Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 91. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 280  —  91. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um fíkniefni.

     1.      Hversu mikið var gert upptækt af fíkniefnum eftir tegundum árin 2002, 2003 og það sem af er árinu 2004 og hvert er götuverðmæti þeirra?
    Þótt spurt sé um upptæk fíkniefni er gert ráð fyrir að einnig sé óskað eftir upplýsingum um magn fíkniefna sem lögregla og tollgæsla hafa lagt hald á, enda ódæmt í mörgum málum frá þessu tímabili. Tekið er mið af þessu í yfirliti og umfjöllun hér á eftir.
    Í töflu 1 má sjá þau efni sem lögregla og tollgæsla lögðu hald á á árunum 2002 til 2003 og það sem af er þessu ári. Einnig eru upplýsingar um ætlað götuverðmæti efnanna. Miðað er við upplýsingar frá SÁÁ varðandi verð fíkniefnanna og reiknað meðalverð síðustu fjögur árin í götusölu (sbr. töflu 3). Við mat á þessum tölum ber sérstaklega að hafa í huga að ekki er tekið tillit til hreinleika efnanna. Amfetamín og kókaín er að stærstum hluta haldlagt á landamærum og því má gera ráð fyrir að við efnin hefði verið bætt íblöndunarefnum áður en þau hefðu farið í götusölu. Þannig hefði fengist mikið hærra verð fyrir þau en fram kemur í töflu 1.

Tafla 1. Fíkniefni sem lögregla og tollgæsla lögðu hald árin 2002–2003
og það sem af er þessu ári og ætlað söluverðmæti þeirra.

2004
(staðan 13. okt.)

2003

2002
Ætlað verðmæti (millj. kr.)*
Hass (g) 34.696,57 54.967,69 57.563,83 279.733
Fræ (g) 62,98 64,15 198,35
Fræ (stk.) 428,00 857,00 408,00
Plöntur (stk.) 1.083,00 1.794,00 1.207,00
Marihuana (g) 1.620,89 3.361,81 1.439,47
Tóbaksblandað hass (g) 216,33 320,28 159,07
Kannabislauf (g) 342,61 9.875,32 3.606,76
Kannabisstönglar (g) 1.501,14 3.677,70 85,65
Kannabisstönglar (stk.) 14,21
Amfetamín(g) 15.412,75 2.945,40 7.161,22 102.077
Amfetamín (stk.) 72,00 309,5 109,00
Amfetamín (ml) 105,40
Kókaín(g) 2.944,78 1.192,09 1.869,56 66.071
E-tafla (g) 19,95 21,22 6,36
E-tafla (stk.) 7.433,00 3.189,75 814,50 28.593
Heróín (g) 2,89 0,16
LSD (stk.) 2.032,00 1 0
LSD (ml) 0 0
*Einungis er gefið upp verð fyrir helstu efnisflokkana og fyrirvarni settur um hreinleika efnanna.

     2.      Hve mikið var gert upptækt af fjármagni og öðrum verðmætum í tengslum við upptöku fíkniefna á þessum árum og hvert renna þau verðmæti?
    Þegar mál fara fyrir dóm og verðmæti eru gerð upptæk rennur andviði þeirra í ríkissjóð. Á því tímabili sem spurt er um eru allnokkur mál í ákærumeðferð eða rannsókn, þannig að upptaka hefur ekki enn farið fram. Sumu af því sem gert er upptækt er eytt, svo sem áhöldum til fíkniefnaneyslu og eftir atvikum öðru sem ekki eru bein verðmæti. Til að svara fyrirspurninni var leitað eftir upplýsingum hjá lögreglustjórunum. Vegna þess hversu stuttan tíma lögreglustjórarnir höfðu til að svara fyrirspurninni má vera að upplýsingarnar séu ekki algjörlega tæmandi (sjá einnig fskj. I).

Tafla 2. Upptækir fjármunir til ríkissjóðs í tengslum við upptöku fíkniefna
árin 2002–2003 og það sem af er þessu ári.

Peningar, kr. Önnur verðmæti Skýring
Blönduós Gróðurhúsalampar, skotvopn o.fl. Ekki búið að koma í verð
Bolungarvík 5.000
Ísafjörður 120.000
Húsavík 7.000
Kópavogur 87.000
Reykjavík 1.865.547
Selfoss 14.500
Seyðisfjörður 172.900 Vatnssleði, galli og hjálmur – selt á uppboði
Samtals 2.099.047 172.900
    
     3.      Hversu mikið af þeim fíkniefnum sem eru í umferð hér á landi er talið nást og hvernig er samanburðurinn við önnur lönd?
    Erfitt er að meta getu löggæslustofnana til að leggja hald á fíkniefni sem flutt eru inn fyrir landamæri viðkomandi landa og gerir það samanburð milli landa mjög erfiðan. Engar íslenskar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu viðfangsefni en hafa ber í huga að tengsl milli þess magns sem er lagt hald á og þess sem er í umferð er mjög lítið rætt meðal fræðimanna. Að gefinni þeirri forsendu að eftirspurn eftir fíkniefnum, svo sem kannabisefnum, sé svipuð hér á landi og annars staðar er ekki óvarlegt að álykta að innflutningur efna inn á íslenskan markað sé hlutfallslega svipaður og í löndunum í kringum okkur. Til að nálgast svar við fyrirspurninni er það magn kannabisefna sem lagt var hald á annars staðar á Norðurlöndum umreiknað miðað við íbúafjölda á Íslandi (mynd 1). Ástæðan fyrir því að kannabisefni eru valin við þennan samanburð er að þetta er algengasta ólöglega fíkniefnið og það efni sem mest er lagt hald á.
    Þessi mælikvarði varpar ljósi á það magn fíkniefna sem lagt er hald á en mikilvægt er að skoða þetta í samhengi við aðra þætti, svo sem legu landanna, landamæri, hvort um sé að ræða upprunaland (origin), gegnumstreymisland (transit) eða markaðsland (final destination). Þessi atriði geta skipt verulegu máli þegar eingöngu er stuðst við það magn fíkniefna sem lagt er hald á. Þá geta mál þar sem um mikið magn fíkniefna er að ræða raskað tölfræðinni. Magntölugreining eins og þessi er ein tegund mælinga á árangri en aðrar styðja niðurstöður magntölugreiningarinnar, t.d. fjöldi mála þar sem hald er lagt á fíkniefni og götuverð fíkniefna hér á landi í samhengi við erlenda markaði.



Mynd 1. Magn kannabisefna sem lagt er hald á í fjórum löndum
miðað við staðlaðan fjölda íbúa 2000–2003.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á mynd 1 hefur tölum frá Noregi, Svíþjóð og Danmörku verið bætt við tölur frá Íslandi og þær stilltar af svo að það sést hversu mörg kíló af kannabisefnum norsk, sænsk og dönsk yfirvöld leggja hald á miðað við hverja 290 þúsund íbúa. Greinilegt er að magn kannabisefna sem lagt var hald á er nokkuð svipað í Noregi og á Íslandi. Árið 2003 varð mikil aukning í Noregi en tölur fyrir fyrstu sex mánuði þessa árs benda til að mun minna verði tekið af efnum í ár en árið á undan. Danmörk sker sig töluvert úr enda gegnumstreymisland og fer mikið af efnum sem neytt er annars staðar á Norðurlöndum þar í gegn. Árið 2003 komu til dæmis frá Danmörku um 87% þeirra hassefna sem lagt var hald á hér á landi í innflutningsmálum. Það að Danmörk er miðstöð fyrir dreifingu kannabisefna til annarra landa eykur magnið sem lagt er hald á þar í landi miðað við íbúafjölda (meira magn í umferð). Íslenskt dæmi um slík áhrif á tölfræðina er þegar lagt var hald á gríðarlegt magn af e-töflum á Keflavíkurflugvelli á árunum 2000 og 2001. Þessi efni voru ekki ætluð fyrir markað hér á landi heldur voru þau á leið frá Hollandi til Bandaríkjanna.
    Magn þeirra efna sem lagt er halt á getur sveiflast mikið milli ára og sést það til að mynda á því að magntölurnar fyrir Danmörku detta niður fyrir 100 kílóin árið 2001 (mynd 1). Því er mikilvægt að horfa til lengra tímabils í stað þess að túlka niðurstöður einstakra ára. Mynd 1 gefur til kynna að það magn fíkniefna sem íslensk lögregla og tollgæsla leggja hald á sé ekki úr takti við það sem gerist í hinum norrænu ríkjunum. Ef miðað er við að eftirspurn hér á landi sé svipuð og í þessum löndum er ekki óvarlegt að álykta að árangur lögreglu og tollgæslu hér á landi sé nokkuð góður.
    Lögreglulið í Evrópu segja almennt að þau nái um 10–15% af þeim efnum sem eru í umferð. Það verður hins vegar að hafa í huga að nánast aldrei eru haldbærar tölur eða gögn notuð við það mat. Erlendir fræðingar sem hafa skrifað um þetta tala oft um 5% af heildarmagni án þess að vitna í tölur eða rökstyðja hlutfallstölur á einn eða annan hátt. Þessar hlutfallstölur byggja eingöngu á ágiskunum um sambandið milli heildarmagns efna og þess efnis sem lagt er hald á. Önnur leið til að áætla stærð markaðarins er að nota neyslukannanir og meta út frá þeim en það er mjög varasamt þar sem það fólk sem notar efnin oft er einnig fólkið sem neyslukannanir ná sjaldnast til.
    Á sama tíma og lagt hefur verið hald á aukið magn fíkniefna hér á landi hefur haldlagningum (number of seizures) fjölgað mikið. Þessi alþjóðlegi mælikvarði segir til um hversu oft lögregla eða tollgæsla leggja hald á fíkniefni og er óháður tilviljunakenndum sveiflum í magni efna. Þetta er því annar mælikvarði á virkni lögreglu og tollgæslu.
    Mikla fjölgun á haldlagningarmálum á Íslandi má meðal annars rekja til aukinna áherslna lögreglu á fíkniefnamálaflokkinn á síðustu tveimur árum í framhaldi af umburðarbréfi ríkislögreglustjóra til lögreglustjóranna og Lögregluskóla ríkisins og fundum með yfirmönnum lögreglunnar um land allt. Þannig fjölgaði haldlagningum allra ólöglegra fíkniefna á árinu 2003 frá árinu á undan úr 1.170 í 1.640 og sama þróun er á þessu ári. Eins og sjá má á mynd 2 þá stendur Ísland einnig mjög vel í alþjóðlegum samanburði hvað varðar fjölda haldlagninga á kannabisefnum. Þar eru haldlagningartölur frá Íslandi bornar saman við tölur frá Noregi, Svíþjóð og Danmörku og þær stilltar af svo samanburður fáist um fjölda haldlagninga á kannabisefnum miðað við hverja 290 þúsund íbúa. Ísland sker sig úr vegna mikillar aukningar haldlagninga og fer hlutfallslega langt yfir hin löndin. Síðan kemur Noregur, þá Danmörk og síðast Svíþjóð.

Mynd 2. Fjöldi haldlagninga á kannabisefnum í fjórum löndum 2000–2003.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Verð fíkniefna á Íslandi er mjög hátt og hefur verið það lengi bæði í samanburði við verð annars staðar á Norðurlöndim og í öðrum lönd Evrópu.

Tafla 3. Grófur samanburður á götuverði ólöglegra fíkniefna milli nokkurra landa.


Hass g Amfetamín g Kókaín g E-töflur stk.
Ísland 1.900 4.000 11.000 2.500
Bretland 400 1.100 6.000 700
Danmörk 800 2.500 7.000 500-1.200
Noregur 1.200 3.000 1.200
Svíþjóð 800–1.000 1.000–3.000 7.000–9.000 1.000–1.500
*Tölur fyrir Ísland er meðaltalsverð áranna 2000–2003 samkvæmt verðkönnun SÁÁ.

    Á Íslandi er götuverð fíkniefna mikið hærra en í Bretlandi þar sem gramm af hassi kostar um 400 krónur á götunni, ein e-tafla um 700 krónur, grammið af amfetamíni um 1.100 krónur og grammið af kókaíni um 6.000 krónur (sbr. töflu 3). Annars staðar á Norðurlöndunum er verðið hærra en í Bretlandi, en samt lægra en á Íslandi. Gramm af hassi kostar í Danmörku um 800 krónur og hefur hækkað mikið á stuttum tíma (sú hækkun er rakin til nýrrar stefnu danskra yfirvalda um að taka harðar á meðhöndlun kannabisefna). Í Svíþjóð er verð á hassi um 800–1.000 krónur grammið, amfetamín kostar milli 1.000 og 3.000 krónur grammið (lægra í stórum borgum, nær okkar verði í minni bæjum), e-taflan kostar um 1.000–1.500 krónur og kókaínið kostar um 7.000–9.000 krónur.
    Margir þættir, t.d. staðsetning, hafa áhrif á verðþróun. Í Bandaríkjunum er heróín t.d. dýrara en kókaín, en í Evrópu eru þessi efni á svipuðu verði. Það stafar af fjarlægð milli markaða efnanna og framleiðslulanda. Hátt verð fíkniefna á Íslandi í samanburði við nágrannalöndin og hversu stöðugt það hefur verið síðustu ár, á sama tíma og það hefur verið að lækka víða annars staðar, segir auðvitað töluvert. Hins vegar er ekki hægt að fullyrða að öflug löggæsla, eða aðrar ráðstafanir stjórnvalda gegn fíkniefnavandanum, sé helsta orsökin fyrir háu verði fíkniefna hér á landi. Líklegt er að hátt verð hér á landi stafi af samspili fjarlægðar íslenska markaðarins frá öðrum löndum og öflugrar löggæslu.
    Verð á fíkniefnum getur verið breytilegt frá einum tíma til annars. Þá skipta tengsl viðkomandi inn í fíkniefnaheiminn máli, gæði efnanna, hvaða magn um er að ræða, framboð, eftirspurn og fleira.

Mynd 3. Verðþróun á hassi milli Íslands og Bretlands 2000-2003.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Niðurstaða. Ekki er til neinn ábyggilegur mælikvarði á hlutfall fíkniefna í umferð sem löggæslustofnanir leggja hald á, hvorki hér á landi né annars staðar og er samanburður milli landa því erfiður. Þó má af framansögðu ráða að stjórnvöld á Íslandi standi öðrum þjóðum síst að baki í þessum efnum – og jafnvel að hlutfall þess magns sem tekst að leggja hald á hér á landi sé í hærri kantinum miðað við það sem almennt gerist í sambærilegum löndum Evrópu. Magn kannabisefna sem lagt er hald á, að teknu tilliti til íbúafjölda og annarra forsenda, hátt verð á fíkniefnum og mikill fjöldi haldlagninga fíkniefna styðja að svo sé.

     4.      Hve margar líkamsárásir og önnur ofbeldisverk má rekja beint til fíkniefnaneyslu?

    Tölur um fjölda ofbeldisverka sem rekja má beint til fíkniefnaneyslu eru ekki til, enda þyrfti þá að framkvæma blóðtöku af árásarmanninum í beinu framhaldi af broti. Auk þess þyrfti að rannsaka með hvaða hætti fíkniefnin hefðu stuðlað að ofbeldinu í þeim tilvikum þar sem fíkniefnin komu við sögu. Þá má í þessu sambandi taka fram að oft getur nokkur tími liðið frá því árás átti sér stað og þar til tilkynning berst lögreglu og jafnvel er í fyrstu oft ekki vitað hver árásarmaðurinn er, eða að strax sé hægt að ganga að honum. Einnig þarf að hafa í huga að ólöglegum fíkniefnum kann að hafa verið neytt samhliða áfengi og árásarmenn og þolendur í líkamsárásarmálum eru oft ekki tilbúnir til að tjá sig mikið um fíkniefnabrot í tengslum við önnur brot. Í einhverjum tilvikum, svo sem í alvarlegum ránsbrotum, kunna árásarmenn þó að reyna að skýra eða réttlæta brot sitt sem afleiðingu fíkniefnaneyslu þó svo að ástæðan sé kannski önnur.
    Í félagsvísindum almennt er mjög hæpið að leiða megi einhverja skýringaþætti beint af afleiðingum og hrein og klár orsakasambönd fyrirfinnast bara ekki. Allt verður flóknara þegar menn skoða málin nánar. Það er hins vegar greinilega óbeint samband á milli fíkniefnaneyslu og ofbeldis, sérstaklega ef menn skilgreina áfengi sem fíkniefni. Bresk könnunin (British Crime Survey) sýnir t.d. að u.þ.b. fjórðungur ofbeldisverka þar sem gerandi og þolandi þekkjast ekki, eiga sér stað á krám og öldurhúsum. Hins vegar er óvarlegt að álykta að áfengisneysla orsaki beint ofbeldi þar sem langflestir sem eru ölvaðir á öldurhúsum bæja og borga eru ekki ofbeldishneigðir.
    Rannsókn ríkislögreglustjóra árið 2001 vegna ofbeldisbrota á árinu 1999 ( Brot gegn lífi og líkama 1999: Samantekt um líkamsmeiðingar, aðrar en kynferðisbrot) sýndi svipaðar niðurstöður. Þar kom fram að flest ofbeldisbrot sem tilkynnt eru til lögreglu á höfuðborgarsvæðinu eiga sér stað að næturlagi (57%), um helgar (57%) og í og við skemmtistaði (30%). Um 36% brotanna (á höfuðborgarsvæðinu) eiga sér stað eftir deilur milli manna og um 39% eru fyrirvaralaust ofbeldi. Rannsókn ríkislögreglustjóra studdist einnig við tölur frá slysadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss um komur sjúklinga vegna ofbeldisbrota og gáfu þau gögn mjög líka mynd og lögreglugögnin um það hvenær vikunnar og sólarhrings ofbeldisbrotin áttu sér stað.
    Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á bein áhrif af neyslu kannabis og annarra fíkniefna á ofbeldishegðun einstaklinga, þ.e. lyfjafræðileg áhrif þessara efna á ofbeldishegðun. Sú niðurstaða getur verið vegna þess að rannsóknir taka yfirleitt ekki tillit til aðstæðna og því fáum við ekki samspil vímunnar og umhverfisþátta inn í rannsóknirnar. Örfáar rannsóknir hafa tekið umhverfisþætti inn í rannsóknarsnið sín og hefur t.d. í nokkrum rannsóknum verið sýnt fram á að áfengisneysla eykur ofbeldishegðun sumra í ákveðnum aðstæðum (þegar sumir drukknir einstaklingar standa frammi fyrir pirrandi og ógnandi aðstæðum). Líklegt er því að áfengisneysla hafi áhrif á ofbeldishegðun einhverra en þó verður að hafa í huga að þau áhrif eru alltaf hluti af stærra samhengi og þetta verður aldrei skýringin á ofbeldi almennt í samfélaginu.
    Unglingar sem drekka og nota fíkniefni eru einnig líklegri til að beita ofbeldi en aðrir unglingar. Í stað þess að líta á þetta sem orsakasamband og segja að „drykkja unglinga veldur ofbeldishegðun“ er miklu líklegra að einhver annar undirliggjandi þáttur útskýri báðar tegundir hegðunar, þ.e. neyslu og ofbeldi. Sú staðreynd að unglingar sem fremja ofbeldisglæpi hafa einnig neytt fíkniefna án þess að fíkniefni í sjálfu sér hvetji með beinum hætti til ofbeldis er ekki skrýtin ef þessar tvær tegundir frávikshegðunar eru skoðaðar sem hluti af áhættulífstíl.
    Rannsókn Emils Einarssonar fyrir ríkislögreglustjóra og Nýsköpunarsjóð námsmanna árið 2002 ( Líðan og persónueinkenni grunaðra, vitna og kærenda og viðhorf þeirra til starfshátta lögreglu) styður þetta. Ástæður sem gefnar voru fyrir að beita ofbeldi voru helst innheimta skulda, að verja sig, eða hefnd. Hjá þeim sem urðu fyrir ofbeldinu var skýringin oftast peningaskuld, vegna hefndar, tilviljunar og að sá sem ofbeldinu beitti vissi ekki hvað hann var að gera.
    Mælingar á handteknum einstaklingum (NEW ADAM Project í Englandi) sýna að 60% þeirra sem handteknir eru fyrir líkamsárás mælast (með þvagprufu) hafa neytt einhvers konar fíkniefna (neysla á áfengi er ekki talin með). Það virðist hátt hlutfall en sett í samhengi við að 63% þeirra sem handteknir voru fyrir innbrot í verslunarhúsnæði mældust með einhvers konar fíkniefni í líkamanum sýnir að fíkniefni tengjast ekki stærra hlutfalli ofbeldisbrota en annarra brota. Svipaðar niðurstöður hafa fengist annars staðar á Norðurlöndunum þar sem rannsóknir hafa sýnt að nær 70% ofbeldismanna voru drukkin eða undir áhrifum annarra fíkniefna þegar ofbeldisbrotin voru framin.
     Niðurstaða. Ekki er hægt að segja að fíkniefni stuðli beint að ofbeldishegðun, heldur eru þau hluti af slæmum lífsstíl og hafa óbein áhrif á ofbeldi og þá í samhengi við aðra þætti í lífi fólks sem einnig skipta máli í að skilja orsakir ofbeldisglæpa.

     5.      Hve margir hafa hlotið dóma fyrir innflutning eða dreifingu fíkniefna árlega sl. þrjú ár og hversu þunga?

    Samkvæmt málaskrá ákæruvaldsins féllu dómar gegn 89 einstaklingum í málum sem stofnað var til árið 2001 vegna innflutnings fíkniefna og/eða sölu og dreifingu fíkniefna. Sambærilegur fjöldi fyrir árið 2002 eru dómar gegn 65 einstaklingum og 77 árið 2003 (tafla 4). Miðað er við það ár er brot fór í ákæru, óháð því hvenær brot var kært til lögreglu eða dómur féll í því.

Tafla 4. Fjöldi einstaklinga sem fóru fyrir dómstóla vegna fíkniefnainnflutnings og/eða sölu og dreifingu fíkniefna 2001–2003, samkvæmt málaskrá ákæruvaldsins.

2001 2002 2003
Máli lokið með héraðsdómi 81 64 74
Hæstaréttardómur 8 1 3
Samtals 89 65 77

    Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun ríkisins voru innkomnir dómar vegna allra fíkniefnabrota 183 árið 2001, 172 árið 2002 og 264 árið 2003 (tafla 5). Af þeim 67 dómum árið 2001 þar sem dæmt var í óskilorðsbundið fangelsi voru 15 dómar vegna stórfellds innflutnings (173. gr. hgl). Árið 2002 voru þeir 13 og 20 árið 2003.

Tafla 5. Fjöldi dóma í fíkniefnamálum sem bárust Fangelsismálastofnun 2001–2003.

2001 2002 2003
Skilorðsbundin refsing 41 50 83
Fangelsisdómur 67 64 83
Sekt 68 52 84
Ekki refsing 7 6 14
Samtals 183 172 264

    Á töflu 6 má sjá lengd óskilorðsbundinna dóma sem komu til Fangelsismálastofnunnar á tímabilinu. Sjá má að meðallengd fíkniefnadóma var tæplega 17 mánuðir árið 2001, tæplega 13 mánuðir árið 2002 og tæplega 10 mánuðir árið 2003. Árið 2003 var stysti fangelsisdómur í fíkniefnamáli einn mánuður en sá lengsti átta ár sem er svipað og árin á undan.


Tafla 6. Lengd óskilorðsbundinna dóma í fíkniefnamálum
sem bárust Fangelsismálastofnun ríkisins 2001–2003.

Fjöldi daga Meðalfjöldi daga Fjöldi mánaða Meðalfjöldi mánaða Stysti dómur Lengsti dómur
2001 33.180 495 1.106 16,5 1 mánuður 9 ár
2002 24.570 384 819 12,8 15 dagar 10 ár
2003 23.721 286 791 9,5 1 mánuður 8 ár

     6.      Hve mikið fé hefur fíkniefnadeild lögreglunnar fengið árlega sl. þrjú ár?
    Þar sem talað er um fíkniefnadeild lögreglunnar er væntanlega átt við fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík. Eftirfarandi er byggt á upplýsingum frá lögreglustjóranum í Reykjavík.
    Fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík er hluti af embætti lögreglunnar í Reykjavík og hefur ekki sérstaka fjárveitingu á fjárlögum. Hluti deildarinnar hefur þó verið fjármagnaður með sérstakri fjárveitingu af fjárlagalið 06-341-125 Átak í löggæslu vegna fíkniefnamála sem dómsmálaráðuneytið stýrir. Sérfjárveitingin er ætluð til að greiða kostnað við átta stöðugildi í fíkniefnadeild en í deildinni eru 16 starfsmenn. Að neðan má sjá launakostnað í fíkniefnadeild en auk hans má bæta við margvíslegum rekstrarkostnaði sem bókfærður er sameiginlega með öðrum deildum.

Tafla 7. Launakostnaður fíkniefnadeildar og sérstök fjárveiting.


Kostnaður 2001 2002 2003
Launakostnaður fíkniefnadeildar (millj. kr.) 71,2 81,0* 74,0
Sérstök fjárveiting (millj. kr.) 46 50 50
* Launakostnaður var óvenjumikill árið 2002, m.a. vegna eingreiðslu til lögreglumanna samkvæmt dómi sem hafði áhrif í öllum deildum embættisins, þ.m.t. í fíkniefnadeild.

    Fyrir utan vinnu lögreglumanna í fíkniefnadeild vinnur fjöldi annarra lögreglumanna að fíkniefnamálum á einn eða annan hátt og má þar nefna upplýsinga- og eftirlitsdeild, tæknideild og einkennda sem óeinkennda lögreglumenn á vöktum.

     7.      Lágu fyrir óskir frá lögregluyfirvöldum vegna fjárlagagerðar fyrir árin 2002, 2003 og 2004 um að auka fjármagn til að takast á við fíkniefnavandann? Ef svo er, hverjar voru óskirnar og hvernig var orðið við þeim?

    Ekki lágu fyrir óskir eða tillögur frá lögregluyfirvöldum vegna fjárlagagerðar fyrir árin 2002, 2003 og 2004, sem beinlínis miðuðu að því að auka fjármagn til að takast á við fíkniefnavandann. Það má hins vegar nefna að almennt séð hefur fíkniefnalöggæsla verið efld til mikilla muna á undanförnum árum. Þannig hefur fíkniefnalögreglumönnum verið fjölgað mikið um allt land, tækjabúnaður bættur, þjálfun og rekstri fíkniefnahunda komið í varanlegt horf og svo mætti lengi telja. Sérstakir fíkniefnarannsóknarlögreglumenn starfa nú hjá stærri lögregluliðum í landinu og hafa þeir með sér gott samstarf og vinna náið saman að rannsóknum stærri mála. Því má segja að fjárveitingar til þessa málaflokks hafi aukist en þó þannig að óskir eða tillögur hafa ekki sérstaklega verið eyrnarmerktar fíkniefnamálum sem slíkum, heldur hafa fjárlagatillögur í þessu efni fremur miðast við víðfeðmari skilgreiningar, svo sem óskir í formi aukinna stöðugilda lögreglumanna eða hafa jafnframt tekið mið af öðrum verkefnum lögreglunnar, svo sem auknum fjárveitingum til tæknirannsókna, eftirlits með útlendingum, sérsveitar o.s.frv.
    Nefna má sérstaklega að því er varðar sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli, að ekki hefur verið farið fram á auknar fjárveitingar til lögreglu vegna fíkniefnamála hjá því embætti þar sem fíkniefnadeild embættisins heyrir að mestu undir tollgæsluna. Hjá embættinu hefur markvisst verið unnið að eflingu fíkniefnadeildar tollgæslunnar undanfarin ár, m.a. með tilfærslu stafsmanna milli deilda en með því hefur starfsmönnum deildarinnar fjölgað um fjóra frá árinu 2001. Á fjárlögum ársins 2002 fékkst umbeðin fjárheimild til endurnýjunar hundabifreiðar fíkniefnadeildarinnar. Embættið á Keflavíkurflugvelli fór fram á auknar fjárheimildir við fjárlagagerð 2004 til þess að unnt mætti vera að fjölga fíkniefnaleitarhundum embættisins úr tveimur í þrjá, ráða hundaumsjónarmann og kaupa bifreið vegna þess. Það náði hins vegar ekki fram að ganga en utanríkisráðuneytið hefur þó, samkvæmt upplýsingum sem aflað hefur verið, samþykkt fyrir sitt leyti að í fjárlagafrumvarpi 2005 verði gert ráð fyrir fjárheimild til þessa málaflokks að upphæð 6,5 millj. kr. Það er mat embættis sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli að það sé nægjanlegt fjármagn til ráðstöfunar til nauðsynlegs reksturs þessa málaflokks.


Fylgiskjal I.


Samantekt á haldlögðum munum,
byggt á svörum lögreglustjóranna
(sbr. 2. lið fyrirspurnarinnar).


    Óskað var upplýsinga frá lögreglustjórunum varðandi haldlagt fé og aðra fjármuni, sem og það sem gert hefur verið upptækt. Svör bárust fá öllum embættum.

Akureyri.
    Haldlagðar voru 51.500 kr. og lagðar inn á bankareikning. Mál var nýlega flutt fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra en dómur hefur ekki gengið í málinu ennþá og er því ekki um neina upptöku að ræða. Engin verðmæti, önnur en þá ólögleg vopn og fíkniefni hafa verið haldlögð. Þannig að ekki er um neina upptöku á verðmætum að ræða.

Blönduós.
    Í fjórum málum er varða fíkniefni hafa verið haldlögð verðmæti. Í tveimur þeirra voru haldlagðir gróðurhúsalampar, skotvopn og skotfæri og hafa þeir hlutir verið gerðir upptækir til ríkissjóð með dómi. Skotfærunum verður eytt. Reynt verður að koma gróðurhúsalömpunum í verð og eins þeim skotvopnum sem lögleg teljast. Andvirðið rennur til ríkissjóð. Í einu málinu voru haldlagðir gróðurhúsalampar úr innbroti og hafa þeir verið afhentir eiganda. Í einu málinu var lagt hald á DVD-spilara og leikjatölvu sem reynt verður að koma í verð og ef það tekst mun andvirðið renna í ríkissjóð.

Bolungarvík.
    Í einu máli voru haldlagðar 5.000 kr. sem sama ár voru gerðar upptækar með dómi.

Borgarnes.
    Lagt var á 114.190 kr. (tvö mál) árið 2003, og 107.707 kr. (eitt mál) árið 2004, en engir peningar voru haldlagðir 2002. Hvað haldlagningu annarra verðmæta varðar þá eru þær upplýsingar ekki tiltækar með svo skömmum fyrirvara. Hins vegar væri unnt að svara því innan nokkurra daga, ef þess er óskað.

Hafnarfjörður.
    Tíu sinnum voru fjármunir haldlagðir á því tímabili er um ræðir, þar af hefur krafa um upptöku ekki verið gerð í sex tilvika, í einu tilviki verið gerð upptökukrafa en málið sjálft enn í ákærumeðferð, í tveimur tilvikum eru mál óafgreidd og eitt mál er hjá ríkissaksóknara. Allir þeir fjármunir sem gerðir eru upptækir renna rakleitt í ríkissjóð.

Húsavík.
    Í einu máli voru fjármunir haldlagðir, 7.000 kr., sem síðan voru gerðir upptækir með dómi.

Ísafjörður.
    Haldlagt fé var í alls sjö málum, samtals 315.500 kr. Fjögur málin eru í ákærumeðferð og eitt í rannsókn. Samtals voru 120.000 kr. gerðar upptækar. Um var um að ræða tvö mál.
              
Keflavík.
    Frá þessu ári, 2004, eru tvö mál þar sem rannsóknarlögreglan í Keflavík haldlagði fé. Um er að ræða 37.000 kr. í öðru málinu og 51.500 kr. í hinu. Ekki hefur enn verið dæmt í þessum málum.

Keflavíkurflugvöllur.
    Embættið hefur lagt hald á fé í fíkniefnamálum þar sem útlendingar koma við sögu og fyrirsjánlegt er að ekki verður hægt að innheimta af þeim, m.a. sakarkostnað, eftir öðrum leiðum. Það fjármagn hefur verið geymt þar til dómur hefur gengið í málum þeirra. Eftir aðstæðum hefur síðan málskostnaður og/eða kostnaður við að senda viðkomandi úr landi verið greiddur með þessu fé. Annað fjármagn eða verðmæti hefur viðkomandi fengið afhent.

Kópavogur.
    Árið 2002 var lagt hald á 20.000 kr. og þær síðan afhentar eiganda aftur (eitt mál).
    Árið 2003 var lagt hald á 32.500 kr. og þær síðan afhentar eiganda aftur (eitt mál).
    Árið 2004 var lagt hald á 344.000 kr. í sjö málum. 87.000 kr. hafa verið gerðar upptækar með dómi, 153.500 kr. hafa verið afhentar eigendum aftur og 103.500 kr. eru tengdar málum sem enn eru í rannsókn eða ákærumeðferð.

Ólafsfjörður.
    Í einu máli var lagt hald á 30.000 kr. en þeim var skilað aftur eftir tvo daga þar sem þær sannanlega tengdust ekki málinu.

Reykjavík.
    Árið 2002. Haldlagðir peningar voru 2.686.086 kr. Af þessari upphæð var gerðar upptækar 1.751.547 kr. Mismunurinn, 934.539 kr., var greiddur til baka.
    Árið 2003. Haldlagðir peningar voru 191.826 kr. Af þessari upphæð var gerðar upptækar 38.500 kr. Greiddar til baka voru 56.116 kr. Óafgreiddar eru 97.210 kr. þar til málinu er lokið.
    Árið 2004 (til 15. október). Haldlagðir peningar voru 292.000 kr. Af þessari upphæð voru gerðar upptækar 75.500 kr. Greiddar voru til baka 67.000 kr. Óafgreiddar eru 149.500 kr. þar til málinu er lokið.

Selfoss.
    Í þremur málum var lagt hald á fjármuni, samtals 416.500 kr., þar af voru gerðar upptækar 14.500 kr. Eitt málið er fyrir Héraðsdómi Suðurlands og rannsókn í öðru er á lokastigi.

Seyðisfjörður.
    Í einu máli var krafist upptöku á vatnasleða („jet ski“), ásamt þurrgalla og hjálmi, sem notað var til ólöglegs innflutnings á fíkniefnum, og var fallist á upptökukröfu í dómi. Sleðinn ásamt galla og hjálmi var selt á lausafjáruppboði árið 2003 fyrir 182.000 kr. og að frádregnum kostnaði við uppboðið var 172.900 kr. skilað til íslenska ríkisins.



Fylgiskjal II.

Fangelsismálastofnun:

Yfirlit yfir jafnvirðisupptöku á árunum 2001–2003 .


Dómstóll

Refsing

Brot gegn
Jafnvirðisupptaka

Sent til
Hæstiréttur 22. feb. 2001 7 ára og 6 mánaða fangelsi - 531 d.g. (Sætir upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 21.400.000 kr., þ.m.t. fjármunum samkvæmt dómkröfu 2.6., liðum a-h í ákæru 18. apríl 2000.) 173.a.1 sbr. 65/74 21.400.000 Lögreglustjórans í Reykjavík
Hæstiréttur 22. feb. 2001 6 ára og 8 mánaða fangelsi - 518 d.g. (Sætir upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 8.000.000 kr., þ.m.t. fjármunum samkvæmt dómkröfu 2.1. í ákæru 18. apríl 2000.) 173.a.1 sbr. 65/74 8.000.000 Lögreglustjórans í Reykjavík
Hæstiréttur 22. feb. 2001 18 mánaða fangelsi (Sætir upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 245.000 kr.) 173.a.1 245.000 Lögreglustjórans í Reykjavík
Hæstiréttur 22. feb. 2001 3 ára fangelsi - 6 d.g. (Sætir upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 3.180.000 kr., þ.m.t. fjármunum samkvæmt dómkröfu 2.4. í ákæru 19. apríl 2000.) 173.a.1 sbr. 65/74 3.180.000 Lögreglustjórans í Reykjavík
Hæstiréttur 22. feb. 2001 4 ára og 6 mánaða fangelsi - 515 d.g. (Sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 11.900.000 kr., þ.m.t. 3.000 dönskum krónum.) 173.a.1 sbr. 65/74 11.900.000 Lögreglustjórans í Reykjavík
Héraðsdómur Reykjavíkur 7. mars 2001 16 mánaða fangelsi - 33 d.g. (Upptaka á jafnvirði 6.500.000 kr.) 264.1 sbr. 2, 65/74 6.500.000 Lögreglustjórans í Reykjavík
Héraðsdómur Norðurlands eystra 14. júní 2001 6 mánaða fangelsi, skb. 3 ár - 12 d.g. (Upptaka á 56.500 kr. og fíkniefnum samkvæmt dómsorði.) 65/74 56.500 Sýslumanninum á Akureyri
Héraðsdómur Reykjavíkur 10. okt. 2001 60 daga fangelsi, skb. 2 ár (Sætir upptöku á 24.000 kr. ásamt fíkniefnum samkvæmt dómsorði.) 65/74, 257.1 24.000 Lögreglustjórans í Reykjavík
Hæstiréttur 8. nóv. 2001 20 mánaða fangelsi - 9 d.g. (Upptaka á jafnvirði 1.000.000 kr.) 264.1sbr. 2, 65/74 1.000.000 Lögreglustjórans í Reykjavík
Hæstiréttur 8. nóv. 2001 14 mánaða fangelsi - 16 d.g. (Upptaka á jafnvirði 100.000 kr. og á fíkniefnum og munum, sbr. dómsorð.) 264.1sbr. 2, 65/74, 254.1 100.000 Sýslumanninum í Keflavík
Héraðsdómur Vestfjarða 26. okt. 2001 140.000 kr. sekt (Upptaka á 9.000 kr. + hassi + hníf, sbr. dómsorð.) 65/74 2 gr. 50/87 37.1, 37.2 9.000 Sýslumanninum á Ísafirði
Héraðsdómur Reykjaness 22. feb. 2002 2 mánaða fangelsi + 2 mánaða fangelsi skb. 2 ár (Upptaka á fíkniefnum og ágóða, 78.000 kr. ) 65/74 78.000 Lögreglustjórans í Reykjavík
Héraðsdómur Norðurlands eystra 20. júní 2003 150.000 kr. sekt (Upptaka, sbr. dómsorð.) 65/74 2, rgl. 233/01 2 45.000 Sýslumanninum á Akureyri
Héraðsdómur Reykjaness 8. júlí 2003 12 mánaða fangelsi (Upptaka, sbr. dómsorð.) 173.a.2 150.000 Sýslumanninum í Kópavogi
Héraðsdómur Reykjaness 8. júlí 2003 10 mánaða fangelsi (Upptaka, sbr. dómsorð.) 173.a.2 200.000 Sýslumanninum í Kópavogi