því sem verið hafði. Voru framlög til atvinnuþróunarfélaganna á árinu 2003 samtals 115 millj. kr. en voru á árinu 2002 103 millj. kr. Þessi hækkun var möguleg meðal annars með því að Byggðastofnun tók á sig allnokkra hækkun framlaga til félaganna umfram fjárveitingu til þeirra á fjárlögum. Á árinu 2004 eru framlög 120,8 millj. kr.
    Atvinnuþróunarfélögin gegna ákaflega veigamiklu og nauðsynlegu hlutverki hvert á sínu
starfssvæði. Markmið langflestra félaganna er að efla atvinnulíf og stuðla að bættum búsetuskilyrðum á starfssvæðinu. Sömuleiðis hafa flest félögin á stefnuskránni að vinna að nýsköpun og nýjungum í atvinnurekstri. Þessi markmið fara ágætlega saman við þau markmið sem sett eru fram í 1. gr. þeirra samninga sem nú eru í gildi við atvinnuþróunarfélögin. Þar segir að markmið samningsins sé að stuðla að jákvæðri þróun atvinnulífs, bæta almenn búsetuskilyrði, uppbygging og miðlun þekkingar og að Byggðastofnun og aðrar stofnanir hafi sem öflugastan samstarfsaðila. Fram kemur í 2. gr. samningsins að forsendur hans séu lög og reglugerð um Byggðastofnun. Í 3. gr. er tiltekið að atvinnuþróunarfélag vinni að; atvinnu- og byggðaþróun, atvinnuráðgjöf, nýsköpun, búsetuþáttum, upplýsingaöflun, endurmenntun, samstarfi og verkefnasamningum. Í 4. gr. kemur fram að hlutverk Byggðastofnunar sé að veita faglega aðstoð, vinna að samræmingu og tengslum og hafa umsjón með fundum og ráðstefnum. Í 5. og 6. gr. eru ákvæði um fjármögnun og greiðslur. Flest félögin eiga þess kost að fá greiddar rúmlega 16 millj. krónur í gegnum Byggðastofnun á ári. Í 7. gr. eru ákvæði um eftirfylgni og kemur þar fram að félögin hafa verulega upplýsingaskyldu við Byggðastofnun. Loks eru í 8. gr. ákvæði um að samningurinn sé uppsegjanlegur með sex mánaða fyrirvara og að Byggðastofnun skuli hafa frumkvæði að endurskoðun á tveggja ára fresti.

2. Aukin samvinna opinberra sjóða sem vinna að eflingu atvinnulífs.


Framkvæmd.


    Haldnir hafa verið fundir fulltrúa Ferðamálasjóðs, Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Lánasjóðs landbúnaðarins, Orkusjóðs, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Byggðastofnunar þar sem aðilar hafa skipst á upplýsingum. Ákveðið er að hafa slíka fundi með reglulegum hætti þannig að samráðsvettvangurinn verði virkur í þeim tilgangi að miðla upplýsingum milli aðila og skilgreina sameiginlega aðkomu að verkefnum í þeim tilvikum sem um slíkt er að ræða. Það er álit Byggðastofnunar að fenginni reynslu að samstarf þetta þurfi að vera með formlegum hætti á reglulegum samráðsvettvangi. Ekki er nægilegt að einungis forstjórar og stjórnarformenn viðkomandi sjóða hittist, heldur þarf að vera virkt samstarf á milli almennra starfsmanna einnig. Þar verði miðlað upplýsingum um verkefni hinna ýmsu sjóða og stofnana, og teknar ákvarðanir um frekara samstarf eftir því sem tilefni eru til. Hugmyndin er að formlegir fundir séu haldnir tvisvar á ári, en vænta má að óformlegt samstarf og upplýsingamiðlun sé mun tíðari.

3. Stækkun og efling sveitarfélaga.


Meginhugmynd.


    Að ríkisvaldið hafi samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um að vinna markvisst að því að stækka sveitarfélögin í landinu á næstu árum. Þetta verði m.a. gert með hækkun á
lágmarksíbúatölu samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Jafnhliða verði reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga breytt til að þær stuðli markvisst að þessari þróun. Má þar nefna að tekjuhá sveitarfélög greiði til sjóðsins, einnig að framlög úr sjóðnum verði byggð á almennum reglum en í minna mæli á því hvernig sveitarfélögin leysa verkefnin af hendi. Samhliða þessu verði undir forustu félagsmálaráðuneytisins unnið áfram að því að gera verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga markvissari og breyta tekjustofnum sveitarfélaga til samræmis við breytt verkefni.

Markmið.


    Að efla sveitarstjórnarstigið, treysta sjálfsforræði og sjálfsmynd byggðarlaga, gera stjórnsýslu þeirra markvissa, tryggja gæði þjónustu og efla staðbundið lýðræði. Stækkun sveitarfélaga og efling sveitarstjórnarstigsins er mikilvægur þáttur í að styrkja stöðu byggðarlaga hvar sem er á landinu.

Ábyrgð á framkvæmd.


Félagsmálaráðuneyti.


Framkvæmd.


    Félagsmálaráðherra hefur skipað verkefnisstjórn vegna átaks um eflingu sveitarstjórnarstigsins, sem hefur þegar tekið starfa. Jafnframt hefur ráðherra skipað nefnd sem gera á tillögur um nýja sveitarfélagaskipan, auk nefndar um aðlögun tekjustofna sveitarfélaga að
breyttum verkefnum og sveitarfélagaskipan. Verkefnisstjórn hefur yfirumsjón með átakinu og tryggir nauðsynlegt upplýsingastreymi milli verkefna. Störfum nefndanna er þannig hagað að atkvæðagreiðslur um sameiningartillögur geti farið fram vorið 2005.
    Þann 1. október var fulltrúum í tekjustofnanefnd fjölgað um tvo. Þar eiga nú sæti sex fulltrúar, þrír fulltrúar sveitarfélaga og þrír fulltrúar ríkisins.
    Verkefnisstjórnin hefur lagt fram tillögur til félagsmálaráðherra um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að treysta sveitarstjórnarstigið og efla sjálfsforræði byggðarlaganna. Haft var að leiðarljósi að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði skýr, þannig að ábyrgð á fjármögnun og stefnumótun sé á sömu hendi.
    Í tillögum sínum leggur verkefnisstjórnin mesta áherslu á að nærþjónustuverkefni á sviði velferðarmála verði flutt frá ríki til sveitarfélaga. Í þeim efnum er áhersla lögð á málefni fatlaðra og aldraðra, grunnheilbrigðisþjónustu og vinnumiðlun og ráðgjöf. Auk þess leggur verkefnisstjórnin til að framkvæmd opinbers eftirlits fari í auknum mæli fram á vegum sveitarfélaga.
    Sameiningarnefnd hefur lagt fram fyrstu tillögur að breytingum á sveitarfélagaskipan. Þær tillögur eru ekki endanlegar, heldur hafa sveitarstjórnir og íbúar tækifæri til að koma ábendingum og athugasemdum til nefndarinnar. Nefndin mun í kjölfarið leggja fram sínar lokatillögur, sem verða bindandi, og um þær verður kosið 23. apríl 2005.
    Við tillögugerðina lagði nefndin áherslu á að sveitarfélögin í landinu myndi heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði og verði nægilega öflug til að sinna lögbundnum verkefnum sínum.
    Gangi tillögur nefndarinnar eftir, ásamt þeim sameiningarviðræðum sem nú þegar eru hafnar, gæti sveitarfélögum fækkað úr 103 í 39 á næsta ári. Sveitarfélögum með færri en 1.000 íbúa fækkar mikið samkvæmt tillögunum, eða úr 71 sveitarfélagi í 13. Meðalíbúafjöldi í sveitarfélagi myndi hækka úr um 2.800 íbúum í um 7.600 íbúa að meðaltali.
    Nefnd um endurskoðun á reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skilaði tillögum sínum til félagsmálaráðherra í september 2002. Jöfnunarsjóðskafla laga um tekjustofna sveitarfélaga var breytt í desember 2002 og ný reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga tók gildi í febrúar 2003, þar sem tekið er fullt tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma í byggðaáætlun. Þess má vænta að frekari breytingar verði gerðar á jöfnunarsjóðnum á grundvelli tillagna tekjustofnanefndar, sem enn er að störfum.

4. Efling opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni.


Framkvæmd.


    Forsætisráðherra fór þess á leit í janúar 2003 að Halldór Blöndal, forseti Alþingis, og Magnús Stefánsson þingmaður yrðu með sér í ráðum um framkvæmd þessarar aðgerðar byggðaáætlunar og færu yfir með ráðherrum hvaða verkefni og störf hefðu verið færð til landsbyggðarinnar eða áform væru um að færa þangað. Þeir skiluðu skýrslu sinni til forsætisráðuneytisins í nóvember 2003. Í skýrslunni kemur m.a. fram að í viðræðum við ráðherra ríkisstjórnarinnar hafi komið fram vilji til að nýta þau tækifæri sem gæfust til að styrkja opinbera þjónustu á landsbyggðinni með því að flytja þangað verkefni og störf sem bæði eru takmörkuð við staðbundna þjónustu sem og þjónustu við stærri svæði. Skýrsluhöfundar benda á að því séu ýmsar skorður settar hversu hratt og í hve ríkum mæli slíkur flutningur á verkefnum og störfum geti orðið. Í því sambandi vilja þeir að áhersla verði einkum lögð á eftirfarandi:
  –     Að styrkja þær stofnanir sem fyrir eru á landsbyggðinni, m.a. með því að færa til þeirra verkefni þar á meðal frá öðrum ráðuneytum. Í því sambandi megi m.a. nefna menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, rannsóknastofnanir, embætti sýslumanna og skattstofur.
  –     Að fjölga störfum sem krefjast háskólamenntunar. Beina beri athygli sérstaklega að einum byggðarkjarna í hverjum landsfjórðungi sem síðar með margfeldisáhrifum getur haft jákvæð áhrif á störf og búsetu í nálægum byggðarlögum. Í því sambandi beri einkum að hyggja að eflingu menntastofnana og sjúkrahúsa. Jafnframt sé mikilvægt að styrkja þá vísa að rannsóknastarfsemi sem byggðir hafa verið á landsbyggðinni með fjölgun verkefna og samstarfi fleiri stofnana.
    Forsætisráðherra mun í framhaldi af þessari skýrslu vinna áfram að gerð tillagna að áætlun um eflingu opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni. Að því er stefnt að slík tillaga liggi fyrir á næstu mánuðum.

5. Athugun á búsetuskilyrðum fólks og 6.


Athugun á starfsskilyrðum atvinnuveganna.


Framkvæmd.


    Iðnaðarráðherra fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Byggðarannsóknastofnun við Háskólann á Akureyri að gera heildarathugun á búsetuskilyrðum fólks og fyrirtækja í landinu. Rannsókn var unnin á tímabilinu júní 2002 til janúar 2003 og birtust niðurstöður hennar í skýrslunni „Fólk og fyrirtæki: Um búsetu og starfsskilyrði á landsbyggðinni“ sem kom út í mars 2003.
    Á vegum iðnaðarráðuneytisins er verið að kanna möguleika á að teknar verði upp endurgreiðslur til framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni á hluta flutningskostnaðar. Vinnan byggist á tillögum starfshóps sem samgönguráðherra skipaði í kjölfar umfjöllunar ríkisstjórnarinnar um flutningskostnað haustið 2001 og greinargerð Byggðastofnunar sem unnin var í framhaldinu.

7. Byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð.
Meginhugmynd.

    Að ríkið og sveitarfélögin vinni saman að gerð byggðaáætlunar um það hvernig megi styrkja byggð við Eyjafjörð svo fólki fjölgi þar á næstu árum um a.m.k. 2–3% á ári og að atvinnulíf og menningarlíf eflist. Unnið verði að eflingu Akureyrar sem skólabæjar og menningarmiðstöðvar, svo og að eflingu ferðaþjónustu, fiskeldis og fleiri atvinnugreina á svæðinu. Einnig verði unnið að flutningi starfa og verkefna í opinberri þjónustu til svæðisins, t.d. á sviði sjávarútvegs í tengslum við uppbyggingu rannsókna- og nýsköpunarhúss við Háskólann á Akureyri. Þá felast margvísleg sóknarfæri í að efla starfsemi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.

Markmið.


    Að efla Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið sem öflugasta þéttbýlissvæðið utan höfuðborgarsvæðisins og styrkja þannig jafnframt byggð á Mið-Norðurlandi. Mikilvægt er í því sambandi að horfa ekki eingöngu til uppbyggingar atvinnulífs heldur stefna líka að því að efla hvers kyns þjónustu, afþreyingu, menningarstarfsemi og annað það sem bætir mannlíf á staðnum og dregur fólk að.

Ábyrgð á framkvæmd.
Iðnaðarráðuneyti.
Framkvæmd.

    Iðnaðarráðherra skipaði í október 2002 fimm manna verkefnisstjórn um byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar var að gera tillögu til ráðherra um stefnumörkun byggðaáætlunar fyrir Eyjafjörð. Miðað var við að nefndin lyki störfum eigi síðar en við lok ársins 2004. Nefndin skilaði af sér lokaskýrslu og tillögum í apríl 2004.
    Í niðurstöðum skýrslu verkefnisstjórnar um byggðaáætlun Eyjafjarðar, er lagt til að gerður verði svokallaður Vaxtarsamningur Eyjafjarðarsvæði frá 2004 til 2007 sem byggist á nýjum aðferðum við að styrkja hagvöxt einstakra svæða. Samningurinn taki mið af sambærilegum aðferðum, sem best hafa tekist erlendis. Einnig er að finna m.a. 20 forgangstillögur. Margar af þessum tillögum bera merki um nýjungar svo sem er varðar háskóla Sameinuðu þjóðanna, líftækninet, stjórnsýslu fiskeldismála, endurbætur í samgöngumálum, aðkomu OECD að byggðamálum og svo mætti halda áfram.
    Tillögur skýrslunnar eru um margt nýjung á sviði byggðamála hér á landi, ekki síst hvað varðar uppbyggingu í formi svokallaðs vaxtarsamnings þar sem lögð er áhersla á klasa á sviði mennta og rannsókna, á heilsusviði, ferðaþjónustu og á sviði matvæla. Tillögurnar taka mið af sambærilegum áherslum víða erlendis í fjölmenni eða fámenni, þar sem lögð er aukin áhersla á að efla byggðakjarna með markaðstengdum aðgerðum þar sem atvinnulíf ber uppi hagvöxt svæðisins.
    Það er mat verkefnisstjórnar að Eyjafjarðarsvæðið eigi sér mikla möguleika til vaxtar og þróunar og aukinnar samkeppnishæfni, með þeim aukna fjölbreytileika og bættum lífskjörum sem því fylgir og að fyrir árið 2020 verði íbúatala Eyjafjarðarsvæðisins um 30.000.
    Rúmlega 40 aðilar störfuðu í sjö mismunandi starfshópum á vegum verkefnisstjórnarinnar, þar sem komu að hinir ýmsu aðilar m.a. frá öðrum ráðuneytum og stofnunum þeirra, atvinnulífi, launþegum, sérfræðingar, o.fl. Einnig voru fengnir erlendir sérfræðingar til landsins og farnar voru kynnisferðir erlendis. Jafnframt hafði verkefnisstjórnin samvinnu við bæjaryfirvöld og fulltrúa sveitarfélaga á svæðinu og nálægum byggðarlögum.
    Á grunni skýrslunnar var strax hafist handa á vegum ráðuneytisins við að útfæra nánar tillögur að Vaxtarsamningi í nánu samráði við viðkomandi aðila á Eyjafjarðarsvæðinu. Þann 5. júlí sl. eða einungis þremur mánuðum eftir kynningu skýrslunnar var skrifað undir Vaxtarsamning á milli helstu aðila á Eyjafjarðarsvæðinu og iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerðar Sverrisdóttur, fyrir hönd iðnaðarráðuneytisins og stjórnvalda.
    Heildarfjármagn til reksturs samningsins þessi tæp fjögur ár er áætlað 177,5 millj. kr. þar af
kemur um helmingur frá sveitarfélögum á svæðinu, einkaaðilum og stofnunum og um helmingur frá stjórnvöldum.
    Þannig leggur iðnaðarráðuneytið fyrir hönd stjórnvalda til 90 millj. kr. þar sem byggt er á fjárheimildum innan ramma byggðaáætlunar sem þegar eru fyrir hendi fyrir árin 2004–5 og væntanlegri byggðaáætlun fyrir árin 2006–2007, með fyrirvara um samþykki Alþingis. Mótframlag að upphæð 87,5 millj. kr. verður fjármagnað af öðrum aðilum samningsins þ.e. Akureyrarbæ, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar fyrir hönd sveitarfélaga í Eyjafirði, Byggðastofnun, Háskólanum á Akureyri, Iðntæknistofnun Íslands, Kaupfélagi Eyfirðinga, Skrifstofu atvinnulífsins á Norðurlandi og Útflutningsráði Íslands. Framlag stofnana verður að mestu í formi sérfræðivinnu. Auk framangreindra þessara aðila eru stéttarfélög á Eyjafjarðarsvæðinu aðilar að samningnum.
    Stjórn og starfsemi á vegum Vaxtarsamnings Eyjafjarðarsvæðisins hefur þegar tekið til starfa.

8. Efling núverandi landbúnaðarskóla


sem fræðslu-, rannsóknar- og þróunarseturs.


Meginhugmynd.


    Í maí sl. voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999 og lögum um rannsóknir í þágu atvinuveganna, nr. 65/1965, sem fela það í sér að
stofnanirnar Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum eru sameinaðar í eina stofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands. Hin nýja stofnun, Landbúnaðarháskóli Íslands, er vísindaleg fræðslu- og rannsóknastofnun sem hefur það markmið að veita fræðslu, hagnýta starfsmenntun, símenntun og háskólamenntun studda öflugum rannsóknum, fyrir samkeppnishæfan og fjölþættan landbúnað sem byggist á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda landsins.

Hólaskóli.


    Hólaskóli er mennta- og rannsóknastofnun sem býður nemendum hagnýtt nám á sviði hestamennsku, fiskeldis og ferðaþjónustu í dreifbýli. Meginmarkmið Hólaskóla er að styðja nýsköpun, framþróun og vöxt í þessum atvinnugreinum þannig að þær geti orðið mikilvægar í atvinnulífi dreifbýlis. Þetta gerir Hólaskóli með öflugu mennta- og rannsóknarstarfi, sem býr einstaklinga undir þátttöku í atvinnulífinu, sjálfstæð vísindastörf eða frekara háskólanám.

Markmið.


    Að efla rannsókna- og fræðslustofnanir landbúnaðarins í átaki til eflingar landbúnaði og
atvinnulífi í sveitum almennt.

Ábyrgð á framkvæmd.


Landbúnaðarráðuneyti.


Framkvæmd.


    Landbúnaðarháskóli Íslands tekur formlega til starfa 1. janúar 2005. Fram að þeim tíma starfa núverandi stofnanir í óbreyttu formi en heildarfjöldi nemenda við skólann er nú 272 og starfsmenn eru um 140.
    Í apríl 2003 setti landbúnaðarráðherra reglugerð sem gerir Hólaskóla meðal annars kleift
að starfa sem háskólastofnun. Þetta gerir skólanum kleift að brautskrá nemendur með háskólapróf. Við skólann eru starfræktar ferðamáladeild, fiskeldisdeild og hrossaræktardeild.Nemendur við Hólaskóla eru nú um 90 og stöðugildi við skólann 47.

9. Efling fiskeldis.
Framkvæmd.

    Fiskeldi fellur undir tvö ráðuneyti, eldi sjávardýra undir sjávarútvegsráðuneyti og eldi ferskvatnsfiska undir landbúnaðarráðuneyti. Á vegum þessara ráðuneyta er starfandi sérstök sameiginleg nefnd, fiskeldisnefnd, sem er til ráðgjafar og stefnumótunar um eldi vatnafiska og nytjastofna bæði á landi og í sjó.
    Á árinu 2001 til 2002 var unnið verkefnið „Þorskeldi á Íslandi: Stefnumótun og upplýsingabanki“. Um var að ræða samstarfsverkefni sjávarútvegsráðuneytis, auðlindadeildar Háskólans á Akureyri, Hafrannsóknastofnunarinnar og sjávarútvegsfyrirtækja. Meginmarkmið verkefnisins voru að meta samkeppnishæfni þorskeldis á Íslandi, móta stefnu í rannsókna- og þróunarvinnu og afla og miðla upplýsingum um þorskeldi. Hópurinn skilaði skýrslu sem lögð er til grundvallar við stefnumótun á þessu sviði.
    Sjávarútvegsráðherra hefur stofnað sérstakan sjóð, AVS-sjóð, sem ætlað er að standa á bak við átak til að auka virði íslenskra sjávarafurða. Á vegum sjóðsstjórnar er starfandi sérstakur fiskeldishópur sem m.a. fer með söfnun upplýsinga, samhæfingu, kynningu og stefnumótun varðandi eldi sjávardýra. Á undanförnum árum hefur sjávarútvegsráðherra árlega veitt sérstaka styrki til fiskeldisrannsókna.
    Árið 2002 var unnin fyrir sjávarútvegsráðherra skýrsla um uppbyggingu seiðaeldis á þorski á Íslandi. Í samræmi við tillögur skýrslunnar og álit fiskeldishópsins var unnið að því að fá helstu aðila sem hafa áhuga á þorskseiðaeldi til samstarfs um uppbyggingu einnar stöðvar. Nú hefur verið stofnað fyrirtæki í eigu fjögurra aðila um rekstur seiðaeldisstöðvar á Stað í Grindavík. Þar munu m.a. fara fram rannsóknir er miða að kynbótum á eldisfiski.
    Landbúnaðarráðuneytið hefur lagt áherslu á bleikjueldi, en Íslendingar þykja leiðandi á því sviði í heiminum. Útflutningsverðmæti bleikjuafurða er nú um 600 millj. kr. á ári og er gert ráð fyrir verulegri aukningu á næstu árum. Leggja þarf sérstaka áherslu á öflugt markaðsstarf fyrir bleikjueldið.
    Laxeldi hefur verið leyft í nokkrum fjörðum á Austurlandi og fer mest af framleiðslu eldislax fram í þeim landshluta en annað fiskeldi víða um land.
    Fiskeldi er víða umtalsverður atvinnuþáttur og nefnir landbúnaðarráðuneytið sem dæmi að í Öxarfirði og Kelduhverfi hafi fiskeldisframleiðsla skapað mikla atvinnu í héraði þar sem dregið hefur úr hefðbundnum landbúnaði eins og víða annars staðar, og svo megi segja um fleiri héruð.
    Helmingi af andvirði Steinullarverksmiðjunnar eða sem samsvarar 105 millj. kr. hefur verið varið til tveggja verkefna á sviði fiskeldis, en samkvæmt lögum nr. 57/2002, um breytingar á lögum um steinullarverksmiðju, skyldi helmingur söluandvirðis verksmiðjunnar renna til samgöngubóta eða annarra verkefna í þeim sveitarfélögum sem ættu verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi Steinullarverksmiðjunnar, samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ákveðið var að veita annars vegar 35 millj. kr. til Sægulls ehf., til að ljúka tilraunum við barraeldi í samvinnu við Nýsköpunarsjóð, og hins vegar 70 millj. kr. til fiskeldisrannsókna við Hólaskóla.

10. Fjarskiptamál í dreifbýli.
Framkvæmd.

    Umtalsverður kostnaður er við að leggja ljósleiðara til allra lögbýla í dreifbýli og fjarskiptafyrirtæki telja það ekki arðbæra fjárfestingu miðað við núverandi tækni og markaðsaðstæður. Innan Símans er verið að kanna möguleika á háhraðasambandi í dreifbýli eftir hagkvæmari leiðum. Landbúnaðarráðuneyti og samgönguráðuneyti hafa undanfarin misseri unnið saman innan verkefnisins Upplýsingatækni í dreifbýli (UD) að því að leita leiða til að auka og bæta gagnaflutningsmöguleika í dreifðari byggðum landsins. Í október 2003 var undirritaðir samningur milli Símans og UD um útbreiðslu ISDN-tenginga í dreifbýli. Undanfarin missiri hefur flutningsgeta grunnnetsins verið stórbætt. Nú er svo komið að einungis 65–70 býli á landinu öllu hafa ekki möguleika á ISDN. Síminn vinnur að áætlun með því markmiði að bjóða öllum lögbýlum ISDN samband með nýrri og endurbættri tækni.
    Í ársbyrjun 2004 skipaði samgönguráðherra stýrihóp til að vinna að gerð fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2005–2010. Með henni er stefnt að því að móta heildarstefnu í fjarskiptamálum á Íslandi, til þess m.a. að kortleggja með hvaða hætti stjórnvöld geta komið að frekari uppbyggingu í fjarskiptamálum þar sem fjarskiptafyrirtækin telja að ekki séu markaðsforsendur fyrir uppbyggingu.
    Stýrihópnum er m.a. ætlað að skoða og gera tillögur um stefnu stjórnvalda er varðar gagnaflutningstengingar á landsbyggðinni, farsímasamband á þjóðvegum og fleira. Miðað er við að áætlunin verði lögð fyrir Alþingi á haustþingi 2004.

11. Jöfnun verðs á gagnaflutningi.
Framkvæmd.

    Í leyfisbréfi Landssímans og samkomulagi fyrirtækisins við samgönguráðherra frá 16. mars 2001 er tryggð stórfelld uppbygging ATM-gagnaflutningsneta og ADSL-þjónustu, auk þess sem framtíð NMT, langdræga farsímakerfisins, er tryggð. Í kjölfar samkomulagsins kynnti Landssími Íslands hf. aðgerðir til að mæta þörfum landsbyggðarinnar á gagnaflutningsþjónustu og til að ná fram markmiðum um aukna gagnaflutningsþjónustu við almenning og atvinnulíf í landinu. Í áætlunum fyrirtækisins felst stórfelld verðlækkun og aukin þjónusta um allt land. Landssíminn skuldbatt sig til fimm ára til að tryggja viðskiptavinum á öllum þéttbýlisstöðum með fleiri en 150 íbúa aðgang að tveggja megabita samböndum yfir ATM- netið eða sambærilegri þjónustu á verði, sem sé það sama innan hvers svæðis en aukakostnaður við tengingar út fyrir svæði verði ekki umfram 17.000 kr. á mánuði.
    Landssíminn hefur þegar uppfyllt ákvæði ATM samningsins. Nú býðst 2 Mb/s ATM samband á öllum þéttbýlisstöðum með 150 íbúa eða fleiri, alls 69 þéttbýliskjarnar. Auk þess hafi 2 Mb/s sambandi eða stærra verið komið upp á þeim skólasetrum sem samningurinn tiltók, og víðar. Einnig er verðskrá fyrir ATM 2 Mb/s innan ákvæða samningsins. Þessu til viðbótar að innan og milli 20 þéttbýliskjarna gildi sama verð, þ.e. ekki er tekið millisvæðagjald. Auk þess að á 40 stöðum þar sem ADSL þjónustu hefur verið komið á, bjóðist einnig svokölluð IP-tengileið sem kalla má jafngilda ATM tengileið og að innan og milli þessara 40 staða sé ekkert millisvæðagjald.

12. Efling náms með fjarskipta- og upplýsingatækni.
Meginhugmynd.

    Menntamálaráðuneytið hefur mótað stefnu um „rafræna“ menntun og unnið að ýmsum verkefnum í þessum málaflokki. Lagt er til að haldið verði markvisst áfram á þeirri braut sem ráðuneytið hefur markað. Í því sambandi er lögð áhersla á að starfsemi símenntunarstöðva verði efld, að starfsnám verði gert aðgengilegt með fjarnámi og að kennsla á grunnskóla- og framhaldsskólastigi verði efld með nýtingu upplýsingatækni. Einnig að fólki hvar sem er á landinu verði gert kleift að stunda háskólanám í fjarnámi.

Markmið.


    Að styrkja byggð á landsbyggðinni með bættu aðgengi að menntun á öllum stigum, þ.e. grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Þetta á einnig við um starfsnám þar sem nemendur geta sinnt bóklegu námi í fjarnámi en verklegu námi í heimabyggð. Þá hefur mikilvægi símenntunar aukist á undanförnum árum og þarf hún að standa almenningi til boða óháð búsetu.

Ábyrgð á framkvæmd.
Menntamálaráðuneyti.
Framkvæmd.

    Menntamálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti gerðu árið 2003 með sér samkomulag um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni. Í samkomulaginu er m.a. lögð áhersla á eflingu náms með fjarskipta- og upplýsingatækni. Upplýsingatækni verður nýtt til að efla símenntun og starfsmenntun á landsbyggðinni og stuðla að auknu námsframboði á öllum skólastigum. Einnig verður unnið að því að auka aðgengi að menningarefni frá ólíkum landsvæðum. Á grundvelli samkomulagsins munu ráðuneytin sameiginlega leggja fram að lágmarki 100 millj. kr. á ári í þrjú ár, samtals 300 millj. kr. í verkefni í ólíkum landshlutum. Fjármununum er ráðstafað til þessara verkefna á árinu 2004:
     a.      Háskólanámssetur á Egilsstöðum.
     b.      Fræðasetur á Húsavík.
     c.      Efling þjónustu vegna háskólanáms og símenntunar á Vestfjörðum.
     d.      Efling símenntunarstöðva um land allt.
     e.      Kjarnaskólar og framhaldsskólar á landsbyggðinni vegna starfsmenntunar.
     f.      Þróunarverkefni í grunnskólum í dreifðum byggðum á Vestfjörðum.
     g.      Þróun framhaldsskóla á Snæfellsnesi.
     h.      Háskólar vegna skipulags og þróunar námsframboðs í fjarkennslu.
     i.      Skráningarvinna í menningarstofnunum og miðlun menningarefnis.
    Menntamálaráðuneyti leggur í upphafi árs 2005 fram áætlun um samstarfsverkefni ráðuneytanna til samþykktar iðnaðarráðuneytis. Menntamálaráðuneyti leggur í mars á hverju ári fram skýrslu þar sem lagt er mat á árangur verkefnanna. Í lokaskýrslu, sem menntamálaráðuneyti vinnur og leggja á fram í mars 2006 verður lagt mat á heildarárangur samkomulagsins.

13. Efling fjarvinnslu hjá hinu opinbera.
Meginhugmynd.

    Hið opinbera geri fjarvinnsluáætlun fyrir ráðuneyti og opinberar stofnanir þar sem fram komi hvernig opinberum starfsmönnum verði gert kleift að vinna störf sín að hluta eða öllu leyti í fjarvinnslu. Einnig hvernig hið opinbera geti í auknum mæli keypt fjarvinnsluverkefni í verktöku af fyrirtækjum og sjálfstætt starfandi verktökum.

Markmið.


    Að skapa tækifæri fyrir fólk til að búa fjarri vinnustað ríkisstofnana og eiga þannig kost á störfum við hæfi óháð búsetu. Fjölmörg störf í þekkingarsamfélagi nútímans eru þess eðlis að í stað þess að starfsmaður mæti daglega á vinnustað nægir að hann mæti til dæmis 1–3 daga í viku. Þetta gerir að verkum að fólk getur ferðast mun lengri vegalengd á vinnustað sinn en ef því væri skylt að mæta þangað daglega. Fjarvinnsla eykur jafnframt möguleika fólks til „tvöfaldrar búsetu“, en hún hefur aukist á undanförnum árum. Einnig eykur fjarvinnsla möguleika á sveigjanlegum vinnutíma sem er kostur fyrir fjölskyldufólk. Ef kostir fjarvinnslu verða hagnýttir fyrir umtalsverðan hluta vinnumarkaðarins er líklegt að það dragi úr umferð vegna færri ferða fólks til og frá vinnu og bjóði jafnframt upp á nýjar og hagkvæmar lausnir í skipulagsmálum. Loks má nefna að fjarvinnsla getur sparað ríkinu húsnæðiskostnað.

Ábyrgð á framkvæmd.


Fjármálaráðuneyti.


Framkvæmd.


    Verkefnið er tvíþætt. Fyrri þátturinn fjallar um fjarvinnu en það er þegar ráðningarsamband er milli vinnuveitanda og starfsmanns sem beitir upplýsingatækninni við vinnu sína fjarri reglulegri starfsstöð vinnuveitandans. Hluti ríkisstarfsmanna vinnur nú þegar með þessum hætti heima hjá sér, á ferðalögum eða annars staðar. Umfang fjarvinnu hefur ekki verið kannað hér á landi. Kannanir benda til að í ríkjum Evrópusambandsins hafi 13% vinnandi fólks unnið störf sín í fjarvinnu að einhverju marki árið 2002 og tvöfalt fleiri í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Fólki í fjarvinnu fjölgar ört á báðum þessum svæðum.
    Vonir eru bundnar við aukna fjarvinnu hér á landi bæði í tengslum við byggðaáætlun og nýja stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið „Auðlindir í allra þágu“. Í þeirri áætlun er fjármálaráðuneytinu falið að vinna að náskyldu verkefni í samráði við umhverfisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga:
    „Kannað verði hvernig megi nýta möguleika tækninnar í tengslum við byggðaþróun og fjölskyldustefnu og hvernig megi fækka ferðum almennings til og frá vinnu í samræmi við meginmarkmið Staðardagskrár 21.“
    Úr því mál er varða fjarvinnu í tengslum við byggðaáætlun hafa verið tekin upp á víðtækari grundvelli í stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið þykir rétt að áframhaldandi vinna við það fari fram á þeim vettvangi fremur en undir merkjum byggðaáætlunar. Drög að greiningu á helstu þáttum liggur að mestu fyrir en margt þarfnast enn frekari skoðunar, svo sem réttindi og skyldur starfsfólks í fjarvinnu, stjórnunarleg og félagsleg atriði, kostnaður og fjárhagslegur ávinningur, tölvu- og fjarskiptabúnaður og öryggismál. Þróun á þessu sviði hjá hinu opinbera hlýtur að haldast nokkuð í hendur við þróun á hinum almenna vinnumarkaði, enda sambærileg úrlausnarefni sem menn standa frammi fyrir á báðum stöðum.
    Síðari þáttur verkefnis varðar aukin innkaup ríkisaðila á verkefnum sem unnin eru í fjarvinnslu af verktökum. Þessi þáttur fellur vel að innkaupastefnu ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2003–2006 sem fjármálaráðuneytið vinnur að og verkefni á sviði upplýsingasamfélagsins „Auðlindir í allra þágu“ sem er lýst þannig:
    „Opinberir aðilar bjóði út ákveðna aðgerðakjarna, hugbúnaðarþróun, upplýsingatækniþjónustu og -rekstur þar sem því verður við komið og hagkvæmt þykir. Verkefni hins opinbera á að leysa þar sem þau eru best leyst, t.d. með því að einkafyrirtæki taki að sér verkefni ef hægt er að leysa þau betur þar. Þannig verði stefnt að auknum sveigjanleika í rekstri opinberra stofnana.“
    Vegna þess að mál er varða aukin kaup á fjarvinnsluverkefnum í verktöku falla undir víðtækari stefnu ríkisstjórnarinnar um innkaup ríkisins er talið rétt að áframhaldandi vinna við þau fari fram á þeim vettvangi. Í framhaldi af samþykkt innkaupastefnunnar sendi fjármálaráðuneytið, haustið 2002, umburðarbréf til ráðuneyta og stofnana um að þær móti eigin innkaupastefnu á grundvelli innkaupastefnu ríkisins. Þessu hefur verið og verður fylgt eftir á ýmsan hátt á næstu misserum og í því sambandi m.a. litið til forverkefnis Iðntæknistofnunar frá árinu 1999 um Nýsköpun í gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni.

14. Verkefnið „rafrænt samfélag“.
Framkvæmd.

    Efnt var til samkeppni um rafrænt samfélag í upphafi árs 2003. Byggðastofnun annaðist framkvæmd samkeppninnar, en byggðarlögum af landsbyggðinni gafst kostur á þátttöku. Þrettán byggðarlög tóku þátt í forvali samkeppninnar og á endanum valdi þriggja manna valnefnd, skipuð af iðnaðarráðherra, tvö þeirra til þátttöku í þróunarverkefni um rafrænt samfélag. Verkefnin eru annars vegar Sunnan 3 sem er samstarfsverkefni sveitarfélaganna Árborg, Hveragerði og Ölfus og hins vegar Virkjum alla sem er samstarfsverkefni Húsavíkurbæjar, Aðaldælahrepps og Þingeyjarsveitar. Verkefnin hófust bæði s.l. vor með undirskrift samninga á milli Byggðastofnunar og viðkomandi byggðarlaga. Framlag ríkissjóðs til verkefnisins um rafrænt samfélag nemur samtals 120 millj. kr. og dreifist á þrjú ár. Framlag byggðarlaganna er nokkuð hærra, enda var skilyrði að framlag þeirra yrði a.m.k. jafnt framlagi ríkissjóðs.

15. Alþjóðlegt samstarf í byggðamálum.


Meginhugmynd.


    Alþjóðlegt samstarf í byggðamálum verði aukið verulega frá því sem nú er. Í því sambandi er lagt til að stuðlað verði að þátttöku sveitarfélaga, atvinnuþróunarfélaga og fyrirtækja í alþjóðlegum verkefnum og að Ísland taki þátt í Norðurslóðaáætlun ESB.

Markmið.


    Að auka þátttöku landsbyggðarfyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga í alþjóðlegu samstarfi, en hún hefur verið fremur lítil. Þátttaka Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi hefur aukist verulega á undanförnum árum, ekki síst í kjölfar EES-samningsins. Íslendingar hafa náð mjög góðum árangri á sumum sviðum alþjóðlegs samstarfs, einkum með þátttöku í rammaáætlunum Evrópusambandsins. Þá þurfa Íslendingar að fylgjast vel með stefnu annarra þjóða í byggða- og atvinnumálum og nýta sér þær hugmyndir sem líklegar eru til að geta gagnast í þeim málaflokkum hér á landi. Mikilvægt er að samþætta ólíkar aðgerðir stjórnvalda í byggðamálum, svo sem í samgöngumálum, menntamálum, heilbrigðismálum, atvinnumálum, félagsmálum og umhverfismálum. Í því sambandi er gagnlegt að draga lærdóm af reynslu annarra þjóða af samræmdri byggðastefnu.

Ábyrgð á framkvæmd.


Iðnaðarráðuneyti.


Framkvæmd.


    Vorið 2002 gerðust Íslendingar aðilar að Norðurslóðaáætlun ESB NPP (Northern Periphery Programme). Áætlunin nær til norðlægra svæða í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Skotlandi, en einnig til Grænlands, Færeyja og Íslands. Meginmarkmið áætlunarinnar er að stuðla að eflingu atvinnu- og efnahagslífs svæða og byggða með svipaðar aðstæður, með samstarfsverkefnum yfir landamæri á milli einstaklinga, fyrirtækja og stofnana í þessum landshlutum. Reynt er að koma í veg fyrir að landamæri þjóðríkja sé hindrun í samstarfi og framþróun byggða og atvinnulífs með það að markmiði að tækifæri og styrkleikar svæðanna fái notið sín sem best.
    Áætlunin er rekin á svipuðum forsendum og rannsóknaráætlanir innan EES-samningsins, þar sem innsendar umsóknir keppa í gæðum um það fjármagn sem til ráðstöfunar er. Með aukinni alþjóðavæðingu er sífellt mikilvægara að vinna að alþjóðlegum verkefnum til að auka samkeppnishæfni byggða og atvinnulífs. Framlag íslenskra stjórnvalda til áætlunarinnar eru 25 millj. á ári til ársins 2006. Heildarfjármagn áætlunarinnar er um 5 milljarðar íslenskra kr. fyrir árin 2001–2006. Einstök verkefni fá síðan stuðning, eftir mat sérfræðinga frá öllum aðildarlöndunum og er stuðningur háður a.m.k. 40%–50% mótframlagi umsóknaraðila, þó að hámarki 70.000 evrur hvað íslensk verkefni varðar.
    Nú þegar eru íslenskir aðilar þátttakendur í 14 verkefnum áætlunarinnar sem telja verður afar góðan árangur og sýnir um leið þau tækifæri sem bjóðast með verkefnum sem þessum, fyrir fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga.
    Í þessu sambandi er þess að geta að þegar er starfandi nefnd norrænna og skoskra aðila um svæðisbundin málefni er ber heitið „ Nordic-Scottish Co-operation Liaison Group“, er fjallar um mögulegt samstarf, upplýsingamiðlun og verkefni sem nýtast kann þessum aðilum. Fundir þessara aðila hafa verið haldnir í tengslum við NPP fundi. Starf innan nefndarinnar hefur einnig snúið að því að auka möguleika þessara landa innan annarra og tengdra alþjóðlegra verkefna sem tengjast svæðinu á einn eða annan hátt. Nýlega vann skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði byggðamála, Nordregio, einnig skýrslu um möguleika og áherslur á þessu sviði, en skýrslan ber heitið „Trans-National Nordic-Scottish Co-operation – Lessons for Policy and Practice“ og má finna á heimasíðu nefndarinnar www.eprc. strath.ac.uk/nordic/projects.htm
    Ísland tekur einnig þátt í Norrænu Atlantsnefndinni – NORA verkefninu sem er skammstöfun sem stendur fyrir Nordisk Atlantsamarbejde. Nefndin heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og telst vera hluti af norrænu samstarfi á sviði byggðamála og svæðasamvinnu. NORA veitir styrki til samstarfsverkefna er tengjast þróun atvinnulífs, nýsköpun og rannsóknasamstarfi. Formlegur umsóknarfrestur er einu sinni á ári og styrkir eru veittir að undangengnu mati sérfræðinga – innan lands sem og í öðrum aðildarlöndum. Til að fá styrk þarf að vera um samstarfsverkefni á milli landanna að ræða.
    Starfssvæði NORA er Ísland, Færeyjar, Grænland og Norður- og Vestur-Noregur. Markmið NORA er að efla samstarf innan starfssvæðis NORA með því að styðja við atvinnu- og byggðaþróunarverkefni. Miðlun þekkingar og reynslu innan svæðisins er talin mikilvæg leið til að yfirvinna hindranir sem felast í miklum fjarlægðum og strjálbýli.
    NORA hefur auglýst eftir umsóknum um styrki til þróunarverkefna einu sinni á ári, að jafnaði síðla vetrar og hafa umsóknir verið afgreiddar að vori. Styrkfjárhæðir geta numið allt að 500.000 dönskum kr. á ári. Einungis er greitt fyrir hluta af kostnaði við hvert verkefni og aldrei meira en 50% af heildarkostnaði og til að fá styrk þarf að vera um samstarfsverkefni á milli landanna að ræða.
    Íslendingar eru þátttakendur í fjölmörgum verkefnum á vegum NORA og hefur árangur verið góður. Íslenskir aðilar eru meðal þátttakenda í margvíslegum verkefnum svo sem verkefni vegna kortagagnagrunns um ferðaþjónustu, íþrótta- og menningarferðaþjónusta, þróun nýrra aðferða við kræklinga-, þorsk- og seiðaeldi, þróun á rafrænni afladagbók, þróun tækis til að afhausa smáan þorsk, þróun köfunarbáts til hafsbotnsrannsókna, framleiðsla sands til byggingariðnaðar, þróun jarðarberjaræktunar, ferðastyrkur vegna alþjóðlegs móts ungra leiðtoga í Nuuk, rannsókn á nýsköpunarumhverfi smárra samfélaga á norðurslóðum, í tengslum við UNESCO verkefnið MOST – CCPP, uppbygging tengslanets á meðal stofnana sem veita ráðgjöf til fyrirtækja í olíu og gasiðnaði, fiskiðnaði, fiskeldi og framleiðsluiðnaði og ferðastyrkur vegna alþjóðlegrar tískusýningar á Íslandi o.fl. Af þessari upptalningu má sjá að umsóknir og verkefni eru afar fjölbreytt. Árleg fjárveiting til NORA er um 4,3 millj. d. kr. sem Norræna ráðherranefndin leggur til og annar sú fjárveiting engan veginn eftirspurn verkefna.
    Á fundum NORA hefur einnig verið fjallað um mikilvægi þess að útvíkka starf NORA í einni eða annarri mynd, (svo sem auknum tengslum, verkefnum, ráðstefnum) til landa í kringum Norður-Atlantshaf, þar sem efnahagsstarfsemi fyrirtækja, stofnana sem og menningarleg starfsemi er í vaxandi mæli að tengjast næstu svæðum, svo sem í Skotlandi, Shetlandi, Orkneyjum sem og á austurströnd Kanada. Einnig verður horft til stefnumörkunar Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem áhersla var einnig lögð á aukið samstarf og áherslur á vestnorræna svæðinu.
    Byggðastofnun annast umsýslu NPP og NORA á Íslandi, en verkefnin heyra undir iðnaðarráðuneytið. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Byggðastofnunar.

16. Aukið verðmæti sjávarfangs – líftækni.


Meginhugmynd.


    Að ríkisvaldið láti gera áætlun um hvernig hægt sé að auka verðmæti sjávarfangs og fiskeldis með sérstakri áherslu á nýtingu aukaafurða. Gert verði yfirlit yfir allar þær aukaafurðir sem ekki eru nýttar og sett fram áætlun um hvernig hægt verði að nýta þær í framtíðinni. Stuðlað verði að samstarfi sjávarútvegsfyrirtækja, háskóla, sjóða og rannsóknastofnana um rannsóknir og frumkvöðlastarf á þessu sviði með sérstakri áherslu á líftækni og nýjar vinnsluleiðir.

Markmið.


    Að auka verðmætasköpun og fjölbreytni í sjávarútvegi og fiskeldi og stuðla þannig að sterkari stöðu til sjávar og sveita.

Ábyrgð á framkvæmd.


Sjávarútvegsráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti.


Framkvæmd.


    Sjávarútvegsráðherra skipaði nefnd sem var falið að koma með tillögur um hvernig auka mætti verðmæti sjávarfangs. Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að miklir möguleikar séu á að auka nýtingu sjávarfangs, þar með talið aukaafurða og auka þannig verðmæti sjávarafurða. Í framhaldi af skýrslunni hefur sjávarútvegsráðherra stofnað AVS-rannsóknasjóð sem veitir styrki til rannsóknaverkefna sem auka verðmæti sjávarfangs, efla nýsköpun í greininni og auka verðmæti sjávarfangs sem og styrkja samkeppnishæfni sjávarútvegsins. Í frumvarpi til fjárlaga ársins 2005 er gert ráð fyrir sérstakri 200 millj. kr. fjárveitingu til verkefna sjóðsins. Á yfirstandandi ári hafa verið veittir styrkir til verkefna á sviði fiskeldis, líftækni, markaðsmála og vinnslu- og gæðamála. Sjóðstjórn hefur skipað fjóra starfshópa til að fjalla um einstök svið, meta verkefni og vera ráðgefandi aðilar.
    Iðnaðarráðuneyti, menntamálaráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti hafa gert með sér samkomulag um að stefna að uppbyggingu öndvegisseturs í auðlindalíftækni í tengslum við Háskólann á Akureyri. Unnið er að því að meta ávinning af því að öndvegissetrið verði stofnað og á grundvelli jákvæðrar niðurstöðu matsins munu ráðuneytin vinna saman að uppbyggingu þess.

17. Stefnumörkun þjóðmenningarstofnana um starfsemi á landsvísu.
Framkvæmd.

    Menntamálaráðuneytið hefur unnið að því að auka aðgengi almennings að menningarefni sem tengist tilteknum landsvæðum. Á grundvelli samkomulags menntamálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni hefur verið ákveðið að veita styrki til verkefna á landsbyggðinni sem felast í því að safna saman upplýsingum, heimildum, fróðleik og myndefni sem er að finna í menningarstofnunum um land allt og búa efnið til birtingar á netinu. Til þessa verkefnis er ráðstafað 15 millj. kr. á árinu 2003.

18. Efling símenntunarmiðstöðva á Ísafirði og Egilsstöðum.
Framkvæmd.

    Símenntunarmiðstöðvar eru starfræktar í öllum landshlutum. Hlutverk þeirra er að efla símenntun með því að miðla námskeiðum og auka samstarf atvinnulífs og skóla til að tryggja samkeppnishæfni byggðarlaga. Símenntunarmiðstöðvar gegna mikilvægu hlutverki í að veita stoðþjónustu við nemendur og aðstöðu fyrir kennslu. Þannig hefur skapast grundvöllur fyrir frekari þjónustu vegna háskólanáms. Á grundvelli samkomulags menntamálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni voru settar á fót nefndir sem hafa skilað skýrslum til menntamálaráðherra um uppbyggingu Þekkingarseturs Þingeyinga á Húsavík, Háskólaseturs fyrir Austurland á Egilsstöðum og Þekkingarseturs á Ísafirði. Nú er að störfum nefnd sem á að móta skipulag og koma með tillögur um fjármögnun þekkingar- og háskólanámssetra á landsbyggðinni. Samtals er ráðstafað til þessara verkefna 41 millj. kr. á árinu 2004.

19. Uppbygging ferðaþjónustu í dreifbýli.
Meginhugmynd.

    Að ríkisvaldið geri sérstaka áætlun um uppbyggingu ferðaþjónustu í dreifbýli þar sem lögð verði áhersla á rannsókna- og þróunarstarf, tengsl við skipulagsvinnu sveitarfélaga og markaðssetningu ferðaþjónustu í dreifbýli. Jafnframt verði stóraukin fræðsla og starfsmenntun í greininni. Þetta verði gert með fjárhagslegum stuðningi við þróunar- og markaðsstarf. Lögð sé áhersla á að uppbygging sé háð getu hvers svæðis til að þróa ferðaþjónustu án þess að það komi niður á umhverfislegum, félagslegum eða menningarlegum þáttum svæðisins.

Markmið.


    Að tryggja markvissa uppbyggingu og sjálfbæra þróun greinarinnar, bæta arðsemi fjárfestinga hins opinbera og einkaaðila og auka samkeppnishæfi einstakra svæða á landsbyggðinni og efla þar með íslenska ferðaþjónustu almennt.

Ábyrgð á framkvæmd.
Samgönguráðuneyti.
Framkvæmd.

    Iðnaðarráðherra og samgönguráðherra hafa gert með sér samkomulag um sameiginleg verkefni í uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Samkomulagið felur í sér að ráðuneytin munu sameiginlega vinna að verkefnum er lúta að eflingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni í samræmi við áherslur byggðaáætlunar. Ráðuneytin hafa beitt sér fyrir því að samtals 100 millj. kr. sé til ráðstöfunar til samstarfsverkefnanna á árunum 2003, 2004 og 2005, þar af 60 millj. kr. af fjárveitingu til framkvæmdar byggðaáætlunar. Sex verkefni voru styrkt á grundvelli samkomulags iðnaðarráðherra og samgönguráðherra á árinu 2003. Á árinu 2004 voru verkefnin alls tíu talsins. Í ársbyrjun 2005 mun samgönguráðuneytið leggja fram áætlun um ný verkefni að höfðu samráði við iðnaðarráðuneyti. Samgönguráðuneytið hefur yfirumsjón með framvindu verkefnanna sem styrkt eru á grunni samkomulagsins og leggur í mars ár hvert fram skýrslu þar sem mat er lagt á árangurinn. Í lokaskýrslu, sem samgönguráðuneyti vinnur og leggur fram í mars 2006, verður lagt mat á heildarárangur samkomulagsins.
    Byggðastofnun og Félag ferðamálafulltrúa á Íslandi gerðu könnun um rekstrar- og starfsumhverfi upplýsingamiðstöðva árið 2003, en þær eru hluti af stoðkerfi ferðaþjónustunnar og gegna mikilvægu hlutverki við uppbyggingu greinarinnar. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri í samstarfi við Ferðamálaráð Íslands unnu rannsókn á þolmörkum ferðamennsku í friðlandi á Lónsöræfum. Umræddar skýrslur og rannsóknir eru mikilvæg tæki til að stuðla að frekari uppbyggingu greinarinnar. Lögð er áhersla á að auka fræðslu og starfsmenntun í greininni og í þeim tilgangi var í nóvember 2003 undirritaður samningur milli Byggðastofnunar og Ferðamálaráðs Íslands, en þessar stofnanir munu standa fyrir námskeiðum fyrir ferðaþjónustuaðila um rekstur ferðaþjónustu á landsbyggðinni.
    Á árinu 2000 skilaði nefnd skipuð af samgönguráðherra skýrslunni Heilsutengd ferðaþjónusta. Í skýrslunni voru settar fram tillögur varðandi framtíð heilsutengdrar ferðaþjónustu hér á landi og hvernig best væri að standa að uppbyggingu hennar. Einnig skipaði samgönguráðherra nefnd sem skilaði af sér skýrslunni Menningartengd ferðaþjónusta sem kom út síðla árs 2001. Þá vann Ferðamálaráð Íslands skýrsluna Auðlindin Ísland að frumkvæði samgönguráðherra, en hún kom út árið 2002. Í skýrslunni er lögð áhersla á að kanna styrk einstakra svæða með tilliti til markhópa ferðamanna. Á grundvelli þessarar vinnu hefur samgönguráðherra látið gera ferðamálaáætlun fyrir tímabilið 2006–2015 og mun leggja fram þingsályktunartillögu um áætlunina á yfirstandandi þingi.

20. Endurgreiðsla námslána.


Framkvæmd.


    Fjármálaráðuneytið hefur í samvinnu við Lánasjóð íslenskra námsmanna aflað upplýsinga frá Noregi um reglur um afslátt frá endurgreiðslu námslána sem gilda fyrir háskólamenntað fólk sem býr í nyrstu héruðum Noregs og nokkrum öðrum svæðum þar í landi. Einnig hefur verið tekið saman yfirlit yfir helstu atriði sem taka þyrfti afstöðu til verði hliðstæðar reglur teknar upp hér á landi. Athugunin hefur leitt í ljós að afsláttarreglur í Noregi eru töluvert flóknar og er talið líklegt að afsláttarreglur sem settar yrðu hér á landi yrðu jafnvel flóknari vegna þess að staðhættir eru ólíkir. Þá er talið að eftirlit með reglunum geti orðið kostnaðarsamt, feli reglurnar í sér að gert verði upp á milli fólks eftir því t.d. hvar það á lögheimili, hvar á landinu það stundar vinnu, á hvaða aldri það er, í hvaða skóla það hefur stundað nám og hvort það vinnur störf sem krefjast háskólamenntunar. Ekki hefur verið lagt mat á hugsanlegan ávinning og kostnað af slíkum afsláttarreglum verði þær settar. Áfram verður unnið að athugun á málinu.

21. Efling umhverfisstarfsemi sveitarfélaga.
Meginhugmynd.

    Að efla umhverfisstarfsemi sveitarfélaga með áherslu á framkvæmd Staðardagskrár 21, jafnframt því að mynda stuðningsnet fyrir umhverfisnefndir og þá sem vinna að umhverfismálum hjá sveitarfélögum.

Markmið.


    Að efla sveitarstjórnir og starfsmenn þeirra og að fylgja eftir hugmyndum um sjálfbæra þróun.

Ábyrgð á framkvæmd.


Umhverfisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.


Framkvæmd.


    Umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra hafa gert með sér samkomulag um sameiginleg verkefni er tengjast innleiðingu Staðardagskrár 21 og sjálfbærri byggðaþróun í fámennum sveitarfélögum. Öflugt starf fer fram undir merkjum Staðardagskrár í fjölmörgum sveitarfélögum, en þörf er á að styðja við framkvæmd hennar í smærri sveitarfélögunum, m.a. með ráðgjöf og þekkingarmiðlun. Ávinningur sveitarfélaganna er margþættur, þ.e. beinn efnahagslegur ávinningur, samfélagslegur og menningarlegur ávinningur og betri nýting auðlinda. Ráðherrarnir munu beita sér fyrir því að til þessara samstarfsverkefna verði til ráðstöfunar samtals 8 millj. kr. á ári á þriggja ára tímabili, þar af 7 millj. kr. á ári af fjárveitingu iðnaðarráðuneytis til framkvæmdar byggðaáætlunar. Af þessu fé fara 2 millj. kr. á ári í þrjú ár til sérstaks þróunarverkefnis um sjálfbært samfélag í Hrísey.
    Í ársbyrjun 2004 og 2005 leggur umhverfisráðuneytið fram áætlun um ný verkefni að höfðu samráði við iðnaðarráðuneyti. Umhverfisráðuneytið hefur yfirumsjón með framvindu verkefnanna sem styrkt eru á grunni samkomulagsins og leggur í mars eftir hvert áranna þriggja fram skýrslu þar sem mat er lagt á árangurinn. Í lokaskýrslu, sem umhverfisráðuneyti vinnur og lögð verður fram í mars 2006, verður lagt mat á heildarárangur samkomulagsins.


22. Landupplýsingakerfi og sveitarfélög.

Meginhugmynd.

    Að sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins verði gert kleift að nýta sér í vaxandi mæli landupplýsingakerfi í stjórnsýslu. Jafnframt geti þau nýtt sér kosti landupplýsingakerfa við ákvarðanatöku, samþættingu á skráðum upplýsingum og við að auðvelda aðkomu almennings að athöfnum stjórnsýslunnar.

Markmið.


    Að bæta grundvöll ákvarðanatöku sveitarfélaga og auka aðgengi almennings að upplýsingum.

Ábyrgð á framkvæmd.


Umhverfisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.

Framkvæmd.

    Iðnaðarráðherra og félagsmálaráðherra hafa gert með sér samkomulag um sameiginleg verkefni sem tengjast uppbyggingu landupplýsingakerfa sveitarfélaga. Ráðuneytin munu vinna saman og í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga að verkefnum er lúta að uppbyggingu gagnabanka um fjárhagslegar upplýsingar er snerta rekstur sveitarfélaga. Meginmarkmiðið er að efla hvers kyns samanburð á fjárhagslegum upplýsingum milli sveitarfélaga sem geti nýst þeim sem öflugt tæki við stjórnun og rekstur og leitt til aukinnar hagkvæmni í rekstri sveitarfélaganna. Einnig er gert ráð fyrir að gagnagrunnurinn muni gegna afar þýðingarmiklu hlutverki í störfum annarra opinberra aðila svo sem fjármálaráðuneytis við gerð efnahagsspár, Hagstofu Íslands við upplýsingaöflun um búskap hins opinbera, félagsmálaráðuneytis við eftirlit með fjármálum sveitarfélaga og samtaka sveitarfélaga í hagsmunagæslu þeirra. Enn fremur er gert ráð fyrir að íbúar sveitarfélaga geti haft aðgang að hinum samræmdu upplýsingum. Iðnaðarráðherra og félagsmálaráðherra munu beita sér fyrir því að samtals verði ráðstafað til verkefna á grunni samkomulagsins 24 millj. kr. á árunum 2003–2005, þar af 12 millj. kr. af fjárveitingu til framkvæmdar byggðaáætlunar. Félagsmálaráðuneytið gerir iðnaðarráðuneyti grein fyrir framvindu verkefna á grunni samkomulagsins í lok hvers hinna þriggja ára og gerir grein fyrir heildarárangri eigi síðar en í mars árið 2006.
    Félagsmálaráðuneytið samdi í maí 2003 við fyrirtækið Forsvar ehf. á Hvammstanga um smíði upplýsingakerfis sem halda á utan um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga á Íslandi í framtíðinni. Samið er um að smíðinni verði lokið í apríl 2004, en hluti kerfisins verði kominn í notkun fyrir árslok 2003. Einnig er samið um uppfærslu og viðhald kerfisins til ársloka 2006. Stefnt er að því að upplýsingaveitan muni í framtíðinni tengjast samræmdum gagnabanka um fjárhagslegar upplýsingar úr rekstri sveitarfélaga.
    Samráðsnefnd umhverfisráðuneytis um þróun landupplýsingakerfa sem sett var á laggirnar árið 2001 til þriggja ára, skilaði bráðabirgðaskýrslu til ráðherra í maí 2003 með tillögum um aðgerðir stjórnvalda. Starfstíma nefndarinnar lauk í apríl 2004 og verið er að leggja drög að frekara samstarfi á þessum vettvangi í umhverfisráðuneytinu.
    Landmælingar Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa gert með sér samstarfssamning um gagnkvæma notkun á stafrænum landfræðilegum kortagögnum og um fjarkönnun.

Aðrar aðgerðir stjórnvalda.


Iðnaðarráðuneyti.


Sérstök fjárveiting til atvinnuþróunarverkefna.


    Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum þann 11. febrúar 2003 sérstaka 700 millj. kr. fjárveitingu til atvinnuþróunarverkefna. Þar af var Byggðastofnun falið að verja allt að 350 millj. kr. til kaupa á hlutafé í álitlegum félögum sem eru til þess fallin að efla nýsköpun og atvinnuþróun á landsbyggðinni. Byggðastofnun var einnig falið að hafa frumkvæði um rekstur vel mótaðra stuðningsverkefna sem eru til þess fallin að efla grunngerð nýsköpunar og atvinnuþróunar á landsbyggðinni og heimilað að verja allt að 150 millj. kr. af fjárveitingu ríkisstjórnarinnar til slíkra verkefna. Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, í samstarfi við Byggðastofnun, var falið að meta nýja iðnaðarkosti sem gætu haft afgerandi áhrif á búsetu og atvinnuþróun og taka þátt í stofnun arðbærra hlutafélaga sem tryggðu stöðuga atvinnu með varanlegum hætti. Sjóðnum voru heimiluð kaup á allt að 200 millj. kr. hlutafjár vegna þessa.

Ráðstöfun söluandvirðis Kísilgúrverksmiðjunnar.


    Samkvæmt lögum nr. 15/2001, um breytingu á lögum um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, skyldi söluandvirði verksmiðjunnar renna til atvinnuuppbyggingar í þeim sveitarfélögum sem ættu verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi verksmiðjunnar, samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ákveðið hefur verið að verja 30 millj. kr. af söluandvirðinu til kaupa á hlutafé í Pólýolverksmiðjunni ehf. Féð verður m.a. notað til þess að meta hagkvæmni staðsetningar verksmiðju á Húsavík, sem er eina staðsetningin utan þéttbýlisins á Suðvesturhorninu sem nú kemur til álita. Framleiðsla á pólýoli byggist á notkun jarðgufu, en pólýol er samheiti yfir flokk efna sem m.a. eru notuð við framleiðslu á matvælum, snyrtivörum, plastefnum og lyfjum. Þá hefur 20 millj. kr. af söluandvirði Kísilgúrverksmiðjunnar verið varið til kaupa á hlutafé í Baðfélagi Mývatnssveitar, sem er einkahlutafélag um uppbyggingu og rekstur náttúrulegra heilsubaða í Mývatnssveit.

Námskeið um klasa – til aukinnar samkeppnishæfni fyrirtækja og svæða.


    Í september 2003 stóð Verkefnisstjórn um byggðaþróun við Eyjafjörð ásamt iðnaðarráðuneytinu og fleiri aðilum fyrir námskeiði í Reykjavík um hvernig mætti nýta klasa (Clusters, tengslanet) til aukinnar samkeppnishæfni fyrirtækja og svæða. Víða erlendis hafa klasar gegnt veigamiklu hlutverki við að auka samkeppnishæfni fyrirtækja á einstaka svæðum, þar sem tengslanet fyrirtækja skipta oft verulegu máli. Klasar hafa orðið til með ýmsu móti, en nýlegar rannsóknir hafa sýnt að ákveðnar aðgerðir fyrirtækja, einstaklinga, samtaka og opinberra aðila geta haft veigamikil áhrif á þróun og þann árangur sem klasar hafa. Af þessu tilefni var fenginn reyndur erlendur sérfræðingur, Ifor Fflowcs-Williams frá Nýja-Sjálandi, til að halda tveggja daga námskeið um uppbyggingu og eflingu klasa og hvað er hægt að gera til að auka samkeppnishæfni fyrirtækja og svæða með markvissum aðgerðum á þessu sviði. Ifor hefur haldið fjölda námskeiða um þessi mál víða um heim fyrir fyrirtæki, opinbera aðila og alþjóðastofnanir, svo sem OECD og Alþjóðabankann. Námskeiðið var ætlað fyrirtækjum, stofnunum, opinberum aðilum, sveitarfélögum, bæjum, samtökum, atvinnuráðgjöfum og öðrum er fást við að auka samkeppnishæfni atvinnulífs og svæða, m.a. með markvissri uppbyggingu klasa og tengslaneta í atvinnulífi. Námskeiðið var fjölsótt af aðilum víðsvegar af landinu, ekki síst af atvinnuráðgjöfum sem nýtt geta í framtíð þær hugmyndir og þekkingu sem námskeiðið skilaði, til frekari þróunar og framkvæmda hér á landi.

Verkefnisstjórn um byggðaáætlun fyrir Vestfirði.


    Í lok september 2003 skipaði iðnaðarráðherra verkefnisstjórn um byggðaþróun fyrir Vestfirði og er hlutverk hennar að gera tillögur til ráðherra um aðgerðir í byggðamálum á Vestfjörðum fyrir næstu þrjú ár. Meðal meginverkefna nefndarinnar er að huga sérstaklega að aðgerðum sem eru til þess fallnar að styrkja Ísafjarðarbæ sem byggðakjarna á Vestfjörðum.
    Í mars 2003 kom út byggðaáætlun fyrir Vestfirði, sem var unnin af fulltrúum allra sveitarfélaga á Vestfjörðum og fjölda aðila úr atvinnu-, mennta- og menningarlífi svæðisins. Þetta er svæðisbundin áætlun sem fellur vel að markmiðum byggðaáætlunar, og í henni koma fram margar beinar tillögur um ný verkefni sem talið er mikilvægt að unnin verði á Vestfjörðum.
    Verkefnisstjórnin mun meta framkomnar tillögur, taka nýjar tillögur til umfjöllunar og gera áætlun um framkvæmd þeirra. Í því starfi verður lögð megináhersla á verkefni sem líkleg eru til að skila árangri í styrkingu atvinnulífs og annarra búsetuskilyrða. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki eigi síðar en við lok ársins 2006.
    Vinna verkefnisstjórnar hefur nú tekið um eitt ár og hefur verið unnið ötullega að gagnasöfnun, viðtölum við heimamenn og aðra. Í starfi verkefnisstjórnar hefur verið lögð áhersla á samspil og aukna samvinnu allra aðila, einstaklinga, samtaka, atvinnulífs, sveitarfélaga og opinberra aðila – sem og aukið samstarf á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Á sama tíma hefur verið lögð sérstök áhersla á samkeppnishæfni svæðisins á öllum sviðum með hliðsjón af þróun alþjóðavæðingar. Í megin atriðum má segja að áherslur í störfum verkefnisstjórnar megi skipta í fimm flokka
  –     Gagnasöfnun.
 –     Samstarf við helstu aðila á svæðinu.
 –     Upplýsingamiðlun frá erlendum aðilum.
 –     Skipuleg greining á sóknarfærum svæðisins.
 –        Minnisblöð til ráðherra um tillögur að einstaka verkefnum og áherslum
    Vinna á áðurnefndum áherslusviðum hefur síðan komið fram í margvíslegum verkefnum og samstarfi, við innlenda sem erlenda aðila. Þann 11. nóvember 2003 var t.d. haldinn kynningarfundur á Hótel Ísafirði á vegum nefndarinnar og iðnaðarráðuneytisins sem bar yfirskriftina, Byggðaþróun og samkeppnishæfni. Fjölmargir aðilar, sem láta sig varða atvinnu- og byggðamál sátu þann fund og komu aðilar víða að.
    Á grundvelli þeirra tillagna sem og þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002–2005 var verkefnisstjórninni falið að meta framkomnar tillögur, taka nýjar tillögur til umfjöllunar og gera áætlun um framkvæmd þeirra. Þær tillögur sem verkefnisstjórnin hefur þegar lagt fram til iðnaðarráðherra eru:
  –     Tillaga um háskólasetur á Ísafirði.
  –     Tillaga um uppbyggingu rannsókna í eldis- og veiðarfæratækni í Þróunarsetri Vestfjarða á Ísafirði.
  –     Tillaga um snjóflóðarannsóknarmiðstöð á Ísafirði.
    Í öllum þessum tilvikum hefur þegar verið unnið að nánari útfærslu innan ráðuneytis og/eða í samvinnu við önnur ráðuneyti – og eru sumar þessara tillagna þegar komnar í framkvæmd Svo sem tillaga um snjóflóðarannsóknarmiðstöð á Ísafirði. Aðrar tillögur eru þegar langt á veg komnar í framkvæmd. Enn frekari tillögur eru í vinnslu nefndarinnar sem og skýrsla hennar.

Samkomulag um stuðning við markaðsátak erlendis fyrir íslenskar ullarafurðir.

    Iðnaðarráðuneyti og Útflutningsráð Íslands gerðu í maí 2003 með sér samkomulag um stuðning við markaðsátak erlendis fyrir íslenskar ullarafurðir. Samkomulagið er gert á grunni áherslu byggðaáætlunar á að auka þurfi þekkingu og nýsköpun í hefðbundnum greinum. Bent er á nauðsyn þess að stefna stjórnvalda gagnvart atvinnugreinum sem eru þýðingarmiklar á landsbyggðinni, eins og landbúnaður, dragi ekki úr nýliðun, frumkvæði og fjárfestingum í fámennari byggðarlögum þar sem fárra annarra atvinnukosta er völ. Eitt af sóknarfærunum í landbúnaði tengist útflutningi á íslenskum ullarafurðum. Sérkenni íslenskrar ullar eru mikil og þess má vænta að með endurskipulagningu á markaðssetningu ullarafurða megi ná umtalsverðum ávinningi. Á þessum grundvelli hafa iðnaðarráðuneyti og Útflutningsráð ákveðið að vinna með Fagráði textíliðnaðarins að eflingu markaðsstarfs erlendis á íslenskum ullarafurðum. Átakið er til tveggja ára og er markmið þess að endurskipuleggja markaðs- og sölustarf á íslenskum ullarafurðum og þróa skilvirk markaðs- og söluferli sem nýtast allri atvinnugreininni. Iðnaðarráðuneytið leggur til átaksins samtals 8,5 millj. kr. Útflutningsráð Íslands hefur yfirumsjón með framvindu verkefnisins og leggur í júní 2004 fram skýrslu þar sem lagt er mat á árangur átaksins fyrra starfsárið og lokaskýrslu um heildarárangur átaksins í júní 2005.

Frumkvöðlasetur á Höfn í Hornafirði.


    Iðnaðarráðuneyti á aðild að frumkvöðlasetri á Höfn í Hornafirði, sem komið var á fót vorið 2003. Setrinu er ætlað að veita sérhæfða aðstoð við að hrinda viðskiptahugmyndum í framkvæmd.

Útibú Orkustofnunar á Akureyri.


    Í upphafi árs 2003 hófst starfsemi á vegum Orkumálasviðs Orkustofnunar á Akureyri, þegar útibú þess tók til starfa í húsnæði Norðurorku á Rangárvöllum. Lögð er áhersla á að verkefni er tengjast landsbyggðinni sérstaklega séu unnin á Akureyri. Tveir starfsmenn er í útibúinu og meðal verkefna þeirra eru umsjón með niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar, verkefnisstjórnun með leit að jarðhita á köldum svæðum, samskipti við þá sem hafa hug á að reka eða reka einkarafstöðvar auk verkefna sem tengjast nýjum hitaveitum eða stækkun eldri veitna. Þá er umsýsla Orkusjóðs í Akureyrarútibúinu.

Heilbrigðisráðuneyti.


Fjarlækningar og bráðarannsóknir.


    Unnið er að prófunum á búnaði og fyrirkomulagi vegna fjarlækninga, með þátttöku Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga (HÞ), Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA) og Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH). Markmið verkefnisins er að styrkja tengsl heilbrigðisstarfsfólks á norðausturhorni landsins, auka heilbrigðisþjónustu á svæðinu og draga úr sjúkraflutningum. Einnig að styrkja samstarfið við FSA. Ýmiss konar samskiptum milli heilbrigðisþjónustuaðila vegna bráðaþjónustu er ætlað að nýta sér möguleika með fjarlækningum. Gerðar eru tilraunir með sendingar á röntgenmyndum til greiningar hjá sérfræðingi sem ekki er á þeim stað þar sem myndin er tekin. Einnig eru send hjartarit, stafrænar myndir og prófanir gerðar á stafrænni hlustunarpípu. Skilgreining og prófun á þessari nýju tegund þjónustu er einnig stór hluti verkefnisins.

Fjarlækningar fyrir sjómenn.


    Verkefni þar sem gerðar hafa verið prófanir á fjarlækningabúnaði um borð í skipum er lokið, en það var unnið með stuðningi NORA, Niðurstöður þess voru kynntar nýlega, en þær eru m.a. búnaðar-„pakki“ sem hægt er að koma fyrir um borð í skipum og getur gefið sjómönnum kost á læknisþjónustu sem ekki hefur verið til staðar. Gert er ráð fyrir að í framhaldsverkefni verði skilgreind og prófuð sú þjónusta sem nauðsynleg er til að búnaður sem þessi nýtist, en það er nauðsynlegur undirbúningur fyrir að hleypa þjónustu sem þessari af stokkunum.

Lyfseðlar.


    Á Norðurlandi eru í gangi prófanir á rafrænum lyfseðlum, þar sem FSA, Heilsugæslan á Akureyri, aðrar heilbrigðisstofnanir og apótekin á svæðinu skiptast á lyfseðlum á rafrænu formi. Frá því í lok júní 2003 hafa flestir lyfseðlar frá Heilsugæslunni verið sendir á rafrænan hátt og ekki skrifaðir út, en það bæði einfaldar alla vinnslu lyfseðlanna og eykur öryggi í meðhöndlun þeirra. Verkefnið er undirbúningur fyrir að taka í notkun rafræna lyfseðla á landsvísu.

Umhverfisráðuneyti.


Þjóðgarðar.


    Á grundvelli laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, eru starfræktir þrír þjóðgarðar hér á landi auk þjóðgarðsins á Þingvöllum sem starfar samkvæmt lögum nr. 59/1928 og heyrir undir forsætisráðuneytið. Þjóðgarðarnir þrír eru þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, þjóðgarðurinn Skaftafelli og þjóðgarðurinn Jökulsárgljúfrum. Árið 2003 var heilsársstarfsmönnum í þeim fjölgað þannig að nú starfa auk þjóðgarðsvarðar og landvarða yfir sumartímann einn starfsmaður allt árið í hverjum þjóðgarði. Unnið hefur verið að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs á vegum Umhverfisstofnunar og nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins hefur skilað tillögum um stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls, sem verði hluti eins þjóðgarðs, sem taki til Vatnajökuls og jaðarsvæða austan, sunnan og vestan jökuls, sem hafi sérstöðu og tengist beint náttúrufari Vatnajökuls. Tillögurnar eru hjá ríkisstjórn sem þegar hefur samþykkt stofnun fyrsta áfanga Vatnajökulsþjóðgarðs með stækkun þjóðgarðs í Skaftafelli til vesturs og austurs þannig að hann nái í suðurhluta jökulsins sem fellur innan marka Skaftárhrepps og Sveitarfélagsins Hornafjarðar ásamt friðlýsta svæðinu í Lakagígjum. Er gert ráð fyrir að föstum starfsmönnum þjóðgarðsins verði fjölgað úr tveimur á árinu 2004 í fjóra á árinu 2005, og að hinir nýju starfsmenn þjóðgarðsins komi til með að hafa starfsstöðvar á Höfn í Hornafirði og á Kirkjubæjarklaustri.

Fráveitumál.

    Unnið er samkvæmt lögum nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum. Ríkið tekur þátt í kostnaði við framkvæmdir sveitarfélaga samkvæmt nánari reglum þar um. Heildarframlag ríkisins til fráveitumála á árunum 1995–2005, þ.e. á gildistíma laganna er áætlað 2,2 milljarðar kr.. Fráveitunefnd umhverfisráðuneytisins sem starfar samkvæmt lögunum hefur verið falið að gera tillögu að endurskoðuðum lögum um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum með hliðsjón af framkvæmd þeirra hingað til.

Ofanflóðamál.

    Samkvæmt lögum nr. 47/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, skal vinna að vörnum gegn tjóni og slysum af völdum snjóflóða og skriðufalla í þeim sveitarfélögum sem búa við hættu vegna ofanflóða. Til þess að fjármagna þessar aðgerðir er innheimt sérstakt gjald af fasteignaeigendum sem nemur 700–800 millj. kr. á ári. Unnið er samkvæmt framkvæmdaráætlun um uppbyggingu varna á landsvísu og er við það miðað að brýnustu aðgerðum verði lokið árið 2010. Fyrirsjáanlegt er að sú tímasetning færist aftar og er nú unnið að endurskoðun áætlunarinnar í samráði við viðkomandi sveitarfélög. Jafnhliða uppbyggingu varna hefur verið unnið að hættumati fyrir þéttbýlisstaði og er gert ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki að mestu 2004. Heildarkostnaður vegna þessara aðgerða er áætlaður um 10 milljarðar kr.

Félagsmálaráðuneyti.


Samstarfsverkefni félagsmálaráðuneytis og Byggðastofnunar
um atvinnu- og jafnréttisráðgjafa.

    Þriggja ára tilraunaverkefni um jafnréttisráðgjafa á Norðurlandi vestra var hrint af stað af hálfu félagsmálaráðuneytisins þann 26. mars 1998. Meginverkefni ráðgjafans var að vinna að leiðréttingu á stöðu kvenna í fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu. Enn fremur átti hann að vinna í samvinnu við atvinnuráðgjafa að fjölgun atvinnutækifæra fyrir konur í kjördæminu. Með samningi milli félagsmálaráðuneytisins og Byggðastofnunar hefur verið tekin ákvörðun um að færa verkefnið út og framlengja það. Um er að ræða samstarfsverkefni þessara aðila um atvinnu- og jafnréttisráðgjafa á landsbyggðinni. Samstarf aðilanna gildir til ársins 2005, og eru ráðgjafar staðsettir í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Byggt er á starfi jafnréttisráðgjafa Norðurlands vestra og mun reynslan af því starfi því nýtast öðrum héruðum landsins til sóknar fyrir konur í dreifbýli á vinnumarkaðinn. Verkefnið er sérstaklega brýnt því atvinnuleysistölur sýna að staða kvenna á landsbyggðinni hefur versnað hlutfallslega gagnvart körlum á vinnumarkaði. Samkvæmt samkomulaginu er gert ráð fyrir:   –     að frá og með 1. ágúst 2002 til ársloka 2004 sé ráðinn atvinnu- og jafnréttisráðgjafi fyrir Norðausturkjördæmi,
  –     að frá og með 1. ágúst 2003 til ársloka 2005 sé ráðinn atvinnu- og jafnréttisráðgjafi fyrir Suðurkjördæmi.

Stofnun Varasjóðs húsnæðismála.


    Varasjóður húsnæðismála var stofnaður með lögum nr. 86/2002, um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Lagabreytingin byggðist á samkomulagi milli ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 4. apríl 2002. Sjóðurinn veitir framlög til sveitarfélaga vegna sölu félagslegra eignar- og leiguíbúða á almennan markað og rekstrarframlög til sveitarfélaga vegna hallareksturs félagslegra leiguíbúða eða íbúða sem hafa staðið auðar í lengri tíma. Jafnframt hefur sjóðurinn umsýslu með varasjóði viðbótarlána. Ráðgjöf og leiðbeiningar um rekstrarform félagslegra leiguíbúða ásamt upplýsingavinnslu er í verkahring sjóðsins. Varasjóður húsnæðismála er staðsettur á Sauðárkróki og hefur hann einn starfsmann í fullu starfi.

Rannsóknarsetur í húsnæðismálum á Bifröst.


    Í ágúst 2003 var undirritaður samningur milli félagsmálaráðuneytisins, Íbúðalánasjóðs og Viðskiptaháskólans á Bifröst um stofnun rannsóknarseturs í húsnæðismálum. Gert er ráð fyrir því að rannsóknarsetrið muni í fyrstu einbeita sér að hagrænum og efnahagslegum rannsóknum á sviði húsnæðismála, jafnframt því að vinna að víðtækri upplýsingaöflun um húsnæðismál. Mun rannsóknarsetrið sjá um gagnaöflun og úrvinnslu upplýsinga fyrir Íbúðalánasjóð og félagsmálaráðuneytið samkvæmt samningi við þessa aðila. Við stofnun rannsóknarseturs í húsnæðismálum var sett á fót sérstök rannsóknarstaða og er ráðið í stöðuna frá hausti 2003. Innifalin í starfsskyldum forstöðumanns rannsóknarseturs er kennsla við Viðskiptaháskólann á Bifröst sem svarar til 20% fullrar kennslu. Gert er ráð fyrir að nemendur Viðskiptaháskólans muni koma að starfi rannsóknarseturs samkvæmt ákvörðun forstöðumanns og skólayfirvalda.

Landbúnaðarráðuneyti.
Landshlutabundin skógræktarverkefni.

    Sérstök skógræktarverkefni eru starfrækt í öllum landshlutum. Starfað er samkvæmt áætlunum er gerðar hafa verið fyrir hvert svæði. (Héraðsskógar 1991; Suðurlandsskógar 1997; Norðurlandsskógar, Vesturlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum 2000; Austurlandsskógar 2001). Meginhugmyndin að baki verkefnunum er að byggja upp nýja auðlind; nytjaskóga á Íslandi, og skapa ný atvinnutækifæri og treysta byggð. Reynsla og úttekt á starfi landshlutabundnu skógræktarverkefnanna sannar mikilvægi þeirra á landsbyggðinni. Markmiðið er að rækta skóga á 5% láglendis á 40 árum. Í hverjum landshluta er starfrækt skrifstofa fyrir hvert verkefni með sérmenntuðu fólki. Ætla má að samtals starfi 15–20 manns við stjórnun, ráðgjöf og áætlanagerð á landsbyggðinni vegna þessa. Þá hafa verkefnin fengið umtalsvert fjármagn sem dreifist á fjölmarga einstaklinga sem vinna að því að byggja upp skóg sem nýja auðlind þessa lands. Á Alþingi 2002–2003 var samþykkt skógræktaráætlun þar sem kveðið er á um ákveðið fjármagn til verkefnanna á árunum 2003–2008. Nú er unnið samkvæmt þeirri áætlun. Fjölmargir hafa sýnt þessum verkefnum áhuga og gerst þátttakendur í þeim. Sérstaklega skal bent á að mikið er um að fólk úr þéttbýlinu vilji hefja skógrækt á jörðum sem það á landsbyggðinni og nokkrir hafa flutt lögheimili sín í sveitirnar til að geta gerst þátttakendur í skógræktarverkefnunum. Auk þess að rækta skóg til nytja er mikið bundið af kolefni með skógrækt og er horft til þess þáttar sem hugsanlegs tekjumöguleika í framtíðinni.

Bændur græða landið.


    Um er að ræða verkefni á vegum Landgræðslu ríkisins. Á Alþingi 2001–2002 var samþykkt landgræðsluáætlun 2003–2014 þar sem sérstaklega er gerð grein fyrir þessum þætti og fjármagni til hans. Meginhugmyndin að baki verkefninu er að nýta krafta bænda við uppgræðslustörf, bæði innan og utan sinna landa. Auk þess að græða landið er mikið bundið af kolefni með slíkri uppgræðslu og horfa bændur til þess þáttar sem hugsanlegs tekjumöguleika í framtíðinni. Markmiðið er að auka þátttöku bænda og jarðareiganda í uppgræðslustarfi og stuðla að því að það fjármagn sem til uppgræðsluaðgerða fer nýtist jafnframt til eflingar byggðar og treysti búsetu. Sífellt fleiri bændur gerast nú verktakar að landgræðsluframkvæmdum. Auk þess leggja margir bændur fram vélar og vinnu á móti áburði og fræi frá Landgræðslu ríkisins í átakinu Bændur græða landið, auk ráðgjafar af stofnunarinnar hálfu. Starfandi eru héraðsmiðstöðvar í nær öllum landshlutum þar sem sérmenntaðir einstaklingar eru til staðar við að leiðbeina þátttakendum í landgræðslustarfi og efla tengsl íbúa héraðanna og Landgræðslunnar. Milli 600 og 700 aðilar eru nú þátttakendur í verkefninu og sífellt vilja fleiri bætast í hópinn.

Landbótasjóður.


    Komið hefur verið á fót landbótasjóði í samræmi við landgræðsluáætlun 2003–2014. Sjóðnum er ætlað að styðja við bændur til að fjármagna landbætur á sínu heimalandi. Gert er ráð fyrir 20 millj. kr. framlagi ríkisins á árinu 2004 til sjóðsins. Markmiðið með landbótasjóði er að efla enn frekar gróðurbætur með þátttöku heimamanna. Umráðahafar lands framkvæma verkið en landgræðslan tekur það út. Framkvæmdir velta á framlögum til landbótasjóðs hverju sinni.

Lifandi landbúnaður.


    Grasrótarsamtökin Lifandi landbúnaður voru stofnuð á fundi kvenna í íslenskum landbúnaði 15. október árið 2002. Verkefnið hefur verið stutt af landbúnaðarráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og iðnaðarráðuneytinu auk annarra aðila. Lifandi landbúnaður eru samtök kvenna í íslenskri bændastétt. Ramminn sem hreyfingin hefur sett sér, er að það sem konurnar taka sér fyrir hendur í nafni hennar hafi eitthvert það markmið sem stuðlar að eflingu kvenna í bændastétt, stuðli að jákvæðum tengslum milli þéttbýlis og dreifbýlis og því að neytendur landbúnaðarafurða séu ánægðir og upplýstir. Megináherslan er á að byggja upp samskiptanet, sem síðan er hægt að nota í hverjum þeim tilgangi sem þátttakendur kjósa hverju sinni. Fyrsta verkefni Lifandi landbúnaðar nefnist Gullið heima. Stefnt er að því að Gullið heima verði þriggja ára Evrópusamstarfsverkefni sem miðar að því að efla konur í landbúnaði til að takast á við ákveðið upplýsingastarf sem þær hafa lýst vilja sínum til að einhenda sér í, og fá þeim þann efnivið og þjálfun sem til þess þarf. Leiðarljós Lifandi landbúnaðar er gagnkvæm virðing ólíkra menningarheima og miðlun þekkingar. Með samskiptaneti Lifandi landbúnaðar og starfinu að Gullinu heima byggja konurnar brúna sín á milli, þ.e. miðla þekkingu hver til annarrar og tengjast saman í náms- og vinnuhópa. Saman leitast konurnar síðan við að sameina menningarheima þéttbýlis og dreifbýlis. Í verkefninu felst m.a. námsefnisgerð um sveitalíf fyrir leik- og grunnskóla, kynningarefni fyrir almenning, heimsóknir bænda í skóla, kynningar í verslunum og víðar meðal almennings ásamt fræðslu á vefsíðu. Undanfari þessa er námskeiðahald fyrir bændurna og aðra sem að þessu kynningarstarfi kunna að koma. Verkefnið snertir því allt í senn jafnréttismál, menningarmál, menntamál, landbúnaðarmál og byggðamál.

Upplýsingatækni í dreifbýli – UD.


    Átaksverkefnið Upplýsingatækni í dreifbýli hóf formlega starfsemi í byrjun árs 2002 en allnokkur undirbúningsvinna hafði farið fram á árinu 2001. Þátttaka í verkefninu er bundin við íbúa á lögbýlum eða búnaðargjaldsskylda starfsemi. Öðrum er heimilt að sækja tölvunámskeið eða annað sem telst á vegum UD en verða þá að greiða kostnað alfarið sjálfir. Landbúnaðarráðherra skipaði stjórn yfir verkefnið sem afmarkaði viðfangsefni og gerði áætlun um framkvæmd þeirra. Viðfangsefnin voru greind í fjóra flokka en þeir eru: Námskeiðahald, gagnaflutningar, nýting upplýsingasamfélagsins til nýsköpunar og þátttaka í alþjóðlegum samstarfsverkefnum. Gengið hefur verið frá samningi við Vinnumálastofnun um tilraunaverkefni um miðlun starfa í fjarvinnslu en sá samningur var undirritaður í lok janúar á þessu ári. Þá var hafinn undirbúningur að þátttöku í sameiginlegu upplýsingatækniverkefni nokkurra þjóða í norðanverðri Evrópu, sem sækir um styrk til Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins (Northern Periphery Programme). Gengið var frá verkefnislýsingu og styrkumsókn á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Þá var m.a. unnið að gerð heimasíðu fyrir verkefnið og fjárhagslegur grundvöllur þess styrktur. Námskeiðahald var viðamesti þátturinn í starfsemi ársins 2002, en fyrstu námskeiðin fóru ekki af stað fyrr en í aprílmánuði. Alls sóttu 435 manns námskeið sem voru niðurgreidd af verkefninu. Áætlanir gerðu ráð fyrir 600 þátttakendum á námskeiðum ársins 2003, en aðsókn verður mun meiri. Meginhugmynd verkefnisins er að styrkja stöðu dreifbýlis hvað varðar notkun upplýsingatækni og markmiðið að auka samkeppnishæfni sveitanna með sérstöku átaki í tölvukennslu og tæknivæðingu. Verkefnisstjórn réði framkvæmdastjóra sem hefur starfað í 75% starfi frá því í nóvember 2001 með aðsetur á Sauðárkróki. Ekki er um aðra launamenn að ræða, enda mörkuð sú stefna að hafa yfirbyggingu UD-verkefnisins í lágmarki og semja um verkefni við samstarfsaðila á landinu öllu. Eftir töluverðar vangaveltur um rekstrarform, fékk verkefnið í marsmánuði 2002, kennitölu í eigu landbúnaðarráðuneytisins en fjárhagur þess er engu að síður sjálfstæður. Endurskoðandi reikninga er Ríkisendurskoðun. UD gerði í haust samkomulag við Símann um að efna til þriggja ára samstarfsverkefnis um átak um þróun upplýsingatækni í dreifbýli. Einnig hefur verið gerður rammasamningur milli UD og Félags ferðaþjónustubænda sem snýst um að nýta upplýsingasamfélagið til verðmætaaukningar fyrir ferðaþjónustubændur.

Hestamiðstöð Íslands.


    Hlutverk sjálfseignarstofnunarinnar Hestamiðstöð Íslands er að beita sér fyrir átaki til gæðastýringar og eflingar fagmennsku í hrossarækt, hestamennsku, hestaíþróttum og hestatengdri ferðaþjónustu. Heimili og varnarþing stofnunarinnar er í Skagafirði, en starfsemi hennar er ekki staðbundin. Markmið Hestamiðstöðvar Íslands eru að byggja upp sem mest af sjálfstæðri starfsemi með starfi sínu og stuðningi. Hestamiðstöðin skal vinna að hlutverki sínu með því að veita styrki til verkefna sem samrýmast markmiðum stofnunarinnar, með þátttöku í samstarfsverkefnum og með hlutafjárkaupum í fyrirtækjum í hestatengdri starfsemi. Stuðla á að aukinni fagmennsku innan greinarinnar, aðlaga stærð hrossastofnsins markaðsaðstæðum, ræktunarmarkmiðum og markmiðum um sjálfbæra landnýtingu, styrkja félagslega samstöðu hrossabænda og hestamanna og auka arðsemi í greininni. Stofnendur Hestamiðstöðvar Íslands eru forsætisráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, menntamálaráðuneyti, samgönguráðuneyti og Sveitarfélagið Skagafjörður. Stofnfé er 2 millj. kr. Landbúnaðarráðuneytið hefur eftirlit með framkvæmd samnings þessara aðila. Stjórn Hestamiðstöðvar Íslands getur ein getur tekið ákvarðanir um styrkveitingar og aðra ráðstöfun fjár til verkefna sem samrýmast markmiðum stofnunarinnar. Sömuleiðis ræður hún eftir þörfum starfsmenn er sinna einstökum samstarfsverkefnum og hafa umsjón með rekstri miðstöðvarinnar. Stjórn verkefnisins skal í samvinnu við samtök greinarinnar og Landgræðslu ríkisins beita sér fyrir aukinni umræðu og fræðslu innan greinarinnar um landnýtingu og standa fyrir umræðu og umfjöllun um nauðsyn þess að landnýting samrýmist markmiðum um sjálfbæra landnýtingu. Stjórn verkefnisins skal í samráði við samtök greinarinnar beita sér fyrir því meðal hrossabænda og annarra hestaeigenda að fjöldi hrossa í landinu sé í samræmi við það sem nauðsynlegt er vegna ræktunarstarfs og tiltækra markaða fyrir lífhross og hrossaafurðir. Áhersluverkefni eru að:
  –     Styðja með nauðsynlegri setningu laga og reglugerða gæðastjórnunarátak innan hrossaræktarinnar.
  –     Efla nám á sviði hrossaræktar, hestamennsku og landnýtingar.
  –     Setja skýr og afdráttarlaus lagaákvæði til þess að koma í veg fyrir ofnotkun lands af völdum hrossabeitar.
  –     Afla Íslandi alþjóðlegrar viðurkenningar sem upprunalandi íslenska hestsins.
  –     Greiða fyrir auknum útflutningi hrossa m.a. með viðræðum við stjórnvöld annarra landa um lækkun innflutningstolla og annarra innflutningskvaða á hrossum.
  –     Tengja íslenska hestinn í auknum mæli opinberri landkynningu.
  –     Leita leiða til að tryggja til framtíðar örugga vistun á gagnabanka um íslenska hrossakynið.