Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 638. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 968  —  638. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um láglendisvegi.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Magnús Þór Hafsteinsson, Sigurjón Þórðarson.



    Alþingi ályktar að Vegagerðinni skuli falið að vinna tillögur sem byggist á því að allar helstu leiðir á þjóðvegi 1, Vestfjörðum og norðausturhorni landsins verði á láglendi, undir 200 m hæð yfir sjó. Einkum verði lagt til grundvallar aukið öryggi og stytting leiða milli suðvesturhornsins og annarra landsvæða, og eins innan landsvæða.
    Megináhersla verði lögð á jarðgöng og þverun fjarða við útfærsluna og horft til mesta mögulega sparnaðar miðað við 50 ára notkun mannvirkja. Reiknaður verði út sparnaður samfara nýju vegakerfi, t.d. við flutning á raforku og heitu vatni, og ávinningur af hugsanlegri fækkun flugvalla og hafskipahafna.

Greinargerð.


    Að líkindum má koma öllum þjóðleiðum á láglendisvegi með gerð innan við 20 jarðganga sem samtals yrðu um 100 km samanlagt eða styttri og því litlu lengri í kílómetrum talið en þau göng og jarðhellar sem fylgja gerð Kárahnjúkavirkjunar. Ekki fer á milli mála að þekkingu við gerð jarðganga hefur fleygt fram hér á landi og að kostnaður fer lækkandi á hvern kílómetra í jarðgangagerð. Verkhraði er einnig meiri en áður eins og sést af gerð jarðganga undir Almannaskarð og milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar.
    Öllum er ljóst eftir reynsluna af Vestfjarða- og Hvalfjarðargöngum hvaða hag menn hafa af svo öruggum þjóðvegum, styttri leiðum milli staða og landsvæða, sem og tíma- og eldsneytissparnaði sem fylgir varanlegum samgöngubótum sem endast í áratugi og aldir. Gefin var út áætlun um jarðgöng í janúar árið 2000 og lagt til að hún yrði endurskoðuð á fjögurra ára fresti. Þar eru talin upp 24 jarðgangaverkefni. Þegar hefur verið unnið að gerð nýrra, góðra fjallvega um Klettsháls, Bröttubrekku og Vatnaleið (í stað leiðarinnar Staðarsveit – Kolgrafarfjörður) og gerð jarðganga undir Almannaskarð og milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.
    Þá standa eftir eftirfarandi leiðir þar sem gera þyrfti jarðgöng:
       *      Arnarfjörður – Dýrafjörður.
       *      Dynjandisheiði.
       *      Óshlíð.
       *      Ísafjörður – Súðavík.
       *      Eyrarfjall í Djúpi.
       *      Tröllatunguheiði.
       *      Siglufjörður – Ólafsfjörður.
       *      Öxnadalsheiði.
       *      Vaðlaheiði.
       *      Vopnafjörður – Hérað.
       *      Seyðisfjörður – Hérað/Norðfjörður.
       *      Norðfjörður – Eskifjörður.
       *      Fáskrúðsfjörður – Stöðvarfjörður.
       *      Stöðvarfjörður – Breiðdalsvík.
       *      Skriðdalur – Berufjörður (Öxi).
       *      Undir Berufjörð.
       *      Reynisfjall í Mýrdal.
       *      Hellisheiði.
    Göng úr botni Ísafjarðardjúps yfir í Fjarðarhornsdal í Kollafirði yrðu einnig mjög hagkvæm eftir að þverun Gufufjarðar, Djúpafjarðar og Þorskafjarðar væri lokið, enda yrði þá hægt að aka á láglendisvegi milli suðvesturhorns landsins og norðurhluta Vestfjarða. Alls yrðu öll þessi göng um 85–90 km. Jarðgöng til Vestmannaeyja eru ekki inni í þessari áætlun, enda fjármögnun þeirra tengd niðurfellingu á ferjusiglingum við opnun þeirra.