Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 263. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 354  —  263. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Ísólfs Gylfa Pálmasonar um virðisaukaskatt af listmunagerð.

     1.      Er greiddur virðisaukaskattur af:
                  a.      glerlist,
                  b.      málaralist,
                  c.      leirlist,
                  d.      trélist, svo sem rennismíði úr tré?

    Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög rúmt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Þar kemur fram að skattskyldan taki til allra vara og verðmæta og til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tilgreind undanþegin í 3. mgr. greinarinnar. Lögin hafa ekki að geyma sérstaka skilgreiningu á vöruhugtakinu en ljóst er að það er mjög víðtækt og getur náð til hvers konar efnislegra verðmæta. Ákvæðið slær því föstu að skattskyldan taki bæði til nýrrar vöru og notaðrar.
    Þrátt fyrir framangreint eru listamenn undanþegnir skattskyldu, sbr. 2. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt, að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum sem falla undir tollskrárnúmer 9701.1000 – 9703.0000.
    Eftirfarandi listaverk falla undir hin tilgreindu tollskrárnúmer:
     1.      Málverk, teikningar og pastelmyndir gerðar í höndum að öllu leyti, þó ekki:
          a.      uppdrættir og teikningar til notkunar í húsagerð, verkfræði, iðnaði, viðskiptum, landslagsfræði eða þess háttar frumverk.
          b.      handskrifaður texti.
          c.      ljósmyndir á ljósnæman pappír.
          d.      handmálaðir eða handskreyttir framleiddir hlutir.
     2.      Klippimyndir og áþekkt veggskreytispjöld.
     3.      Frumverk af stungum, þrykki og steinprenti, þ.e. myndir sem þrykktar eru beint í svörtu og hvítu eða í lit með einni eða fleiri plötum sem listamaður hefur gert að öllu leyti í höndunum án tillits til þeirra aðferða eða efnis sem hann notar, þó ekki með neins konar vélrænum eða ljósvélrænum aðferðum.
     4.      Frumverk af höggmyndum og myndstyttum úr hvers konar efni. Til þessa flokks teljast ekki fjöldaframleiddar endurgerðir af listaverkum eða venjulegar handiðnaðarvörur sem hafa einkenni verslunarvöru, jafnvel þótt þessar vörur séu hannaðar eða búnar til af listamönnum.
    Rammar um málverk, teikningar, pastelmyndir, klippimyndir eða áþekk veggskreytispjöld, stungur, þrykk eða steinprent skoðast sem hluti af þessum listaverkum, enda séu þeir að gerð og verðmæti í eðlilegu samræmi við þau.
    Í frumvarpi því sem varð að lögum um virðisaukaskatt kom fram í athugasemdum við 4. gr. að undir hugtakið listaverk í þessu sambandi féllu ekki endurgerðir listaverka í fjöldaframleiðslu eða handiðnaðarvörur með einkennum verslunarvöru. Að þessu virtu er talið að sala nytjamuna, sem telja verður að eigi sér hliðstæður í almennri verslunarvöru, falli almennt ekki undir ákvæðið, hvort sem þeir eru verksmiðjuframleiddir eða handunnir. Skattskyldan nær því m.a. til skála, kertastjaka, vasa og annarra leirlistamuna, hvers konar tréskurðarhandverks, textílvöru, svo sem púða, efna og fatnaðar, o.fl. Hér skiptir engu máli að varan er gerð að öllu leyti í höndum eða að engir tveir hlutur eru eins.
    Af þessu má sjá að málverk standa nokkuð út úr að þessu leyti, enda verða þau vart talin til nytjamuna, sem eiga sér hliðstæður í almennri verslunarvöru og er því sala á þeim undanþegin virðisaukaskatti að uppfylltum framangreindum skilyrðum. Hins vegar er sala á listmunum sem handunnir eru úr gleri, leir eða tré ekki undanþegin virðisaukaskatti ef umræddir munir teljast til venjulegra handiðnaðarvara sem hafa einkenni verslunarvöru.

     2.      Ef mismunur er á virðisaukaskattsgreiðslum í framangreindum greinum, hver er ástæðan og hvaða rök liggja að baki?
    Eins og rakið hefur verið að framan gilda ekki mismunandi reglur um virðisaukaskatt eftir tilteknum listgreinum, heldur er litið til þeirra muna sem seldir eru og notagildis þeirra. Ef þeir munir sem seldir eru teljast til nytjamuna, sem eiga sér hliðstæður í almennri verslunarvöru, er sala þeirra ekki undanþegin virðisaukaskatti.
    Eitt megineinkenni virðisaukaskatts er það að skatturinn er hlutlaus gagnvart framleiðslu og má ekki mismuna einstökum framleiðsluaðferðum. Þá felst í hlutleysi skattsins gagnvart almennu neysluvali að hann hafi ekki áhrif á val neytenda á neysluvörum.
    Af þessu má sjá að samkeppnissjónarmið og eðli skattsins gerir það að verkum að lagður er virðisaukaskattur á alla listmuni ef þeir teljast til nytjamuna og eiga sér hliðstæðu í almennri verslunarvöru.
    Þá ber að geta þess að í vafatilvikum er seljanda mögulegt að kanna hjá tollyfirvöldum til hvaða tollskrárnúmera vara heyrir, sbr. reglur nr. 117/1994, um fyrirspurnir til tollstjóra um tollflokkun vara.