Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 417. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 752  —  417. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um erfðabreytt matvæli.

     1.      Hvað líður setningu reglna um nýfæði og merkingu erfðabreyttra matvæla hér á landi? Hvers er að vænta í þessu sambandi í ljósi nýjustu reglna Evrópusambandsins?
    Reglugerð um nýfæði er í vinnslu í umhverfisráðuneytinu.
    Reglugerð Evrópusambandsins (EB) nr. 1829/2003 um erfðabreytt matvæli og fóður og reglugerð (EB) nr. 1830/2003 um rekjanleika og merkingu erfðabreyttra lífvera og rekjanleika matvæla og fóðurs sem er framleitt úr erfðabreyttum lífverum tóku gildi hjá Evrópusambandinu 18. apríl 2004. Unnið er að upptöku hlutaðeigandi gerða í EES-samninginn og þegar það hefur verið gert verða þær teknar upp í íslenskan rétt. Nýjar reglur verða settar hérlendis til samræmis við reglur EB. Málið er í vinnslu en útilokað er á þessu stigi að nefna dagsetningar um gildistöku.
    Reglur EB ná yfir matvæli og fóður og eru vistaðar í fleiri en einu ráðuneyti hérlendis. Hlutaðeigandi ráðuneyti vinna saman að innleiðingu nýrra reglna. Ítarleg kynning mun fara fram á ákvæðum reglnanna áður en þær koma til framkvæmda. Þá er gert ráð fyrir töluverðri vinnu við að fylgjast með framkvæmdinni. Þannig þarf að framkvæma eftirlit með því hvort matvæli, einkum frá löndum utan EB, innihaldi erfðabreytt innihaldsefni og fullnægi skilyrðum um leyfi og merkingar.

     2.      Hvernig stendur fræðsla til almennings um erfðabreytt matvæli, t.d. gerð bæklings sem ætlunin var að dreifa, sbr. svar við fyrirspurn á 128. löggjafarþingi (300. mál)?
    Fræðsla um erfðabreytt matvæli hefur farið fram með fyrirlestrum, á heimasíðu Umhverfisstofnunar og greinaskrifum í blöð. Gert er ráð fyrir að bæklingur um erfðabreytt matvæli verði gefinn út þegar reglugerðirnar verða gefnar út hér á landi.

     3.      Hvernig hyggjast íslensk stjórnvöld merkja framleiðsluvörur frá Bandaríkjunum sem innihalda erfðabreyttar afurðir?
    Samkvæmt reglum Evrópusambandsins (EB) þarf sérstakt leyfi til að setja erfðabreytt matvæli á markað.
    Eftir gildistöku EB-reglna um erfðabreytt matvæli á Íslandi mega matvæli frá Bandaríkjunum, sem svo háttar til um, því aðeins vera á markaði á Íslandi að þau hafi leyfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Innflytjendur matvæla frá Bandaríkjunum verða þá að geta sýnt fram á að matvælin séu ekki erfðabreytt, en að öðrum kosti að þau hafi leyfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Séu matvæli erfðabreytt og fullnægi reglum verða framleiðendur að sjá til þess að þau séu merkt hvort sem varan kemur frá Bandaríkjunum eða framleiðendum á Evrópska efnahagssvæðinu.