Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 601. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 900  —  601. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um átak til að auka verðmæti veiða á bleikju og urriða.

Flm.: Magnús Þór Hafsteinsson, Sigurjón Þórðarson,
Jón Bjarnason, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að veittar skuli 20 millj. kr. árlega næstu fimm árin til sérstaks átaks sem miði að því að auka verðmætasköpun við nýtingu bleikju- og urriðastofna. Fénu skal varið af sérskipaðri verkefnisstjórn sem í verði einn fulltrúi skipaður af landbúnaðarráðherra, einn fulltrúi frá Veiðimálastofnun, einn fulltrúi frá Landssambandi veiðifélaga, einn frá Landssambandi stangaveiðifélaga og einn frá Samtökum ferðaþjónustunnar.

Greinargerð.


    Nýting lax- og silungastofna (bleikju og urriða) hér á landi veltir miklum fjármunum og skapar umtalsverða starfsemi. Hér vegur sportveiði þyngst, en hún nýtur mikilla vinsælda íslenskra og erlendra veiðimanna. Talið er að á bilinu 55–65 þúsund manns njóti þessarar afþreyingar árlega, sér til upplyftingar og heilsubótar. Stangaveiðin skapar miklar tekjur fyrir þjóðfélagið og veitir mörgum atvinnu, einkum í tengslum við landbúnað og ferðaþjónustu.
    Verulegar líkur eru á að enn séu vannýtt sóknarfæri í stangaveiði hér á landi, ekki síst hvað varðar veiði á silung. Í minnisblaði sem Veiðimálastofnun lagði fyrir fjárlaganefnd og landbúnaðarnefnd Alþingis, dags. 27. október 2004 (Sigurður Guðjónsson: Átak til að auka verðmæti silungsveiða), kemur fram að sérfræðingar stofnunarinnar telji ekki óraunhæft að tvöfalda megi tekjur og efnahagsleg áhrif af silungsveiðum á næstu fimm árum og fjórfalda á næstu tíu árum með því að nýta ár og vötn betur en nú er.
    Lagt er mat á efnahagslegt framlag innlendra og erlendra stangaveiðimanna í nýlegri skýrslu sem er að finna á vefnum angling.is. Eftirfarandi töflur eru fengnar úr þeirri skýrslu (Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Veiðimálastofnun, 2004. Lax- og silungsveiði á Íslandi. Efnahagsleg áhrif og líffræðileg staða auðlindarinnar. Skýrsla unnin fyrir Landssamband veiðifélaga).

Framlag erlendra stangaveiðimanna til íslenska hagkerfisins
(verðlag í maí 2004).



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Framlag innlendra stangaveiðimanna til íslenska hagkerfisins.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eins og sjá má af þessum tölum er verðmæti stangaveiða hér á landi talið nema nálega 10 milljörðum kr. árlega. Stærstur hluti af þessu kemur frá laxveiði sem telja má fullnýtta auðlind nema til komi vel heppnaðar ræktunaraðgerðir. Leiða má líkur að því að mestu sóknarfærin séu fólgin í silungsveiðunum, en fjölmargar silungsveiðiár og vötn eru vannýtt í dag. Hér þarf að koma til samstillt átak stjórnvalda, og hagsmunaaðila á borð við veiðiréttareigendur, veiðimenn og aðila í ferðaþjónustu, gjarnan með fjárhagslegri þátttöku hagsmunaaðila. Átak af þessu tagi ætti meðal annars að taka mið af eftirtöldum þáttum:
     .      Auka rannsóknir og ræktunaraðgerðir á silungastofnum með það að markmiði að bæta nýtingu þeirra með tilliti til veiði.
     .      Bæta aðgengi að veiðistöðum, aðstöðu fyrir veiðimenn og kynningu á veiðivötnum.
     .      Bæta skráningu á silungsveiði.
     .      Byggja upp virk veiðifélög um veiðivötn.
    Telja má víst að vel heppnað átak af þessu tagi mundi auka enn á verðmætasköpun vegna stangaveiða, ekki síst í hinum dreifðu byggðum landsins. Almennt veita sportveiðar fjármagni frá þéttbýli til dreifbýlis og er, eins og fram hefur komið, umtalsverður hluti af tekjum veiðirétthafa sem oftast tengjast landbúnaði. Auknar rannsóknir mundu einnig bæta við þekkingu okkar á þessum verðmætu fiskstofnum. Aukin velta fjármuna af veiðum ætti að leiða til aukningar á skatttekjum ríkisins. Fjármunir sem varið yrði til að auka verðmæti þessara veiða ættu því að vera góð fjárfesting, sem skilaði sér margfalt til baka til ríkissjóðs þegar til lengri tíma yrði litið.