Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 299. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 326  —  299. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 155/1998, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálaráðherra skipar sex menn og jafnmarga varamenn í stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn. Skulu fjórir stjórnarmanna skipaðir eftir tilnefningu stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður sjóðstjórnar en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Fjármálaráðherra ákvarðar þóknun stjórnarmanna. Stjórnin skal halda gerðabók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meiri hluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði.

2. gr.

    Í stað „2%“ í 8. gr. laganna kemur: 4%.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til tvær breytingar á lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Annars vegar er lagt til að stjórnarmönnum sjóðsins verði fækkað úr sjö í sex og tilnefningaraðilum fækkað og hins vegar að innheimtuþóknun vegna ógreiddra iðgjalda sem sjóðnum ber að innheimta skv. 6. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, verði hækkuð.
    Samkvæmt gildandi lögum eru stjórnarmenn sjö og skulu tveir þeirra skipaðir eftir tilnefningu Sambands almennra lífeyrissjóða, tveir eftir tilnefningu Landssambands lífeyrissjóða, einn eftir tilnefningu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og tveir án tilnefningar. Eftir stofnun Landssamtaka lífeyrissjóða með sameiningu Sambands almennra lífeyrissjóða og Landssambands lífeyrissjóða þykir rétt að Landssamtökin tilnefni fjóra fulltrúa í stjórn, þ.e. jafnmarga og samtökin sem þau leystu af hólmi tilnefndu. Þá er í frumvarpinu lagt til að tilnefning fulltrúa Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins verði felld niður. Framan af átti töluverður hluti iðgjaldagreiðslna til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda rætur að rekja til manna er störfuðu að einhverju leyti hjá ríkinu, en uppfylltu ekki rétt til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Frá því breyting var gerð á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins árið 1997 hefur orðið hér breyting á. Munar þar mest um stofnun A-deildar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins sem hefur rýmri aðildarákvæði en B-deild sama sjóðs. Jafnframt því hefur öðrum sjóðfélögum í Söfnunarsjóðnum en ríkisstarfsmönnum fjölgað jafnt og þétt. Er nú svo komið að aðeins lítill hluti þeirra sem greiða til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda eru ríkisstarfsmenn. Þá má benda á að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á nú aðild að Landssamtökum lífeyrissjóða og hefur þannig áhrif á tilnefningu fulltrúa í stjórn Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Þykja því ekki lengur standa rök til þess að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins tilnefni mann til setu í stjórn Söfnunarsjóðs. Einnig hefði komið til greina að fjölga þeim stjórnarmönnum sem ráðherra skipar án tilnefningar um einn en niðurstaðan varð sú að leggja frekar til að fækkað yrði í stjórn sjóðsins og draga þannig úr rekstrarkostnaði hans.
    Með lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, var Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda falið innheimtuhlutverk vegna ógreiddra lífeyrisiðgjalda gegn tiltekinni innheimtuþóknun. Nú eru fjögur ár liðin frá því að innheimta ógreiddra lífeyrisiðgjalda hófst og því talsverð reynsla komin á það hvaða kostnaður hlýst af slíkri innheimtu hjá Söfnunarsjóðnum. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefur kostnaður sjóðsins verið mun meiri en gert var ráð fyrir í upphafi. Þannig hefur umframkostnaður sjóðsins af innheimtunni verið allt frá rúmum 4 millj. kr. upp í 8,5 millj. kr. á ári. Ljóst er að ætlan löggjafans á sínum tíma var að kostnaður af innheimtu ógreiddra iðgjalda yrði greiddur af viðkomandi vanskilaaðilum, enda með öllu óásættanlegt fyrir aðra sjóðfélaga Söfnunarsjóðsins að þeir niðurgreiði kostnað vegna vanskilainnheimtunnar. Af fyrirliggjandi gögnum að dæma þykir rétt að miða við að heimild til innheimtuþóknunar verði hækkuð úr 2% í 4%. Rétt er að benda á að um hámark innheimtuþóknunar er að ræða og sjóðnum því heimilt að lækka hana ef kostnaður sem af innheimtunni hlýst lækkar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greinni er lagt til að fjármálaráðherra skipi sex menn og jafnmarga varamenn í stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn. Samkvæmt ákvæðinu skulu fjórir stjórnarmanna skipaðir eftir tilnefningu stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða og tveir án tilnefningar. Annar þeirra er ráðherra skipar án tilnefningar skal vera formaður sjóðstjórnar

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að heimild Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda til innheimtuþóknunar verði hækkuð úr 2% í 4% af iðgjaldi.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 155/1998,
um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til annars vegar að stjórnarmönnum Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda verði fækkað um einn og hins vegar að innheimtuþóknun sem sjóðnum ber að gera kröfu um vegna ógreiddra iðgjalda verði hækkuð. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.