Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 291. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 358  —  291. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar um grásleppuveiðar.

     1.      Hversu miklu af grásleppu var landað af þorsknetabátum á sl. vetrarvertíð, skipt eftir veiðisvæðum?
    Fiskistofa tók saman eftirfarandi upplýsingar um landaðan grásleppuafla íslenskra skipa í þoskanet á tímabilinu 1. janúar til 11. maí 2004 samkvæmt skráningu í löndunarhöfnum:

Hafnarnr. Löndunarhöfn Magn í kg
11 Þorlákshöfn 986
13 Grindavík 63
21 Keflavík 27
27 Hafnarfjörður 379
33 Reykjavík 9.151
35 Akranes 9.374
38 Arnarstapi 38.168
42 Rif 8.859
43 Ólafsvík 16.297
45 Grundarfjörður 1.257
47 Stykkishólmur 10.820
57 Patreksfjörður 7.958
69 Bolungarvík 52
115 Húsavík 783
117 Kópasker 27
149 Hornafjörður 8
Samtals 104.209

     2.      Til hvaða ráðstafana verður gripið á næstu vertíð til að koma í veg fyrir annars vegar veiðar og löndun þorskanetaflotans og annarra veiðiskipa án grásleppuveiðileyfis á grásleppu og hins vegar grásleppuveiði utan veiðitíma?
    Sú ákvörðun sem kemur til með að hafa mest áhrif á grásleppuveiðar í þorskanet á komandi vertíð er að frá næstu áramótum verður óheimilt að nota stærri möskva í þorskanetum en 8 þumlunga. Telja sjómenn að bann við notkun stærri möskva komi til með að draga úr veiði á grásleppu í þorskanet. Ljóst er hins vegar að grásleppa kemur til með að flækjast í önnur veiðarfæri en grásleppunet og ekki er unnt að koma í veg fyrir það. Sú regla hefur gilt að lifandi grásleppu sem veiðist í þorskanet beri að sleppa, en þeirri reglu er í raun ómögulegt að fylgja eftir.

     3.      Telur ráðherra að gætt sé jafnræðis við sviptingu veiðileyfa vegna of mikils meðafla (kvótasettra tegunda) grásleppubáta annars vegar og þorsknetabáta hins vegar?
    Leyfissviptingum hefur ekki verið beitt sérstaklega vegna þorskveiða grásleppubáta. Hins vegar getur það leitt til leyfissviptingar ef þorskveiðar grásleppubáta leiða til þess að þeir veiði umfram aflaheimildir sínar í þorski. Þetta er hin almenna lögbundna regla um veiðar umfram aflaheimildir og gildir ekkert sérstakt um þorskveiðar grásleppubáta að því leyti. Þá ber að hafa í huga í þessu sambandi að grásleppan er ekki kvótasett og því er engin leið fyrir þorskveiðbáta að afla sér aflaheimilda í þeirri tegund.