Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 397. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 504  —  397. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um athugun á fjárhagsstöðu forsjárlausra feðra.

Flm.: Gunnar Örlygsson, Guðjón A. Kristjánsson, Kristinn H. Gunnarsson.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að gera athugun á fjárhagsstöðu forsjárlausra feðra hér á landi og hafa frumkvæði að því að grípa til aðgerða í framhaldi af athuguninni. Ráðherra skili skýrslu um málið til Alþingis innan árs frá samþykkt tillögunnar.


Greinargerð.

    Markmið tillögu þessarar er í fyrsta lagi að skilgreindur verði sá mikli vandi sem felst í aukinni fátækt einstæðra karlmanna á Íslandi. Í annan stað þarf að tryggja nauðsynlegar aðgerðir af hálfu félagsmálaráðherra til að mæta þeim vanda sem steðjar að tekjulitlum forsjárlausum feðrum. Hjálparstarf kirkjunnar, ASÍ og fleiri stofnanir og félagasamtök hafa margoft sýnt fram á vandann í skýrslum sínum.
    Sífellt fleiri einstæðir karlmenn mælast nú undir fátæktarmörkum. Húsnæðisaðstoð er af skornum skammti fyrir þennan hóp. Verð á leiguhúsnæði er afar hátt hlutfall af launum þeirra sem litlar hafa tekjurnar. Forsjárlausir feður án atvinnu eiga við mikinn vanda að etja. Einnig eiga forsjárlausir feður, með atvinnu en lág laun, í alvarlegum fjárhagserfiðleikum. Telja verður að staða forsjárlausra feðra sé ekki nægilega tryggð í löggjöfinni. Atvinnuleysisbætur og láglaunuð störf duga ekki fyrir húsnæðiskostnaði og meðlagsgreiðslum. Því er afar brýnt að vandi forsjárlausra feðra verði greindur í athugun félagsmálaráðherra. Felur tillagan félagsmálaráðherra að hafa forustu um aðgerðir þar að lútandi.
    Bág fjárhagsstaða hjá tekjulágum forsjárlausum feðrum hefur einnig slæm áhrif á líf og heilsu barna þeirra. Samkvæmt upplýsingum úr starfsskýrslu Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir árin 2003–2004 koma fram staðreyndir sem sýna þennan vanda. Þar segir m.a. að 292 karlar hafi sótt um aðstoð á tímabilinu 1. janúar – 31. mars 2004. Meiri hluti þessara umsækjenda segir atvinnuleysi eða lágar tekjur helstu ástæðu þess að þeir sækja um aðstoð.
    Í Noregi var gripið til þess ráðs að bjóða skattafslátt til tekjulægri manna á móti meðlagsgreiðslum þeirra. ASÍ leggur áherslu á húsnæðismálin og hjálp í formi ráðgjafar. Þróun leigu- og húsnæðisverðs hefur verið efnaminna fólki mikill dragbítur. Rétt er að búa þannig um hnútana að fólk geti komist af í fjárhagslegum skilningi. Að endar nái saman og hægt sé halda mannlegri reisn er algjört grundvallaratriði fyrir þegna okkar ríka lands.
    Í skýrslu ASÍ um áherslur sambandsins í velferðarmálum, Velferð fyrir alla (2003), segir m.a. um stöðu einhleypra karla:
    „Vanda þessa hóps verður að leysa með margvíslegum hætti. Til skemmri tíma má m.a.:
     *      Veita húsaleigubætur vegna leigu á herbergjum.
     *      Styrkja fjárhagsstöðu þeirra feðra sem eru það illa staddir fjárhagslega að þeir eiga erfitt með að umgangast börn sín með sómasamlegum hætti.
     *      Veita þeim feðrum sem eru með sameiginlegt forræði aukna möguleika á félagslegri aðstoð, t.d. í formi leiguhúsnæðis og ráðgjafar.“