Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 316. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 345  —  316. mál.




Frumvarp til laga



um afnám laga nr. 103/1994, um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara.

Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson,


Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson.


1. gr.
Brottfall laga.

    Lög nr. 103/1994, um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, falla brott við gildistöku laga þessara.
    Um leið fellur niður umboð stjórnar flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara.

2. gr.
Meðferð eigna og skulda flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara.

    Allar eignir flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara, hvaða nafni sem þær nefnast, skulu seldar og kröfur á hendur sjóðnum gerðar upp. Afgangur, ef einhver verður, rennur til ríkissjóðs.
    Reikningum flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara skal lokað, þeir gerðir upp og afgangur, ef einhver verður, endurgreiddur gjaldendum í réttu hlutfalli við greiðslur frá þeim í hverjum flokki.

3. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara falli brott frá 1. janúar 2005. Lögin leystu af hólmi eldri lög um flutningsjöfnunarsjóð og innkaupajöfnun olíu og bensíns, nr. 81/1985, og voru sett þegar viðskiptaumhverfi olíuvara var að taka miklum breytingum með setningu samkeppnislaga, nr. 8/1993, og frelsi í innflutningi og viðskipti með olíuvörur.
    Markmiðið með setningu laganna á sínum tíma var að jafna ákveðinn hluta flutningskostnaðar en að öðru leyti ætti dreifingarkostnaður að greiðast af álagningu olíufélaganna eða dreifingaraðila þeirra.
    Mikið vatn hefur runnið til sjávar í viðskiptalífinu frá setningu laganna og telja flutningsmenn ekki lengur þörf á lögum af þessu tagi heldur eðlilegt að markaðurinn ráði verðmyndun á hverjum tíma. Í samkeppnisumhverfi munu olíufélögin leita leiða til að koma vöru sinni á markað með sem hagkvæmustum hætti. Þá skýtur einnig skökku við að forstjóri Samkeppnisstofnunar skuli lögum samkvæmt vera formaður stjórnar flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara sem hefur það að markmiði að jafna kostnað við að koma vöru á markað og taka ákvörðun um gjald sem skuli lagt á allar olíuvörur til niðurgreiðslu kostnaðar. Það gengur í raun þvert gegn markmiðum samkeppnislaga að ekki sé minnst á hve óheppilegt er að blanda Samkeppnisstofnun inn í markaðsmál með þessum hætti. Þá gera gildandi lög ráð fyrir að olíufélögin, sem eru samkeppnisaðilar, eigi sameiginlegan fulltrúa í stjórninni eða fari saman með atkvæðisrétt. Það er mat flutningsmanna að löggjafinn eigi ekki að þvinga samkeppnisaðila til samstarfs að neinu leyti, enda hefur komið í ljós að fyrirtækin eru tilneydd að gefa upp viðskiptaupplýsingar sem almennt á ekki að deila með samkeppnisaðilum.
    Reynslan hefur einnig sýnt að lækkun á verði til neytenda næst almennt ekki með millifærslusjóðum heldur er frjáls samkeppni á markaði best til þess fallin. Þá sýnir nýleg rannsókn á samráði olíufélaganna svo ekki verður um villst að fyrirbæri eins og flutningsjöfnunarsjóður olíuvara býður hreinlega upp á röskun á samkeppni.
    Flutningsmenn telja eðlilegt að löggjafinn bregðist við þessu og skapi eðlilegt viðskiptaumhverfi þar sem markaðurinn ráði framboði, eftirspurn og verðmyndun. Til þess að svo megi verða þarf að leggja niður kerfi flutningsjöfnunar á olíuvörum. Því er lagt til að lög um flutningsjöfnun olíuvara verði felld brott og um leið falli niður umboð stjórnar flutningsjöfnunarsjóðs. Gert er ráð fyrir að eignir, ef einhverjar eru, verði seldar og skuldir gerðar upp. Þá er gert ráð fyrir að innstæður á reikningum vegna innheimts flutningsjöfnunargjalds, ef einhverjar eru, verði endurgreiddar gjaldendum í réttu hlutfalli við framlög þeirra fyrir brottfall laganna. Loks er lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2005 en flutningsmenn telja mikilvægt að löggjafinn bregðist skjótt við enda þoli málið ekki bið.