Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 178. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 565  —  178. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um gleraugnakostnað barna og ungmenna.

     1.      Hve mörg börn undir 18 ára aldri þurfa á gleraugum að halda en falla ekki í flokk sjónskertra samkvæmt lögum nr. 18/1984, skipt eftir aldurshópum eins og kostur er?
    Þann 1. desember 2003 voru 126 börn skráð sjónskert hjá Sjónstöð Íslands, þ.e. með sjón minni en 30% með bestu glerjum, en samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands um mannfjölda voru þá 74.044 börn yngri en 18 ára á landinu. Talið er að um 10% allra barna (0–17 ára) þurfi að nota gleraugu að staðaldri. Þetta er ekki nákvæm tala en samkvæmt könnunum nota um 3,5% fjögurra ára barna gleraugu, um 10% grunnskólabarna og allt að 25% framhaldsskólanema. Ef reiknað er með að allt að um 10% barna þurfi á gleraugum að halda svarar það til þess að um 7.400 börn noti gleraugu.
    Þau 126 börn sem áður er getið og skráð eru sjónskert hjá Sjónstöð Íslands fá gleraugu eftir þörfum endurgjaldslaust eins og önnur sjónhjálpartæki. Einnig greiðir hið opinbera vegna gleraugnakaupa fyrir ákveðna hópa barna yngri en 16 ára og er meginreglan sú að styrkja gleraugnakaup þeirra sem ætla má að muni ekki þroska eðlilega sjón án gleraugnanotkunar. Á árinu 2003 voru 1.823 einstaklingum greiddir styrkir vegna slíkra kaupa. Þessi hópur fellur hins vegar ekki undir skilgreiningu sjónskertra samkvæmt lögum nr. 18/1984.

     2.      Er ástæða til að ætla að börn á grunnskóla- og framhaldsskólaaldri fari ekki reglulega í augnskoðun vegna mikils kostnaðar við gleraugnakaup?

    Að áliti yfirlæknis Sjónstöðvar eru ekki mikil brögð að því að börn á grunnskóla- og framhaldsskólaaldri láti undir höfuð leggjast að fara í augnskoðun vegna kostnaðar við skoðanirnar. Börn yngri en 18 ára greiða einungis þriðjungsgjald á við fullorðna fyrir skoðun, eða að jafnaði 1.300–1.500 kr. fyrir hverja skoðun þar til kostnaðarþaki er náð. Eftir það eru aðeins greiddar um 450 kr. fyrir hverja skoðun.

     3.      Hver má ætla að sé meðalkostnaður fjölskyldu vegna gleraugnakaupa barns á grunnskólaaldri og hve algengt er að fleiri en eitt barn í sömu fjölskyldu þurfi á gleraugum að halda?

    Samkvæmt upplýsingum úr gagnagrunni Sjónstöðvar Íslands var meðalverð sjónglerja árið 2003 um 17.565 kr. fyrir parið og verð umgjarða um 10.000 kr. Fullbúin gleraugu úr gleraugnaverslun kosta því um 25–30 þús. kr. Algengt er og vel þekkt að sjónlagsgallar liggja í ættum og þurfa því systkini oft að nota gleraugu.

     4.      Hefur Sjónstöð Íslands eða landlæknisembættið haldið uppi virku eftirliti og skráningu á sjón barna og ungmenna?

    Sjónstöð Íslands skráir nákvæmlega öll þau börn sem njóta styrkja til gleraugnakaupa af hálfu hins opinbera. Í skólaheilsugæslu er gleraugnanotkun barna á grunnskólaaldri skráð en gleraugnanotkun í framhaldsskólum er ekki skráð sérstaklega.
     5.      Hver yrðu útgjöld ríkissjóðs ef heimilað yrði að sérhver sjónskertur einstaklingur yngri en 18 ára, sem þyrfti á gleraugum að halda samkvæmt umsókn frá augnlækni, ætti rétt á endurgreiðslu vegna sjónglerja án tillits til orsaka sjónskerðingar einu sinni á hverju tveggja ára tímabili?
    Sé reiknað með því að um 10% barna þurfi að nota gleraugu og ef ríkissjóður greiddi til dæmis um 70% af verði glerja fyrir öll börn yngri en 18 ára má áætla að viðbótarkostnaður sem af því hlytist yrði um 38 millj. kr. á ári. Er þá miðað við að um 7.400 börn noti gleraugu, meðalverð sé 17.565 kr. eða heildarkostnaður 90.990 þús. kr. Ef styrkur væri veittur annað hvert ár yrði kostnaðurinn því um 45 millj. kr. Nú þegar er um 12,7 millj. kr. varið til endurgreiðslna á gleraugum. Gert er ráð fyrir að nokkuð aukinn kostnaður yrði við eftirlit og skrifstofuhald vegna endurgreiðslnanna og því yrði heildarniðurstaðan um 38 millj. kr. á ári.

     6.      Hver eru rökin fyrir því að réttur barna og ungmenna sem eiga við sjónvandamál að stríða er minni en annarra sem þurfa á sjúkrahjálp að halda?

    Núverandi fyrirkomulag helgast af gamalli hefð en engin sérstök rök eru fyrir því að börn með sjónvandamál séu minna styrkt en t.d. börn með heyrnarvandamál.

     7.      Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því að ríkið taki þátt í gleraugnakostnaði barna og ungmenna með líkum hætti og nú er gert t.d. varðandi heyrnarskert börn og ungmenni?

    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp sem fær það verkefni að meta þörfina á niðurgreiðslum ríkisins til barna yngri en 18 ára sem þurfa á gleraugum að halda, meta kostnað og skila tillögum til ráðherra að úrbótum ekki seinna en í maí 2005.