Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 468. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 720  —  468. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að efla fjárhag Byggðastofnunar.

Flm.: Herdís Á. Sæmundardóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að veita einn milljarð króna til þess að treysta fjárhag Byggðastofnunar og gera henni kleift að takast á við verkefni sín af fullum styrk. Fé þessu verði varið til að styrkja eiginfjárstöðu stofnunarinnar, fylgja eftir átaksverkefnum sem stofnunin er þegar þátttakandi í og til þátttöku í nýjum slíkum verkefnum, auk hlutafjárþátttöku í félögum sem eru til þess fallin að efla nýsköpun og atvinnuþróun á landsbyggðinni.

Greinargerð.


    Með aukinni samkeppni á fjármagnsmarkaði undanfarna mánuði er nú svo komið að langtímavextir viðskiptabanka og sparisjóða hafa lækkað mjög verulega. Hefur þetta haft í för með sér að hinum fjárhagslega traustari úr hópi viðskiptavina stofnunarinnar bjóðast nú lægri vextir hjá viðskiptabönkunum. Þetta veldur því að tekjur stofnunarinnar dragast verulega saman. Í lögum um Byggðastofnun er kveðið á um að fjárhagslegt markmið lánastarfsemi stofnunarinnar skuli vera að varðveita eigið fé hennar að raungildi. Öll útlán eru flokkuð með tilliti til áhættu og er lagt í afskriftasjóð jafnharðan og ákvarðanir eru teknar. Auk þess sem tekjur Byggðastofnunar munu að óbreyttu dragast saman næstu mánuði og missiri hefur stofnunin undanfarin ár þurft að glíma við mikinn taprekstur sem einkum orsakast af miklu útlánatapi og minnkandi framlögum úr ríkissjóði til að styrkja eigið fé hennar. Hefur þetta haft þær afleiðingar að eigið fé stofnunarinnar hefur minnkað verulega og nam eiginfjárhlutfall hennar 10,85% í árslok 2003, hafði þá lækkað úr 16,45% í árslok 2001. Þetta dregur mjög úr getu stofnunarinnar til hlutafjárþátttöku í fyrirtækjum og til að veita óafturkræfa styrki, og að óbreyttu er ekki gert ráð fyrir að stofnunin veiti styrki eða kaupi hlutafé á árinu 2005. Byggðastofnun hefur síðustu ár ekki notið sérstakra framlaga úr ríkissjóði til að styrkja efnahag sinn.
    Í upphafi árs 2003 ákvað ríkisstjórnin að fela Byggðastofnun að ráðstafa 500 millj. kr. af sérstakri 700 millj. kr. fjárveitingu til atvinnuþróunarverkefna á landsbyggðinni. Í fyrsta lagi var stofnuninni heimilað að leggja fram hlutafé í álitleg sprotafyrirtæki og fyrirtæki í skýrum vexti. Til þessa hluta voru veittar 350 millj. kr. Í öðru lagi var svo Byggðastofnun falið að hafa frumkvæði um rekstur vel mótaðra stuðningsverkefna sem væru til þess fallin að efla nýsköpun og atvinnuþróun á landsbyggðinni. Til þessa hluta voru veittar 150 millj. kr. Stofnuninni bárust umsóknir fyrir margfalda þá fjárhæð sem til ráðstöfunar var. Standist allar áætlanir og verkefnin sem ákveðið var að fjárfesta í verða að veruleika munu mjög mörg ný störf verða til á landsbyggðinni í ýmsum greinum atvinnulífsins. Sá mikli fjöldi umsókna sem stofnuninni bárust er jafnframt til merkis um mikla þörf fyrir áhættufjármagn til nýsköpunar í atvinnulífinu. Ljóst er að ný störf verða ekki til í hefðbundnum framleiðslugreinum heldur með nýsköpun sem krefst þolinmóðs fjármagns. Átak sem þetta þyrfti því raunverulega að vera árlegt.