Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 504. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 768  —  504. mál.




Frumvarp til laga



um sölu kristfjárjarðarinnar Utanverðuness í Sveitarfélaginu Skagafirði.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Stjórn Utanverðunesslegats í Sveitarfélaginu Skagafirði er heimilt að selja ábúanda kristfjárjarðarinnar Utanverðuness í Sveitarfélaginu Skagafirði jörðina Utanverðunes.
    Verð jarðarinnar, mannvirkja og ræktunar á henni fer eftir því sem um semst en ella skal það ákveðið af dómkvöddum matsmönnum.
    Andvirði jarðarinnar skal renna til Utanverðunesslegats. Ráðstöfun eigna legatsins, verði það leyst upp, skal háð samþykki félagsmálaráðuneytisins og vera samræmanleg hinum forna tilgangi kristfjárjarða.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í félagsmálaráðuneytinu og er það lagt fram samkvæmt erindi sýslumannsins á Sauðárkróki sem situr í stjórn Utanverðunesslegats ásamt prófastinum í Skagafjarðarprófastsdæmi.
    Kristfjárjarðir voru hluti af fátækraframfærslu sveitarfélaga fyrr á öldum. Jarðirnar voru gefnar í því skyni að fátæklingar í viðkomandi hreppi mættu njóta afgjalds eftir þær um aldur og ævi. Upphaflega voru þessar jarðir í umsjá kirkjunnar, en frá 19. öld hafa kirkjuleg yfirvöld almennt haft lítil afskipti af þeim. Hefur umsýsla kristfjárjarða frá þeim tíma almennt verið í höndum viðkomandi sveitarstjórna og hefur afgjald þeirra a.m.k. stundum runnið í sveitarsjóð.
    Jörðin Utanverðunes í Skagafirði var gefin Rípurhreppi með gjafabréfi, dags. 31. janúar 1838. Gefandinn var Hólmfríður Benediktsdóttir sem lést á 14. aldursári. Faðir hennar, Benedikt Vigfússon, prófastur á Hólum, undirritaði gjafabréfið. Gjöfinni skyldi varið í þágu munaðarlausra barna í hreppnum. Stofnaður var sjóðurinn Utanverðunesslegat um gjöfina og er jörðin eign sjóðsins. Afgjald vegna jarðarinnar hefur runnið til sjóðsins.
    Afla verður sérstakrar lagaheimildar til sölu kristfjárjarða þar sem þær eru yfirleitt eigin eign, sem líkja má við sjálfseignarstofnun, eða eign sjóðs eins og er í þessu tilfelli. Hefur Alþingi ávallt sett það skilyrði að söluandvirði verði varið í samræmi við fornan tilgang kristfjárjarðarinnar.
    Hvað varðar ráðstöfun jarðarinnar Utanverðuness er lagt til í frumvarpinu að heimild verði einungis veitt til að selja ábúanda jörðina. Ábúandi á allar byggingar og ræktað land og stundar þar sauðfjárbúskap.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um sölu kristfjárjarðarinnar
Utanverðuness í Sveitarfélaginu Skagafirði.

    Með frumvarpi þessu er óskað eftir að stjórn Utanverðunesslegats í Sveitarfélaginu Skagafirði fái heimild til að selja kristfjárjörðina Utanverðunes ábúanda. Kristfjárjarðir eru sjálfseignarstofnanir eða ígildi þeirra og um langt skeið hefur umsýsla þeirra almennt verið í höndum viðkomandi sveitarstjórna. Alþingi hefur ávallt sett það skilyrði fyrir sölu kristfjárjarða að söluandvirði þeirra verði varið í samræmi við upphaflegan tilgang kristfjárgjafa. Í þessu tilviki þykir það standa næst hugsun kristfjárgjafans að andvirði jarðarinnar verði varið í þágu barna frá efnalitlum heimilum í sveitarfélaginu. Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.