Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 497. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 837  —  497. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvars og Marðar Árnasonar um flutningsjöfnunarsjóð olíuvara.

     1.      Í hvaða löndum á Evrópska efnahagssvæðinu, öðrum en Íslandi, eru starfræktir flutningsjöfnunarsjóðir olíuvara?
    Ekki er vitað til þess að í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu séu starfræktir flutningsjöfnunarsjóðir olíuvara með sama hætti og gert er á Íslandi. Í því sambandi skal nefnt að ekki bárust á þeim stutta tíma, sem ætlaður var til að svara fyrirspurninni, viðbótarupplýsingar frá eftirlitsstofnun EFTA og Evrópusambandinu sem skiptu sérstöku máli. Upplýsingar um flutningsaðstoðarkerfi á þó að vera unnt að finna, m.a. á vef eftirlitsstofnunar EFTA. Noregur verður nefndur hér sérstaklega.
    Til skamms tíma nutu flutningar á ákveðnum tegundum olíu ríkisaðstoðar samkvæmt sérstöku kerfi í Noregi. Frá byrjun ársins 2004 gildir hins vegar þar í landi endurskoðað flutningsaðstoðarkerfi við iðngreinar þar sem tekið hefur verið tillit til athugasemda eftirlitsstofnunar EFTA (sjá www.invanor.no). Ríkisaðstoð til sjávarútvegs og landbúnaðar er utan við þetta kerfi. Flutningsaðstoðarkerfið er á ábyrgð norska sveitarstjórnar- og byggðamálaráðuneytisins. Það tekur til nánar tiltekinna iðngreina en ekki olíuvara sérstaklega og sætir ýmsum skilyrðum. Þannig geta fyrirtæki, m.a. í matvælagreinum, sótt um styrk vegna flutninga á aðföngum til þeirra eða flutninga á framleiðslu frá þeim. Miðað er við ákveðnar byggðir landsins, sem eru sérstaklega tilgreindar, lágmark flutningskostnaðar sem endurgreitt er að hluta, mismikið eftir byggðum, og lágmarksfjarlægðir, tengdar atvinnustarfsemi fyrirtækisins. Sótt er um eftir á samkvæmt þessu kerfi, í fyrsta sinn 1. júní 2005 fyrir árið 2004.
    Markmiðið með hinum norskum reglum frá 24. júní 2004 er að bæta fyrirtækjum í ákveðnum atvinnugreinum hluta af aukaútgjöldum sínum vegna flutnings vara langar leiðir og stuðla þannig að auknum hagvexti í byggðum er standa höllum fæti. Flutningana má stunda með mismunandi farartækjum samkvæmt tilteknum skilyrðum. Kerfið tengist gjöldum atvinnurekenda. Hámark getur verið á aðstoð. Margháttaður flutningskostnaður fellur undir kerfið. Fé kemur af fjárlögum. Styrkir eru taldir ríkisaðstoð á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið en byggðasjónarmið liggja til grundvallar kerfinu. Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur ekki verið talið að greiðslur úr flutningsjöfnunarsjóði olíuvara væri ríkisaðstoð í skilningi samningsins heldur ríkisstuðningur. Eftirlitsstofnun EFTA fékk mál varðandi sjóðinn til meðferðar fyrir nokkrum árum en gerði ekki athugasemdir.






Prentað upp.
     2.      Hve miklu fé er varið til flutningsjöfnunar olíuvara á hvern íbúa á Íslandi annars vegar og í öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðisins hins vegar?
    Árið 2003 voru greiðslur á Íslandi vegna bifreiðabensíns um 97 millj. kr., vegna gasolíu um 379 millj. kr. og annarra olíublandna til brennslu um 46 millj. kr. Gasolíur eru notaðar bæði til bifreiða og skipa. Greiðslurnar úr sjóðnum námu samtals um 531 millj. kr., sem gerir röskar 1.800 kr. á mann árið 2003 miðað við fjölda Íslendinga 1. desember 2004 (290.490). Vestfirðir, Norðurland og Austurland fá um helmingi meira úr sjóðnum en þessir landshlutar greiða í hann.
    Í Noregi eru greiðslur á fjárlögum 2005 vegna framangreinds flutningsaðstoðarkerfis vegna iðngreina fyrir árið 2004 áætlaðar 195 millj. norskra króna. Ekki kemur þar fram að nokkuð af því sé vegna flutnings olíuvara sérstaklega. Fjárhæðin gerir miðað við sölugengið 9,71 kr. hinn 17. febrúar 2005 1.893 millj. norskra króna. Miðað við mannfjöldatölur í júlí 2004 (4.574.560) gerir greiðsla á mann 41 norska krónu eða um 400 íslenskar krónur. Íslenska talan er hærri en hjá Norðmönnum. Þess ber þó að gæta að ríkisaðstoð Norðmanna til sjávarútvegs og landbúnaðar er ekki inni í tölum þessum eins og áður hefur komið fram.

     3.      Er beitt öðrum aðferðum við flutningsjöfnun í öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðisins? Ef svo er, í hvaða löndum, með hvaða aðferðum og í hve miklum mæli?

    Hér skal vísað til svars undir 1. lið varðandi upplýsingar frá öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Þar voru gefnar sérstakar upplýsingar um norska flutningsaðstoðarkerfið. Þótt ríkisaðstoð sé að aðalreglu til bönnuð í stofnsáttmála Evrópusambandsins og 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er þar að finna víðtækar undantekningar sem ríki hafa nýtt sér í ríkum mæli. Svo sem fram kom varðandi Noreg er ríkisaðstoð veitt þar á sviði flutninga.
    Til frekari fróðleiks má nefna hér að í 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eru m.a. undantekningar er heimila: aðstoð af félagslegum toga sem veitt er einstökum neytendum enda sé hún veitt án mismununar með tilliti til uppruna viðkomandi framleiðsluvara, aðstoð til að efla hagþróun á svæðum þar sem lífskjör eru óvenju bágborin eða atvinnuleysi mikið og aðstoð til að greiða fyrir þróun ákveðinna greina efnahagslífsins eða ákveðinna efnahagssvæða enda hafi hún ekki svo óhagstæð áhrif á viðskiptaskilyrði að stríði gegn sameiginlegum hagsmunum.