Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 318. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 350  —  318. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Minni hlutinn er andvígur frumvarpi ríkisstjórnarinnar um lög á kjaradeilu kennara og skólastjórnenda. Lagasetning þessi leysir engan vanda heldur skýtur honum einungis á frest auk þess sem báðir samningsaðilar hafa lýst andstöðu sinni við hana. Nái frumvarpið fram að ganga magnast óánægja innan kennarastéttarinnar og kann að leiða til flótta úr stéttinni. Skólastarf í landinu verður í uppnámi ef frumvarpið verður samþykkt enda munu kennarar mæta til starfa í algerri óvissu um framtíðarkjör sín.
    Það er mat minni hlutans að ríkisstjórnin beri mikla ábyrgð á því hve alvarleg staðan er.
Í fyrsta lagi hefur hún sjálf gert samninga við framhaldsskólakennara sem fullkomlega eðlilegt er að grunnskólakennarar noti sem viðmiðun. Þegar grunnskólinn var færður yfir til sveitarfélaganna í ágúst 1996 voru byrjunarlaun kennara þau sömu í framhaldsskólum og grunnskólum. Eftir síðustu samninga ríkisins eru byrjendalaun grunnskólakennara mun lægri og munurinn á heildarlaunum er orðinn verulegur. Ríkisstjórnin hefur skapað þetta viðmið og getur ekki vikist undan þeirri ábyrgð.
    Í öðru lagi hefur ríkisstjórnin ekki tryggt sveitarfélögunum fullnægandi tekjustofna til að standa undir þeirri ábyrgð sem Alþingi og ríkisstjórnin hafa lagt þeim á herðar. Í þessu felst ef til vill stærsti hluti ábyrgðar ríkisstjórnarinnar og í því að hafa ekki lokið vinnu tekjuskiptingarnefndar ríkis og sveitarfélaga. Einnig hefur ríkisstjórnin gert breytingar á skattalögum sem hafa takmarkað tekjuöflun sveitarfélaganna.
    Í þriðja lagi hafa kröfur til grunnskólans breyst verulega frá því að hann var færður til sveitarfélaganna. Grunnskólar eru nú einsetnir og fleiri róttækar og dýrar breytingar hafa verið gerðar á skólastarfi. Sveitarfélögin eiga reyndar lof skilið fyrir að hafa svarað auknum kröfum með því að bæta þjónustuna en allir bera hins vegar samfélagslega ábyrgð á þróun grunnskólans. Í því felst að einnig ríkisvaldið ber ábyrgð á kostnaðaraukanum sem hlýst af auknum gæðum grunnskólans. Þetta kallar því á aukinn skilning á sanngjarnari tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Tíu árgangar Íslendinga bera skaðann af verkfallinu. Hann verður seint bættur að fullu og stjórnvöld hafa engar áætlanir uppi um að bregðast við honum. Það hefur vissulega verið grafalvarlegt ástand í samfélaginu þar sem 45 þúsund grunnskólabörn hafa verið án kennslu í tæpa tvo mánuði. Neikvæð áhrif af slíku ástandi geta verið gríðarleg og langvarandi. Hins vegar leysir frumvarpið, verði það að lögum, engan vanda heldur virðist þvert á móti gera hann enn meiri og deiluna illleysanlegri. Minni hlutinn vísar allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni og leggst gegn þessari lagasetningu.
    Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins verður friðarskylda lögð á deiluaðila frá gildistöku laganna og út gildistíma ákvarðana gerðardómsins. Skv. 1. mgr. 2. gr. er gert ráð fyrir að gerðardómurinn ákveði sjálfur gildistíma ákvarðana sinna. Þetta felur í sér að gerðardómnum er í raun framselt vald til að ákveða upp á eigin spýtur hversu lengi grunnskólakennarar skuli vera sviptir verkfallsrétti. Verður framangreint fyrirkomulag að teljast óvarlegt enda nýtur verkfallsrétturinn verndar félagafrelsisákvæðis 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og ákvæðis 1. mgr. 11. gr. mannréttindinasáttmála Evrópu, og eru strangar kröfur gerðar til lagasetningar sem banna verkföll. Í dómi Hæstaréttar frá 14. nóvember 2002 í svokölluðu sjómannamáli, sem fjallaði um réttmæti lagasetningar á verkfall sjómanna, komst Hæstiréttur svo að orði um sambærilegt ákvæði í þeim lögum að það svigrúm sem gerðardómnum var gefið þá hefði verið óheppilega mikið. Bent hefur á að við lagasetningu sem þessa beri að afmarka hóflegan hámarksgildistíma ákvarðana gerðardómsins í lögunum sjálfum.
    Í lokamálslið frumvarpsins er gert ráð fyrir að aðilum verði áfram heimilt að semja um breytingar eftir að gerðardómurinn hefur komist að niðurstöðu en þeir megi hins vegar ekki knýja þær fram með vinnustöðvun. Þetta telur minni hlutinn óhóflega skerðingu þeirra mannréttinda sem í verkfallsréttinum felast, sbr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
    Kolbrún Halldórsdóttir er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 13. nóv. 2004.



Bryndís Hlöðversdóttir,


frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Sigurjón Þórðarson.



Guðrún Ögmundsdóttir.