Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 446. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 834  —  446. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar um viðskipti við ráðningarstofur.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða ráðuneyti og ríkisstofnanir skiptu við ráðningarstofur og vinnumiðlara árin 2002 og 2003?
     2.      Hvað var ráðið í mörg störf með þeim hætti?
     3.      Hversu mikið var ráðningarstofunum greitt fyrir störf sín á þessum árum?
     4.      Hvaða ríkisstofnanir og ráðuneyti höfðu á þessum árum samninga við einstakar ráðningarstofur og þá hvaða ráðningarstofur?
     5.      Hafa slíkar ráðningar verið boðnar út á vegum ráðuneytanna eða stofnananna? Ef ekki, hvers vegna ekki?


    Forstöðumenn ríkisstofnana fara með ráðningarmál starfsmanna hjá stofnunum sem þeir stýra. Er það alfarið ákvörðun forstöðumanna einstakra ríkisstofnana hvort og þá í hvaða mæli stofnunin skiptir við ráðningarstofur og vinnumiðlara.
    Fjársýsla ríkisins, sem heldur bókhald ráðuneyta og margra ríkisstofnana, getur ekki veitt sundurliðað þær upplýsingar sem óskað er eftir úr bókhaldskerfum sínum, þar sem viðskipti við ráðningastofur eru ekki sérgreindar í bókhaldi ríkisins. Einnig er því þannig farið að ýmis fyrirtæki sem veita þjónustu á þessu sviði eru jafnframt með aðra þjónustu, svo sem rekstrarráðgjöf og starfsmannaráðgjöf, og því er ekki hægt að greina úr bókhaldi hvaða þjónusta hafi verið keypt.
    Til þess að unnt væri að svara fyrirspurninni lið fyrir lið þyrfti því að leita upplýsinga hjá hverju ráðuneyti og ríkisstofnun fyrir sig og vinna síðan úr þeim upplýsingum. Slík upplýsingaöflun og úrvinnsla yrði bæði tímafrek og kostnaðarsöm. Því liggur fyrir að ógjörningur er að afla umbeðinna upplýsinga innan þess tímafrests sem þingsköp setja svörum við fyrirspurnum.
    Með hliðsjón af framansögðu er ekki unnt að veita ítarlegra svar.