Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 406. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 687  —  406. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Valdimars L. Friðrikssonar um veiðar á rjúpu, gæs og öndum.

     1.      Hyggst ráðherra aflétta banni við veiðum á rjúpu?
    Hinn 5. október sl. ákvað umhverfisráðherra að leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, sem hafi það að markmiði að styrkja stjórnun rjúpnaveiða, þannig að hægt verði að hefja rjúpnaveiðar haustið 2005. Mikilvægt er að tryggja að rjúpnaveiðar verði sjálfbærar þegar þær hefjast á ný og að ekki þurfi að grípa til tímabundinnar friðunar. Í þessu skyni fól umhverfisráðherra nefnd, sem skipuð var í september 2003 til að gera tillögur um aðgerðir til að styrkja rjúpnastofninn í framtíðinni að loknu banni við rjúpnaveiðum, að semja frumvarp til laga um breytingu á lögunum með áðurnefnd markmið að leiðarljósi.
    Nefndin skilaði tillögum til ráðherra hinn 12. nóvember þar sem lagt er til m.a. að umhverfisráðherra verði veitt heimild, þegar friðun einstakra fuglategunda er aflétt, til að takmarka veiðar við ákveðna daga og ákveðinn tíma sólarhringsins. Enn fremur að ráðherra sé heimilt að banna sölu á afurðum þeirra fugla sem undir lögin falla, þ.e. veiðibráð og afurðum þeirra. Tillögur nefndarinnar að breyttum lögum eru til umfjöllunar í ráðuneytinu. Gert er ráð fyrir því, nái frumvarpið fram að ganga og ekkert óvænt kemur fram um ástand rjúpnastofnsins á næsta ári, að rjúpnaveiðar hefjist samkvæmt breyttum lögum haustið 2005 þannig að gildandi bann við rjúpnaveiðum standi í tvö ár en ekki þrjú.

     2.      Hyggst ráðherra banna veiðar á gæsum eða öndum?

    Engin áform eru um að heimila ekki veiðar á gæsum og öndum samkvæmt áðurnefndum lögum eða takmarka, enda ekkert komið fram sem bendir til þess að þeim fuglastofnum sé ógnað með veiðum.