Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 99. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 320  —  99. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar um fjárframlög til Þjóðminjasafnsins.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu há voru framlög fyrirtækja og stofnana til endurgerðar Þjóðminjasafnsins frá lokun þess vegna viðgerða til opnunar þess 2004? Svarið óskast sundurliðað eftir árum, fyrirtækjum og stofnunum.

    Ráðuneytið óskaði eftir því við þjóðminjavörð, Margréti Hallgrímsdóttur, að útbúa skriflegt svar varðandi fyrirspurn um fjárframlög til Þjóðminjasafnsins. Svar þjóðminjavarðar fylgir hér á eftir.

Greinargerð um samstarf við atvinnulíf og hollvini.
    Í tilefni endurbyggingar safnhúss Þjóðminjasafnsins var opnuð ný grunnsýning um sögu Íslands frá landnámi til nútímans, sýningin Þjóð verður til – Menning og samfélag í 1200 ár. Vandað var til nýrrar grunnsýningar, sem ætlað er að standa um árabil og fylgja nýjustu rannsóknum á íslenskri menningarsögu til safngesta með fjölbreyttri miðlun.
    Grunnsýning Þjóðminjasafnsins er búin nýrri tækni í sýningargerð sem er árangur viðamikils samstarf við atvinnulífið og hollvini Þjóðminjasafns. Lögð er áhersla á að gera sýninguna áhugaverða og spennandi fyrir kröfuharða nútímasafngesti, sem geta sett sig í spor Íslendinga liðinna alda og borið aðstæður þeirra saman við samtímann með aðstoð nýrrar miðlunartækni. Þannig er mögulegt að miðla upplýsingum á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt, þekkingu sem unnt er að viðhalda eftir því sem rannsóknum fleygir fram.
    Stuðnings- og samstarfsaðilar Þjóðminjasafnsins, Minjar og saga, Bakhjarl og Hollvinir, hafa gegnt mikilvægu hlutverki í uppbyggingu safnsins og eiga ríkan þátt í því að nýja grunnsýningin markar þáttaskil í íslenskri safnasögu og sýningagerð. Þeirra framlag var mikilsvert og samstarf árangursríkt enda leiðarljós að ávinningur væri gagnkvæmur.

Minjar og saga.
     Minjar og saga, vinafélag Þjóðminjasafnsins, hefur starfað frá árinu 1988. Markmið þess er að styrkja starfsemi Þjóðminjasafnsins á ýmsan hátt og efla skilning á mikilvægi þess að vel sé búið að stærsta menningarsögulega safni þjóðarinnar. Helstu verkefni vinafélagsins eru að leita leiða til að afla Þjóðminjasafninu merkra muna sem álitið er að best séu varðveittir í safninu vegna menningarsögulegs gildis þeirra. Félagið hefur aflað safninu margra góðra gripa með því að leita eftir tilstyrk annarra til kaupanna. Nýjasti gripurinn sem félagið hefur gefið safninu er útskorið brennivínshorn frá 1759 í tilefni af 140 ára afmæli safnsins árið 2003. Einnig leitar félagið leiða til þess að greiða fyrir sérstökum rannsóknarverkefnum og efnir til fyrirlestra fræðimanna um fornleifar og aðrar þjóðminjar. Það hefur jafnframt staðið fyrir skoðunarferðum undir leiðsögn sérfræðinga á merka sögustaði. Stjórn félagsins skipa Sverrir Kristinsson, formaður, Sigríður Th. Erlendsdóttir, Guðjón Friðriksson, Katrín Fjeldsted og Ólafur Ragnarsson.

Bakhjarlar og Hollvinir.
    Í atvinnulífinu verða daglega til minjar sem í fyllingu tímans verða mikilvæg teikn um líf og menningu okkar tíma. Tengsl eru mikilvæg á milli atvinnulífsins og þjóðminjavörslunnar, þeirra sem rita söguna annars vegar og þeirra sem varðveita minjar um hana hins vegar. Góður árangur hefur náðst í samstarfi við fulltrúa atvinnulífs við undirbúning opnunar safnsins. Bakhjarl Þjóðminjasafnsins frá árinu 2001 er Landsvirkjun, sem veitti veglegan stuðning þegar krefjandi undirbúningur stóð yfir við fjárfrek verkefni, sem ekki voru sýnileg almenningi. Stuðningur Landsvirkjunar gerði safninu unnt að leggja mikinn metnað og fagmennsku í forvörslu muna auk átaks í kynningarmálum og merkingu minjastaða. Mikilvægur liður í uppbyggingu Þjóðminjasafnsins var stofnun sveitar forystumanna úr íslensku þjóðlífi, sem kölluð er Hollvinir Þjóðminjasafnsins, undir forystu forstjóra Landsvirkjunar. Starf sveitarinnar er að leita nýrra leiða til að auka tengsl Þjóðminjasafns Íslands við atvinnulífið, jafnframt því að afla fjár til verðugra verkefna til eflingar og framfara fyrir safnið.
    Meðal þess sem Hollvinir Þjóðminjasafnsins hafa þegar stuðlað að er stofnun Framfarasjóðs Þjóðminjasafns Íslands, ásamt fyrirtækjunum Bakkavör Group, KB-banka og VÍS, sem eru meginsamstarfsaðilar Þjóðminjasafns Íslands 2004–2006. Árangur hefur verið afar góður og með traustu samstarfi við þessa fulltrúa atvinnulífsins var lagður grunnur að fjármögnun á metnaðarfullri margmiðlun í nýrri grunnsýningu. Auk fyrtalinna fyrirtækja komu aðrir samstarfsaðilar að undirbúningi opnunar. Gerði samstarf við Símann safninu kleift að bjóða upp á hljóðstöðvar þar sem sjónum er beint að íbúum fyrri alda. Flugleiðir og Flugstöð Leifs Eiríkssonar lögðu til innréttingar/færiband í 20. aldar hluta sýningarinnar og Nýherji tölvubúnað til safnfræðslu.

Niðurstaða.
    Eftirtalin eru helstu fyrirtæk og aðilar sem hafa verið í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands:

Landsvirkjun. Bakhjarl Þjóðminjasafns 2001–2005.
    2001–2003: 27.000.000 kr.
    2004–2005: 10.000.000 kr.
Bakkavör:
    2004–2006: 15.000.000 kr.
VÍS:
    2004–2006: 15.000.000 kr.
KB–banki:
    2004–2006: 15.000.000 kr.
Síminn:
    2004–2006: 5.000.000 kr.
Nýherji:
    2004: Tölvubúnaður í Lesstofu. Andvirði um 1.500.000 kr.
Flugleiðir og Flugstöð Leifs Eiríkssonar
    2004: Færiband. Andvirði um 10.000.000 kr.
Minningarsjóðir:
    2002–2004: Forvarsla merkisgripa. 3.000.000 kr.

    Auk þessa hafa fjölmörg fyrirtæki og stofnanir verið í samstarfi um gerð sérsýninga og útgáfuverkefni. Meðal annars má nefna hin íslensku safnaverðlaun árið 2003 en þá var myndadeild Þjóðminjasafnsins var valin safn ársins og hlaut 400.000 kr. verðlaunafé.
    Í heild má segja að Þjóðminjasafn Íslands hafi átt í samstarfi við fyrirtæki á árunum 2000–2006 sem gert hafa safninu kleift að gera sýningar safnsins aðgengilegri með nýrri tækni til miðlunar, svo sem margmiðlun og hljóðstöðum, auk þess að eiga í samstarfi um forvörslu merkra gripa, kynningarátak, ferðakostnað, gerð sérsýninga og útgáfu rita. Stuðningur hefur oft verið fólginn í auglýsingum að andvirði nokkurra milljóna króna, húsnæði eða sérfræðiráðgjöf. Beinir styrkir eru samtals um 100 millj. kr.
    Þess má geta að söfn almennt í heiminum eru í samstarfi við fulltrúa atvinnulífsins í hverju landi. Er litið svo á að ábyrgð sé gagnkvæm þegar rætt er um þjóðminjavörslu, safnastarf og atvinnulíf samtímans sem marka ný spor í sögunni. Árangur er því álitinn betri ef unnt er að koma á samvinnu menningarstarfsemi og atvinnulífs.