Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 379. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 754  —  379. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um utanlandsferðir lækna á kostnað lyfjafyrirtækja.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir læknar fara árlega í utanlandsferðir á kostnað lyfjafyrirtækja?
     2.      Hversu margir fara í slíkar ferðir á ári hverju:
                  a.      læknar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi,
                  b.      læknar á öðrum sjúkrahúsum,
                  c.      læknar á heilsugæslustöðvum,
                  d.      sérfræðilæknar sem starfa annars staðar?
     3.      Hversu oft að meðaltali fer hver læknir í slíka ferð á ári?


    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið sendi fyrirspurn til heilbrigðisstofnana, þ.e. sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og heilbrigðisstofnana, þar sem óskað var eftir svörum við fyrirspurn þingmannsins.
    Flestar stofnanir höfðu ekki áreiðanlegar upplýsingar um ferðir lækna, sem farnar voru án greiðsluþátttöku stofnunarinnar, þannig að ekki náðist heildstætt yfirlit yfir umfang utanlandsferða lækna af svörum stofnana.
    Jafnframt var send beiðni til Lyfjastofnunar um að hún aflaði sér upplýsinga frá lyfjafyrirtækjum um utanlandsferðir lækna. Borist hefur niðurstaða úr könnun Lyfjastofnunar. Stofnuninni tókst að safna upplýsingum frá flestum lyfjaframleiðslu- og umboðsfyrirtækjum fyrir árið 2004. Eitt fyrirtæki, Austurbakki hf., svaraði ekki fyrirspurn Lyfjastofnunar um utanlandsferðir.
    Niðurstaða könnunar Lyfjastofnunar var eftirfarandi:

1. Heildarfjöldi ferða lækna 2004 469
2. Hversu margir fara í slíkar ferðir á ári hverju?
a. Læknar frá LSH 289
b. Læknar á öðrum sjúkrahúsum 51
c. Læknar á heilsugæslustöðvum 85
d. Sérfræðilæknar á öðrum stöðum 44
3. Ekki fengust upplýsingar um fjölda lækna, aðeins fjölda ferða.

    Framangreindar tölur eru lágmarkstölur þar sem eitt fyrirtæki svaraði ekki fyrirspurninni og eins var árið ekki liðið þegar fyrirspurnin var send út.