Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 422. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 739  —  422. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig hefur heildareign Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta þróast sl. fimm ár, annars vegar innstæðudeildar og hins vegar verðbréfadeildar? Hve oft hefur komið til greiðslu úr sjóðnum, hve háar greiðslur voru inntar af hendi og í hvaða tilvikum?
     2.      Hve mikið hafa bankar og sparisjóðir greitt inn til sjóðsins sl. fimm ár og er þar um tilskilin framlög samkvæmt lögum að ræða?
     3.      Hefur Fjármálaeftirlitið gert athugasemdir við stöðu sjóðsins með tilliti til tryggingaverndar eða áhættustýringar eða annarra þátta sem lúta að fjárhagslegri stöðu sjóðsins út frá öryggi innstæðueigenda og hafa komið fram tillögur frá eftirlitinu til að styrkja fjárhagsstöðu sjóðsins eða eftirlit með honum?


    Um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta gilda lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Þá hefur verið sett reglugerð nr. 120/2000, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta var stofnaður 28. desember 1999. Samþykktir sjóðsins eru frá sama tíma. Samkvæmt lögum og reglugerð um sjóðinn og samþykktum hans er sjóðurinn sjálfseignarstofnun og starfar í tveimur sjálfstæðum deildum með aðskilinn fjárhag og reikningshald, innstæðudeild og verðbréfadeild.

    1. Við stofnun Tryggingarsjóðs 28. desember 1999 yfirtók sjóðurinn eignir og skuldbindingar Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og Innstæðudeildar Tryggingarsjóðs sparisjóða. Á árinu 2000 hófst innheimta árgjalda. Eftirfarandi tafla sýnir hvernig heildareign Tryggingarsjóðs hefur þróast til ársloka 2003. Allar fjárhæðir í töflunni eru í þús. kr.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Frá stofnun Tryggingarsjóðs hafa engar kröfur verið gerðar á innstæðudeild. Eitt aðildarfélaga verðbréfadeildar varð gjaldþrota seint árið 2001. Í ársreikningi vegna ársins 2003 eru gjaldfærðar 31 millj. kr. vegna málsins en til þessa hefur ekkert verið greitt vegna þess. Ekki liggur fyrir ársuppgjör Tryggingarsjóðs vegna ársins 2004 en ætla má að heildareign sjóðsins (hrein eign) í árslok 2004 hafi verið um 4,6 ma. kr. Skipting milli deilda liggur ekki fyrir.

    2. Í eftirfarandi töflu er yfirlit um greiðslur til Tryggingarsjóðs. Ekki liggur fyrir hversu greiðslur til sjóðsins verða háar á þessu ári vegna síðasta árs. Allar fjárhæðir í töflunni eru í þús. kr.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Eins og fram kemur í töflunni hafa aðildarfyrirtæki Tryggingarsjóðs greitt til sjóðsins samtals 925.736 þús. kr. sem skiptast þannig að vegna verðbréfadeildar hafa verið greiddar 99.950 þús. kr. og vegna innstæðudeildar 825.786 þús. kr. Í báðum tilvikum er um lögbundin framlög að ræða.

    3. Samkvæmt 15. gr. laga nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með að starfsemi Tryggingarsjóðs sé í samræmi við lög, reglugerð og samþykktir fyrir sjóðinn. Um eftirlitið gilda að öðru leyti lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Tryggingarsjóður hefur auk þess leitast við að upplýsa Fjármálaeftirlitið með reglubundnum hætti um störf stjórnar sjóðsins, sem og starfsemi og fjárhagsstöðu hans.
    Fjármálaeftirlitið hefur ekki gert athugasemdir gagnvart Tryggingarsjóði við stöðu sjóðsins með tilliti til tryggingaverndar eða áhættustýringar eða annarra þátta sem lúta að fjárhagslegri stöðu sjóðsins út frá öryggi innstæðueigenda.
    Fjármálaeftirlitið hefur heldur ekki sett fram tillögur gagnvart Tryggingarsjóði til að styrkja fjárhagsstöðu sjóðsins eða eftirlit með honum. Rétt er þó að geta þess að á síðasta ársfundi Fjármálaeftirlitisns 3. nóvember 2004 ræddi forstjóri eftirlitsins um að huga þyrfti að styrkingu tryggingaverndar innstæðueigenda og fjárfesta. Í ræðu forstjórans kom eftirfarandi fram um þetta atriði: ,,Í fyrsta lagi mætti huga að því hvort þörf sé á að styrkja þá tryggingavernd sem komið hefur verið á með lögum nr. 98/1999, um innstæðustæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Samkvæmt þeim skal heildareign innstæðudeildar tryggingasjóðsins [sic] að lágmarki nema 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári. Heildareign verðbréfadeildar sjóðsins sem stendur til tryggingar fjármunum í fjárvörslu skal að lágmarki nema 100 m.kr. Tímabært er að huga að því hvort styrkja þurfi þetta tryggingakerfi með hliðsjón af auknu mikilvægi fjármálafyrirtækja og þeim breytingum sem orðið hafa á eignarhaldi þessara fyrirtækja frá því þetta kerfi var síðast endurskoðað. Þannig má velta því upp hvort fjármálafyrirtæki sem eru aðilar að sjóðnum, og þar með virkir eigendur óbeint, eigi að leggja meira til sjóðsins. Nefna má að á vegum Evrópusambandsins er nú verið að huga að tryggingakerfi (guarantee schemes) fyrir vátryggjendur.“