Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 325. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 634  —  325. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur um greiðslur fyrir táknmálsnámskeið.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Er réttilega tiltekið í gjaldskrá Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra frá 22. október 2004 að aðrir aðstandendur en forráðamenn heyrnarlauss eða heyrnarskerts barns, þ.m.t. systkini þess, þurfi að greiða fullt verð fyrir táknmálsnámskeið á vegum stöðvarinnar?

    Í 1. gr. tilvitnaðrar gjaldskrár, sem er nr. 882/2004, kemur fram að forráðamenn heyrnarlausra barna skuli ekki greiða námskeiðsgjöld vegna táknmálsnámskeiða hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Ákvæði þetta er samhljóða 1. gr. eldri gjaldskráa, þ.e. gjaldskrá nr. 944/2002 frá 18. desember 2002 og gjaldskrá nr. 302/1998 frá 6. maí 1998.
    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað frá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hefur framangreint gjaldskrárákvæði verið túlkað þannig að foreldrar og forráðamenn heyrnarlausra barna fái að sækja táknmálsnámskeið án endurgjalds. Ef sá réttur er ekki nýttur er heyrnarlausum einstaklingum heimilt að nýta réttinn á annan hátt, t.d. með því að bjóða vinum eða ættingjum að sækja námskeið. Hver heyrnarlaus einstaklingur getur þannig boðið tveimur einstaklingum að sækja námskeið sem eru alls 11 talsins eða 220 kennslustundir.
    Foreldrar og nánustu aðstandendur fá táknmálsnámskeið án endurgjalds greinist barnið heyrnarlaust eða heyrnarskert á máltökuskeiði. Í þeim tilvikum er skipulagt táknmálsnámskeið fyrir hverja fjölskyldu. Fyrstu námskeiðin, þ.e. fyrstu 60 tímarnir, fara fram heima hjá fjölskyldunni en eftir það kemur fjölskyldan á Samskiptamiðstöð.
    Réttur foreldra og systkina til að læra táknmál er hvergi skilgreindur og því hefur þessi kennsla oftast farið fram á kvöldin og um helgar þar sem foreldrar fá vinnutap ekki bætt.
    Á allra síðustu missirum hefur orðið gríðarleg fjölgun á foreldra- og fjölskyldunámskeiðum, fyrst og fremst vegna breyttra viðhorfa til táknmálsins og nánara samstarfs stofnana á þessu sviði. Af þessum sökum hyggst Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra endurskoða fyrirkomulag námskeiðanna að norskri fyrirmynd og hafa um tilhögun þeirra samstarf við Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra og Félag heyrnarlausra.