Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 387. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 481  —  387. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 152 27. desember 1996, um breytingu á lögum nr. 92 24. maí 1994,
um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Í stað 3.–5. málsl. 7. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Lögin gilda til 1. júlí 2005. Skulu eignir sjóðsins umfram skuldir að loknum gildistíma laganna renna til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þróunarsjóður sjávarútvegsins hefur starfað frá árinu 1994. Hlutverk hans var að veita styrki til úreldingar fiskiskipa sem og að kaupa fasteignir sem nýttar voru til fiskvinnslu og framleiðslutæki sem þeim fylgdu. Einnig var sjóðnum heimilt að taka þátt í samræmdum aðgerðum lánastofnana við fjárhagslega og rekstrarlega endurskipulagningu sjávarútvegsfyrirtækja eða aðgerðum sem beindust að því að draga úr afkastagetu og greiða fyrir þátttöku íslenskra aðila í sjávarútvegsverkefnum erlendis. Síðar var sjóðnum falið að fjármagna að stórum hluta kaup á nýju rannsóknaskipi fyrir Hafrannsóknastofnunina. Þróunarsjóður sjávarútvegsins yfirtók við stofnun sjóðsins eignir og skuldbindingar Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins sem og neikvætt eigið fé Hlutafjárdeildar Byggðastofnunar og Atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar vegna sjávarútvegsfyrirtækja. Í stofnefnahagsreikningi sjóðsins voru skuldir hans metnar tæplega 800 millj. kr. umfram eignir. Til að standa undir þessum viðamiklu verkefnum og fjárskuldbindingum voru lögð gjöld á eigendur fiskiskipa og um tíma á eigendur fiskvinnsluhúsa. Þessir aðilar hafa alfarið fjármagnað starfsemi sjóðsins.





Prentað upp.

    Á árunum 1994–1997 voru 459 skip og bátar afskráð fyrir atbeina Þróunarsjóðs. Samtals voru þessi skip um 7.800 brt eða um 7% af þáverandi fiskiskipaflota landsins. Sjóðurinn keypti um 20 fiskvinnslustöðvar og tók þátt í allmörgum þróunarverkefnum. Með lögum nr. 152/1996 sem tóku gildi 1. janúar 1997 var hlutverk sjóðsins takmarkað við fjárhagslega umsýslu sjóðsins auk fjármögnunar nýs hafrannsóknaskips. Þá var gildistími laganna jafnframt takmarkaður við 31. desember 2009 og kveðið á um að eignir sjóðsins umfram skuldir að loknum gildistíma skyldu renna til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Með lögum nr. 51/2004 var frá 1. september sl. felld niður skylda eigenda fiskiskipa til að greiða í Þróunarsjóð sjávarútvegsins en þess í stað tekið upp frá sama tíma veiðigjald sem sömu aðilar greiða í ríkissjóð.
    Þar til um síðustu áramót hefur Þróunarsjóður sjávarútvegsins verið rekinn með neikvæðu eigin fé. Samkvæmt endurskoðuðum efnahags- og rekstrarreikningi Þróunarsjóðs var staðan eftirfarandi um síðustu áramót:

2003 2002
Eignir samtals 3.520.727.307 3.679.351.639
Skuldir 3.041.632.189 4.020.697.803
Eigið fé 402.990.844 <394.562.389>

    Við þessi tímamót er því lagt til að gildistími laganna verði styttur þannig að þau falli úr gildi 1. júlí 2005 í stað 31. desember 2009. Jafnframt er lagt til að sjóðurinn verði gerður upp og eftirstöðvar renni í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Fjármagninu verði eftir sem áður varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar eins og kveðið er á um í gildandi lögum.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 152/1996, um breytingu á lögum nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

    Markmið frumvarpsins er að breyta gildistíma laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins þannig að þau falli úr gildi 1. júlí 2005 í stað 31. desember 2009. Jafnframt er lagt til að sjóðurinn verði gerður upp og eftirstöðvar renni í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Áætlað er að markaðsvirði eigna Þróunarsjóðs sé um 300–400 m.kr.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.