Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 398. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 505  —  398. mál.




Frumvarp til laga



um afnám laga nr. 53/2002, um Tækniháskóla Íslands, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Lög um Tækniháskóla Íslands, nr. 53/2002, með síðari breytingum, falla úr gildi.
    Nemendur sem við gildistöku laga þessara eru í námi við Tækniháskóla Íslands eiga rétt á að ljúka því námi samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi er við skólann miðað við gildandi reglur um námsframvindu.

2. gr.

    Við gildistöku laga þessara skulu störf starfsmanna Tækniháskóla Íslands lögð niður. Um réttindi þeirra fer eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum. Flytjist kennari við Tækniháskóla Íslands til annars háskóla við gildistöku laga þessara er heimilt að byggja ráðningu hans á dómnefndaráliti um hæfni sem hann hefur hlotið skv. 5. mgr. 3. gr. laga um Tækniháskóla Íslands, nr. 53/2002, í sömu eða sambærilegri fræðigrein.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2005.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í tilefni af fyrirhugaðri sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Sameining þessara skóla byggist á viljayfirlýsingu menntamálaráðherra, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Verslunarráðs Íslands um stofnun einkahlutafélags sem tekur við starfsemi Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, dags. 19. október 2004.
    Gert er ráð fyrir að hinn sameinaði háskóli taki formlega til starfa í síðasta lagi í júní 2005. Háskólinn mun bjóða nám til BA-, BS- og diplóma-prófs í þeim greinum sem Tækniháskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík hafa boðið upp á. Auk þess er að því stefnt að stofnaðar verði nýjar deildir á fyrsta starfsári skólans í kennslufræði og verkfræði. Þá verður í boði við skólann sérhæft undirbúningsnám sambærilegt námi við frumgreinadeild Tækniháskóla Íslands.
    Í samræmi við framangreint gerir 1. gr. frumvarpsins ráð fyrir að núgildandi lög um Tækniháskóla Íslands verði felld úr gildi. Jafnframt tryggir ákvæðið rétt þeirra nemenda sem eru nú í námi við Tækniháskóla Íslands á þann hátt að þeir eiga rétt á að ljúka námi samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi er og á sömu forsendum. Þá er áréttað að réttur þessi sé bundinn við gildandi reglur um námsframvindu. Einungis er við það miðað að þessi réttur nái til náms við hinn nýja háskóla sem verður til við sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Af því leiðir að óheimilt er að innheimta skólagjöld af þeim nemendum vegna þess náms sem þeir hafa þegar hafið við gildistöku laga þessara.
    Í 2. gr. frumvarpsins er áréttað að störf starfsmanna Tækniháskóla Íslands verði lögð niður um leið og lögin um skólann falla úr gildi og að um réttindi þeirra fari eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum. Með því er vísað til réttar starfsmanna eftir atvikum til biðlauna og uppsagnarfrests, með þeim takmörkunum sem af því leiðir.
    Þá er einnig kveðið á um í 2. gr. að flytjist kennari við Tækniháskóla Íslands til annars háskóla við gildistöku laga þessara er heimilt að byggja ráðningu hans á dómnefndaráliti sem hann hefur hlotið skv. 5. mgr. 3. gr. laga um Tækniháskóla Íslands, nr. 53/2002, í sömu eða sambærilegri fræðigrein. Ákvæðið á við um prófessora, dósenta eða lektora. Teljist viðkomandi hæfur á grundvelli slíks dómnefndarálits til að gegna stöðu prófessors, dósents eða lektors verður ekki séð að nauðsyn sé á öðru slíku áliti, auk þess sem mikilvægt er að hægt sé á sem skemmstum tíma að ráða prófessora, dósenta eða lektora sem starfað hafa við Tækniháskóla Íslands til hins sameinaða háskóla í framhaldi að niðurlagningu starfa þeirra, verði frumvarp þetta að lögum. Sama gildir samkvæmt ákvæðinu ráði kennari sig til starfa við annan háskóla en hinn sameinaða háskóla.
    3. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. júlí 2005, en þá er við það miðað að hinn sameinaði háskóli hafi tekið formlega til starfa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um afnám laga nr. 53/2002,
um Tækniháskóla Íslands, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að lög um Tækniháskóla Íslands verði felld úr gildi 1. júlí 2005 og rekstri skólans hætt í tilefni af fyrirhugaðri sameiningu skólans og Háskólans í Reykjavík í nýjum háskóla.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkið tryggi rétt nemenda sem stunda nám í Tækniháskólanum á yfirstandandi skólaári til að ljúka námi sínu samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi var þegar þeir hófu nám við skólann. Í kostnaðarumsögn þessari er miðað við að búið verði þannig um hnútana í samningi við háskólann sem tekur við verkefnum Tækniháskólans að þetta leiði ekki til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.
    Jafnframt er í frumvarpinu gert ráð fyrir að störf starfsmanna Tækniháskóla Íslands verði lögð niður. Hluti starfsmanna skólans á rétt á sex eða tólf mánaða biðlaunum verði störf þeirra lögð niður í samræmi við bráðabirgðaákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ekki eru forsendur til að meta nákvæmlega hversu mikil útgjöld lenda á ríkinu af þessum sökum, en í kostnaðarmati þessu er slegið á 20–25 m.kr.
    Tækniháskóli Íslands hefur verið rekinn með halla frá því að hann var stofnaður um mitt ár 2002 og nam uppsafnaður halli 127 m.kr. í árslok 2003. Í kostnaðarumsögn þessari er gert ráð fyrir að hallinn verði á bilinu 110–125 m.kr. um mitt ár 2005 og að hann færist ekki yfir á nýjan skóla.
    Í samræmi við framansagt er áætlað að frumvarpið leiði til 130–150 m.kr. útgjalda fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.