Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 155. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 661  —  155. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um lífeyrissjóði.

     1.      Hve háar fjárhæðir voru greiddar annars vegar úr fimm stærstu almennu lífeyrissjóðunum og hins vegar opinberu lífeyrissjóðunum á árinu 2003 og við hvaða vísitölutengingu eru greiðslurnar miðaðar? Óskað er sundurliðunar á a) lífeyrisgreiðslum og b) örorkulífeyri.
    Við samantekt upplýsinganna var gengið út frá því að opinberir sjóðir væru þeir sjóðir sem njóta ábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga á skuldbindingum. Slíkir sjóðir eru 13 talsins. Svar þetta er takmarkað við upplýsingar um fimm stærstu opinberu sjóðina en hrein eign þeirra nemur um 97% af hreinni eign sjóðanna 13 til samans. Með „lífeyrisgreiðslum“ er hér átt við greiðslur hinna ýmsu tegunda lífeyris til samans, þ.e. ellilífeyris, örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris.
    Lífeyrisgreiðslur fimm stærstu almennu lífeyrissjóðanna voru 8,4 milljarðar kr. á árinu 2003 en örorkulífeyrisgreiðslur 2,4 milljaðar kr. Lífeyrisgreiðslur fimm stærstu opinberu lífeyrissjóðanna voru 12,5 milljarðar kr. og örorkulífeyrisgreiðslur 688,4 mllj. kr. Í töflum 1 og 2 hér á eftir er að finna sundurliðanir á þessum fjárhæðum eftir sjóðum og deildum innan sjóðanna sem fengnar eru úr ársreikningum þeirra.
    Lífeyrisgreiðslur úr samtryggingadeildum almennu lífeyrissjóðanna eru verðtryggðar með vísitölu neysluverðs, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Lífeyrisgreiðslur úr samtryggingadeildum opinberu sjóðanna fylgja ýmist launavísitölu dagvinnulauna opinberra starfsmanna sem Hagstofa Íslands reiknar eða taka breytingum í samræmi við breytingu á launum fyrir það starf sem sjóðfélagi gegndi síðast. Lífeyrisgreiðslur úr A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fylgja þó neysluverðsvísitölu, sem og lífeyrir úr A-deild og V-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga.

     2.      Hverjar væru fjárhæðirnar skv. 1. lið ef greiðslurnar hefðu tekið mið af launavísitölu annars vegar og meðallaunabreytingum á árinu 2003 hins vegar?

    Hvorki fjármálaráðuneytið né Fjármálaeftirlitið býr yfir nauðsynlegum gögnum til að veita umbeðnar upplýsingar.

     3.      Hve mikið af fjármagni lífeyrissjóðanna, annars vegar opinberu lífeyrissjóðanna og hins vegar fimm stærstu almennu lífeyrissjóðanna, er bundið í erlendum hlutabréfum eða skuldabréfum og hve mikið í innlendum?
    Upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið býr yfir um einstakar tegundir fjárfestinga lífeyrissjóða eru upplýsingar úr ársreikningum sjóðanna sem þeim ber að senda eftirlitinu árlega auk upplýsinga samkvæmt sérstökum skýrslum sem sjóðirnir senda eftirlitinu ársfjórðungslega. Upplýsingar þær sem óskað er eftir hér að framan eru ekki birtar sérstaklega í þessum gögnum. Í ársfjórðungslegum skýrslum til eftirlitsins er þó að finna upplýsingar um gengisbundnar eignir sjóðanna eftir tegundum fjárfestinga eins og þær eru skilgreindar í 36. gr. laga nr. 129/ 1997 þar sem kveðið er á um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Fjármálaeftirlitið hefur tekið saman upplýsingar samkvæmt skýrslunum um gengisbundnar eignir fimm stærstu almennu og opinberu sjóðanna í töflu 3.
    Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands nam erlend verðbréfaeign lífeyrissjóðanna í lok september 2004 um 200 milljörðum kr. Innlend verðbréfaeign nam á sama tíma 731 milljarði króna.

     4.      Hvað má ætla að vöxtur lífeyrissjóðanna verði mikill á næstu tíu árum?

    Fjármálaráðuneytið hefur ekki nægjanlegar forsendur til að leggja mat á framangreint.

Tafla 1. Lífeyris1- og örorkulífeyrisgreiðslur fimm stærstu
almennu lífeyrissjóðanna2, þús. kr.

Lífeyrissjóðir í stærðarröð Lífeyrisgreiðslur 20031 Örorkulífeyrisgreiðslur 2003
Lífeyrissjóður verslunarmanna
Samtrygging 2.336.120 611.238
Séreign 16.804 0
Samtals 2.352.924 611.238
Lífeyrissjóðurinn Framsýn
Samtrygging 2.123.749 601.699
Séreign 3.761 0
Samtals 2.127.510 601.699
Lífeyrisjóður sjómanna
Samtrygging 1.280.993 551.409
Séreign 629 0
Samtals 1.281.622 551.409
Sameinaði lífeyrissjóðurinn
Samtrygging 1.586.126 293.600
Séreign 8.742 0
Samtals 1.594.868 293.600
Lífeyrissjóður Norðurlands
Samtrygging 1.054.386 345.782
Séreign 6.266 519
Samtals 1.060.652 346.301
Allir sjóðir samtals 8.417.576 2.404.247
1 Ellilífeyrir, örorkulífeyrir, makalífeyrir og barnalífeyrir.
2 Lífeyrissjóðir sem ekki njóta ábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga.



Tafla 2. Lífeyris- og örorkulífeyrisgreiðslur fimm stærstu lífeyrissjóðanna
með ábyrgð ríkis eða sveitarfélags, þús. kr.

Lífeyrissjóðir í stærðarröð Lífeyrisgreiðslur 2003 Örorkulífeyrisgreiðslur 2003
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins
B-deild 10.021.038 416
A-deild 113.915 89.177
Alþingismannadeild 231.807 864
Ráðherradeild 36.882 0
Samtryggingadeildir samtals 10.403.642 90.457
Séreignadeild 17.771 34
Samtals 10.421.413 90.491
Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga
Samtryggingadeild 644.365 59.285
Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar
Samtryggingadeild 1.271.363 82.684
Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga
A-deild 31.663 18.808
V-deild 1.655 755
Samtryggingadeildir samtals 33.318 19.563
Séreignadeild 4.966 0
Samtals 38.284 19.563
Lífeyrissjóður starfsmanna Kópavogsbæjar
Samtryggingadeild 88.999 19.847
Allir sjóðir samtals 12.464.424 271.870



Tafla 3. Gengisbundin verðbréf fimm stærstu opinberu
og almennu lífeyrissjóðanna, millj. kr.

Hlutfall af hreinni eign sjóðanna2

Almennir sjóðir
Skuldabréf1 1.696 0,5%
Hlutabréf 22.124 6,7%
Hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða 43.645 13,3%
Önnur verðbréf 401 0,1%
Samtals gengisbundin verðbréf 67.866 20,6%
Opinberir sjóðir
Skuldaréf1 319 0,2%
Hlutabréf 9.682 5,4%
Hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða 19.783 11,1%
Önnur verðbréf 0 0,0%
Samtals gengisbundin verðbréf 29.784 16,7%
Fimm stærstu almennu sjóðirnir 328.734
Fimm stærstu opinberu sjóðirnir 178.471
1    Ríkisvíxlar og -skuldabréf, skuldabréf sveitarfélaga, skuldabréf og víxlar lánastofnana og fasteignaveðtryggð skuldabréf.
2     Hrein eign í árslok 2003 (m.kr.)