Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 311. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 476  —  311. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um Verkefnasjóð sjávarútvegsins.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvenær tók Verkefnasjóður sjávarútvegsins til starfa og hverjir sitja í stjórn hans?
     2.      Hve miklar hafa tekjur sjóðsins verið frá því að hann var stofnaður? Í hvaða verkefni hefur þeim verið varið, og hve háum fjárhæðum í einstök verkefni?


    1. Verkefnasjóður sjávarútvegsins var stofnaður með lögum nr. 146 20. desember 2003, um breytingu á lögum nr. 37 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum. Lögin tóku gildi 30. desember 2003. Í samræmi við 1. gr. þeirra skipaði sjávarútvegsráðherra þriggja manna stjórn sjóðsins og í henni sitja Arndís Ármann Steinþórsdóttir, Jón B. Jónasson og Snorri Rúnar Pálmason.
    2. Í Verkefnasjóð sjávarútvegsins rennur gjald sem lagt er á samkvæmt lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992. Í ársbyrjun 2004 var lagt gjald á ólögmætan sjávarafla vegna fiskveiðiársins 2002/2003 að upphæð 26,8 millj. kr. Af þeirri fjárhæð höfðu 8,6 millj. kr. innheimst 17. nóvember 2004. Andvirði afla sem ekki reiknast til aflamarks fiskiskips, samkvæmt b-lið 7. gr. laga nr. 129 20. desember 2001, um breytingar á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, (ákvæði til bráðabirgða XXIX) rennur einnig til Verkefnasjóðs og 17. nóvember sl. höfðu innheimst 116,5 millj. kr. Alls hafa því innheimst 125,1 millj. kr. í Verkefnasjóð sjávarútvegsins á árinu.

Verkefni sem styrkt hafa verið úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins.
Umsækjendur Heiti verkefnis Styrkupphæð
Fiskistofa Mælingar á meðafla við flotvörpuveiðar uppsjávarfisks 13.500.000
Fiskistofa Þörungavöktun í sjó 2.500.000
Fiskistofa Tilkynningaviðmót vegna fjareftirlits 500.000
Hafrannsóknastofnunin Eftirlit með fiskeldiskvótum 9.700.000
Hafrannsóknastofnunin Rannsóknahvalveiðar 18.900.000
Hafrannsóknastofnunin Kortlagning búsvæða á hafsbotni í hafinu við Ísland 5.000.000
Hafrannsóknastofnunin Merkingar á karfa með neðansjávarmerkingarbúnaði 11.700.000
Hafrannsóknastofnunin Atferli þorsks með sérstöku tilliti til veiðanleika 5.000.000
Hafrannsóknastofnunin Stofngerð þorsks við Ísland 17.000.000
Hafrannsóknastofnunin Göngur og útbreiðsla þorsks metnar með GPS-merkjum 8.500.000
Hafrannsóknastofnunin Fæðuvistfræðileg tengsl dýrasvifs og fiska á Reykjaneshrygg 9.800.000
Hafrannsóknastofnunin Áhrif svæðafriðana á samfélög botnlægra fiska 7.400.000
Hafrannsóknastofnunin Áhrif svæðafriðana á samfélög botndýra 6.700.000
Hafrannsóknastofnunin Merkingar á þorski til að meta áhrif svæðafriðana 6.100.000
Samtals 122.300.000