Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 431. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 623  —  431. mál.




Frumvarp til fjáraukalaga



fyrir árið 2005.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón A. Kristjánsson, Össur Skarphéðinsson.


    1. gr.
    Við 1. gr. fjárlaga fyrir árið 2005, sundurliðun 2, bætist nýr fjárlagaliður:
              00-290 Ýmis verkefni
             1.10 Mannréttindaskrifstofa Íslands     10 m.kr.
              Greitt úr ríkissjóði     10 m.kr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005.

Greinargerð.


    Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð þegar minnst var 50 ára afmælis lýðveldis á Íslandi og Alþingi kom af því tilefni saman til hátíðarfundar á Þingvöllum 17. júní 1994. Eins og jafnan á hátíðarfundum Alþingis samþykktu þingmenn þar einróma tiltekin lög enda er það orðin hefð að með þeim hætti sýni alþingismenn einingu landsmanna á táknrænan hátt. Nýr mannréttindakafli í stjórnarskrá lýðveldisins var meðal gjafanna sem þjóðin færði sjálfri sér á þessum tímamótum. Stofnun Mannréttindaskrifstofunnar á lýðveldisafmælinu og stjórnarskrárbreytingarnar samhliða Alþingiskosningunum 1995 marka því mikil tímamót. Mannréttindaskrifstofan fagnaði 10 ára afmæli sínu síðastliðið sumar. Ekki var annað vitað en að almenn ánægja væri með starfsemina og hafa stjórnvöld sérstaklega talið sér til tekna stuðninginn við hana, sem lið í að treysta stöðu mannréttindamála.
    Frá því að skrifstofan tók til starfa hefur það, eðli málsins samkvæmt, verið ríkur þáttur í starfsemi hennar að fylgjast með framgöngu stjórnvalda og veita umsagnir um ýmis lagafrumvörp frá sjónarhóli mannréttinda. Mikilvægi Mannréttindaskrifstofunnar og þess að hún sé sjálfstæð og með öllu óháð stjórnvöldum endurspeglast í þessu hlutverki hennar. Það getur vissulega þýtt að á köflum gusti um skrifstofuna eins og gert hefur að undanförnu, einkum í sambandi við umsagnir hennar um frumvarp forsætisráðherra um eignarhald á fjölmiðlum og frumvarp dómsmálaráðherra um útlendinga.
    Starfsemi Mannréttindaskrifstofu Íslands er svo mikilvæg og það svo brýnt að hún sé sjálfstæð og með öllu óháð stjórnvöldum að telja verður afar varhugavert að henni séu ekki tryggðir fastir eyrnamerktir fjármunir af fjárlögum eins og verið hefur. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans á Alþingi að svipta Mannréttindaskrifstofuna föstum framlögum af fjárlögum eins og ákveðið var við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár er algert stílbrot og lýsir forneskjulegum viðhorfum til mannréttindamála. Það að eiga að sækja árlega hjá ráðuneyti um fjárstuðning upp á von og óvon setur skrifstofuna augljóslega í allt aðra og veikari aðstöðu gagnvart stjórnvöldum en föst fjárveiting ákvörðuð af Alþingi. Hafa ber þá í huga að það eru einmitt þessi sömu stjórnvöld sem Mannréttindaskrifstofan hefur ekki síst eftirlit með. Hörð viðbrögð við þessu ráðslagi ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi, innan lands og utan, segja allt sem segja þarf um það hvaða svip þetta ber út á við. Áskoranir átta aðila eru birtar með frumvarpinu sem fylgiskjöl en til viðbótar þeim má nefna mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, Louise Arbour, mannréttindastofnun Åbo-háskóla, dönsku mannréttindastofnunina, norsku mannréttindastofnunina, mannréttindaskrifstofu Essex-háskóla og þýsku mannréttindastofnunina.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að þau mistök, sem urðu hvað málefni Mannréttindaskrifstofunnar varðar við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2005 fyrir skemmstu, verði leiðrétt hið fyrsta svo komist verði hjá frekari álitshnekki í málinu en orðið er. Föst fjárveiting til skrifstofunnar færist á nýjan lið undir Alþingi sjálfu í fjárlögunum til að undirstrika sjálfstæði og óhæði skrifstofunnar gagnvart framkvæmdarvaldinu. Með því er Mannréttindaskrifstofan, hvað opinberan fjárstuðning snertir, komin í skjól af Alþingi með svipuðum hætti og vistun embættis umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar á sama stað er hugsuð.



Fylgiskjal I.


Áskorun stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands.

    Stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands skorar á Alþingi að fella ekki niður framlag til skrifstofunnar sem hefur verið á fjárlögum síðustu árin. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögum á þinginu er gert ráð fyrir framlögum til mannréttindamála almennt, fjórum milljónum af lið dómsmálaráðuneytis og fjórum milljónum af lið utanríkisráðuneytis. Til þess að njóta góðs af þeim þyrfti skrifstofan að sækja sérstaklega um til dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra. Þetta fyrirkomulag veikir fjárhagslegan grundvöll skrifstofunnar þar sem ekki er hægt að sjá fyrir hver fjárframlög verða. Enn fremur er alvarlega vegið að sjálfstæði skrifstofunnar þegar ákvörðun um framlag til hennar hefur verið færð frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins. Hér getur skapast sú undarlega staða að að skrifstofan sæki um beinan styrk til þess yfirvalds sem lagt hefur fram frumvarp það eða skýrslu sem skrifstofan þarfnast fjármagns til að fjalla um. Stjórn Mannréttindaskrifstofunnar telur nauðsynlegt að framlag til hennar komi frá hæstvirtu Alþingi til að sjálfstæði hennar sé yfir allan vafa hafið.
    Stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands vill ítreka mikilvægi þess að hér á landi starfi óháð og sjálfstæð stofnun sem sinni mannréttindamálum. Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur gegnt þessu hlutverki undanfarin tíu ár. Enn fremur er skrifstofan fulltrúi Íslands í norrænu og alþjóðlegu mannréttindstarfi. Að mati stjórnarinnar væri það mikill álitshnekkir fyrir Ísland ef sú yrði raunin að skrifstofunni væri ekki lengur tryggt fast framlag á fjárlögum og yrði að draga sig út úr þeim samstarfsverkefnum sem hún á aðild að á alþjóðavettvangi.
    Stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands skorar því á hæstvirta þingmenn að beita sér fyrir því að framlag til Mannréttindaskrifstofunnar verði ekki skert frá fyrra ári.

Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands,
Guðrún D. Guðmundsdóttir,
framkvæmdastjóri.

Fylgiskjal II.


Áskorun stjórnar Íslandsdeildar Amnesty International.
(26. nóvember 2004.)


    Stjórn Íslandsdeildar Amnesty International skorar á Alþingi að tryggja áfram rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands. Mannréttindaskrifstofan var stofnuð 17. júní 1994. Íslandsdeild Amnesty International er eitt þeirra félaga sem stóð að stofnun skrifstofunnar, ásamt Barnaheillum, Rauða krossi Íslands, Unifem á Íslandi, Biskupsstofu, Jafnréttisstofu og fleiri félögum og samtökum. Hvert aðildarfélag starfar að afmörkuðu sviði mannréttinda og eða mannúðarmála og með stofnun Mannréttindaskrifstofu Íslands skapaðist vettvangur fyrir aðildarfélögin til að samhæfa mannréttindastörf á Íslandi. Mannréttindaskrifstofan hefur sjálfstæða stjórn sem í sitja fulltrúar félaganna. Á tíu ára starfstímabili Mannréttindaskrifstofunnar hefur hún margsannað gildi sitt, staðið hefur verið fyrir fjölmörgum málþingum, yfirgripsmiklar umsagnir um lagafrumvörp hafa verið lagðar fram ásamt viðbótarskýrslum til eftirlitsnefnda Sameinuðu þjóðanna, komið hefur verið á fót bókasafni með efni um mannréttindi, stuðlað hefur verið að fræðslu á sviði mannréttindamála og ýmsar bækur og rit verið gefin út á vegum Mannréttindaskrifstofunnar.
    Á öllum Norðurlöndum, í flestum Evrópuríkjum og víða annars staðar um heiminn starfa mannréttindaskrifstofur sem Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur verið í samvinnu við. Mest samvinna hefur verið við skrifstofurnar á Norðurlöndum og hefur Mannréttindaskrifstofan skipulagt ráðstefnur og fundi hér á landi með fulltrúum ýmissa erlendra mannréttindaskrifstofa. Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt aðildarríki til að tryggja að í hverju landi starfi mannréttindaskrifstofur og í skýrslu Íslands til eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna um framfylgd samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi var þess sérstaklega getið að yfirvöld hér á landi styddu starfsemi Mannréttindaskrifstofu Íslands sem eins framlags ríkisins til eflingar mannréttinda á Íslandi, og var því fagnað af hálfu eftirlitsnefndarinnar.
    Eins og fram hefur komið starfa aðildarfélög Mannréttindaskrifstofunnar að afmörkuðum sviðum mannréttinda og hafa ekki umboð til að fjalla um öll mannréttindi í starfsemi sinni. Mannréttindaskrifstofan hefur umboð til að fjalla um öll mannréttindi og sem slík er hún mjög mikilvæg, t.d. við gerð umsagna við lagafrumvörp, og veitir hún löggjafanum mikilvægt aðhald sem nauðsynlegt er í hverju lýðræðissamfélagi.
    Tillögur fjárlaganefndar Alþingis eins og þær liggja nú fyrir, þar sem gert er ráð fyrir framlögum til mannréttindamála almennt, fela í sér þá hættu að þeir fjármunir nýtist illa og dreifist á marga aðila og einstaklinga. Eins og fram hefur komið standa flest ef ekki öll þau félög sem starfa á vettvangi mannréttinda á Íslandi að Mannréttindaskrifstofunni og stjórn Íslandsdeildar Amnesty International telur að fjármagni til mannréttindamála sé vel varið með því að tryggja traustan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands og tryggja þannig sjálfstæði skrifstofunnar gagnvart framkvæmdarvaldinu, þannig að Mannréttindaskrifstofan geti áfram verið sú sjálfstæða og óháða stofnun sem sinnir þessum málaflokki á breiðum grundvelli.
    Í ljósi þessa hvetur stjórn Íslandsdeildar Amnesty International Alþingi til að tryggja fastan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands til frambúðar.

Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Íslandsdeildar Amnesty International,
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir,
framkvæmdastjóri.




Fylgiskjal III.


Áskorun Rauða kross Íslands.

    Rauði kross Íslands telur mikilvægt að Mannréttindaskrifstofa Íslands fái rekstrarfé af fjárlögum í þeim tilgangi að tryggja að á landinu starfi óháður greiningar- og eftirlitsaðili á sviði mannréttindamála.
    Að Mannréttindaskrifstofu Íslands sem stofnuð var árið 1994 standa Rauði kross Íslands, Íslandsdeild Amnesty International, Barnaheill, Biskupsstofa, Hjálparstarf kirkjunnar, Jafnréttisstofa, Unifem á Íslandi, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands, Samtökin '78 og Háskólinn á Akureyri,
    Eitt af hlutverkum skrifstofunnar er að fylgjast með og gera skýrslur til alþjóðastofnana um starfsemi stjórnvalda á sviði mannréttinda. Til þess að varðveita trúverðugleika allra aðila er mun heppilegra að Alþingi veiti fé beint til Mannréttindaskrifstofu heldur en að skrifstofan þurfi að sækja um fé til ráðuneyta sem alþjóðleg skýrslugjöf hennar fjallar óhjákvæmilega um.

Bestu kveðjur,
Sigrún Árnadóttir,
framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.



Fylgiskjal IV.


Áskorun Landssamtakanna Þroskahjálpar.
(30. nóvember 2004.)


    Landssamtökin Þroskahjálp skora á Alþingi að tryggja áfram rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands. Með tilkomu Mannréttindaskrifstofu Íslands skapaðist vettvangur fyrir félög og stofnanir sem starfa að mannréttindamálum og réttindabaráttu ýmissa hópa til að samhæfa krafta sína með velferð allra í huga. Flest ef ekki öll þau félög sem starfa á vettvangi mannréttinda á Íslandi standa nú að Mannréttindaskrifstofunni. Á tíu ára starfstímabili Mannréttindaskrifstofunnar hefur hún margsannað gildi sitt. Mannréttindaskrifstofan er mikilvægur umsagnaraðili um lagafrumvörp sem snerta mannréttindi og gegnir lykilhlutverki í samstarfi Íslands við mannréttindanefndir Sameinuðu þjóðanna.
    Mannréttindaskrifstofan hefur sjálfstæða stjórn sem í sitja fulltrúar allra félaga sem að henni standa. Eins og fram hefur komið starfa aðildarfélög Mannréttindaskrifstofunnar að afmörkuðum sviðum mannréttinda. Mannréttindaskrifstofan hefur verið þeim sameiginlegur vettvangur mannréttindaumræðu og þannig styrkt félögin í afmörkuðum baráttumálum sem og í sameiginlegri hagsmunabaráttu.
    Tillögur fjárlaganefndar Alþingis eins og þær liggja nú fyrir, þar sem gert er ráð fyrir framlögum til mannréttindamála almennt, fela í sér þá hættu að skaða þessa samstöðu og leiða til flokkadrátta. Landssamtökin Þroskahjálp telja að fjármagni til mannréttindamála sé betur varið með því að tryggja traustan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands og þar með sjálfstæði hennar, svo Mannréttindaskrifstofan megi áfram vera sú sjálfstæða og óháða stofnun sem sinnir þessum málaflokki á breiðum grundvelli.
    Landssamtökin Þroskahjálp hvetja því alla þingmenn til að kynna sér fjölbreytt starf Mannréttindaskrifstofunnar og aðildarfélaga hennar og tryggja fastan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands til frambúðar.

Virðingarfyllst,
f.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar,
Halldór Gunnarsson, formaður,
Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri.



Fylgiskjal V.

Áskorun Biskupsstofu Íslands.
(30. nóvember 2004.)


    Biskupsstofa hvetur fjárlaganefnd Alþingis til að veita Mannréttindaskrifstofu Íslands rekstrarfé af fjárlögum. Sjálfstæður rekstur Mannréttindaskrifstofu Íslands tryggir að í landinu starfi óháður greiningar- og eftirlitsaðili á sviði mannréttindamála.
    Biskupsstofa var meðal stofnaðila að Mannréttindaskrifstofu Íslands sem stofnuð var árið 1994. Aðrir sem að henni standa eru Íslandsdeild Amnesty International, Barnaheill, Hjálparstarf kirkjunnar, Jafnréttisstofa, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Rauði kross Íslands, Samtökin '78, Unifem á Íslandi, Öryrkjabandalag Íslands og Háskólinn á Akureyri.
    Eitt af hlutverkum skrifstofunnar er að fylgjast með og gera skýrslur til alþjóðastofnana um starfsemi stjórnvalda á sviði mannréttinda. Til þess að varðveita trúverðugleika allra aðila teljum við heppilegra að Alþingi veiti fé beint til Mannréttindaskrifstofu heldur en að skrifstofan þurfi að sækja um fé til ráðuneyta sem alþjóðleg skýrslugjöf hennar fjallar óhjákvæmilega um. Þá er afar mikilvægt að rekstur skrifstofunnar sé tryggður til að starfsemin sé stöðug og skrifstofan fái notið krafta öflugs fagfólks.

Fyrir hönd Biskupsstofu,
Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir.



Fylgiskjal VI.


Áskorun UNIFEM.

    Öflug starfsemi sjálfstæðrar mannréttindaskrifstofu er nauðsynleg hverju lýðræðissamfélagi, ekki síst á umbreytingatímum. Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð fyrir áratug en þá var hún yngsta stofnun sinnar tegundar á Norðurlöndunum en náið samstarf á sviði rannsókna og útgáfu er þeirra á milli. Skrifstofan hefur margsannað gildi sitt en hún gegnir m.a. mikilvægu hlutverki sem upplýsinga- og fræðslumiðstöð fyrir almenning og nemendur á framhalds- og háskólastigi. Hún hefur staðið að málþingum, námskeiðum og kennslu um mannréttindi auk þess að sinna eftirlitshlutverki sínu með ítarlegum umsögnum um lagafrumvörp og skýrslugerð um stöðu mannréttindamála hér á landi. Þá er skrifstofan samráðsvettvangur frjálsra félagasamtaka sem er mikilvægur hluti hins borgaralega samfélags.
    Traust mannréttindavitund almennings og stjórnvalda leiðir til réttlátara samfélags og aukinnar virðingar Íslands í alþjóðasamskiptum.
    Stjórn UNIFEM hvetur því stjórnvöld til að treysta starf Mannréttindaskrifstofunnar.

F.h. stjórnar UNIFEM á Íslandi,
Rósa Erlingsdóttir, stjórnarformaður.




Fylgiskjal VII.


Áskorun prests innflytjenda.
(29. nóvember 2004.)


    Sem prestur innflytjenda met ég mikils starfsemi Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ). Starfsemi hennar varðar oft réttindamál okkar útlendinga eða fólks af erlendum uppruna og við erum þakklát fyrir það góða starf sem MRSÍ hefur unnið til þess að vernda réttindi okkar og bæta.
    Starfsemi MRSÍ nær þó ekki aðeins til almennra mannréttindamála hér innan lands heldur starfar skrifstofan einnig með öðrum mannréttindasamtökum á alþjóðlegum vettvangi.
    Starfsemi MRSÍ er ómetanleg og staðfestir í raun virðingu íslensku þjóðarinnar fyrir lýðræði og mannréttindum.
    Ef MRSÍ mun ekki njóta áfram fjárveitinga frá stjórnvöldum eins og undanfarin ár er ljóst að starf skrifstofunnar er ekki tryggt eins og verið hefur. Það harma ég og tel að það sé ekki aðeins MRSÍ sem beri tjón af heldur líka alllir þegnar þjóðarinnar.
    Þess vegna óska ég að þið, hæstvirtu þingmenn, beitið ykkur fyrir því að framlag stjórnvalda til MRSÍ verði ekki skert frá fyrra ári.

Virðingarfyllst,
Toshiki Toma, prestur innflytjenda.




Fylgiskjal VIII.


Morgunblaðið:

Wallenbergstofnunin sendir Alþingi áskorun.

(30. nóvember 2004.)



    RAOUL Wallenberg-stofnunin, mannréttindaskrifstofa við háskólann í Lundi í Svíþjóð undir forystu Guðmundar Alfreðssonar prófessors, beinir því til Alþingis að hugleiða að setja lög til að koma á fót sjálfstæðri stofnun til að berjast fyrir og varðveita mannréttindi jafnt á Íslandi og erlendis. Einnig að skapa heilbrigðan fjárhagsgrundvöll óháðra samtaka (NGO), án þess að fjárframlögum fylgi skuldbindingar eða stýring, svo tryggja megi virðingu fyrir og stuðla að mannréttindum á Íslandi og erlendis.
    Jafnframt lýsir stofnunin áhyggjum sínum yfir því að Alþingi ræði niðurskurð sem muni hafa alvarleg áhrif á systurstofnunina Mannréttindaskrifstofu Íslands. Þurfi skrifstofan að sækja sérstaklega um fjárveitingu til ráðuneyta dómsmála eða utanríkismála muni það draga úr sjálfstæði skrifstofunnar, ekki síst hvað varðar álitsgjöf til Alþingis um lagafrumvörp.

Ýtir undir efasemdir.
    Talsmenn stofnunarinnar segjast óttast að þessar kringumstæður muni ýta undir efasemdir um vilja íslenskra stjórnvalda til að leyfa hlutlæga og óháða greiningu á því hvernig þau standa sig í mannréttindamálum.