Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 664. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1010  —  664. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um friðlýsingu Arnarvatnsheiðar og Tvídægru.

Flm.: Helgi Hjörvar, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Mörður Árnason,


Rannveig Guðmundsdóttir, Jóhann Ársælsson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að undirbúa og leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um friðlýsingu Arnarvatnsheiðar og Tvídægru. Ráðherra skipi níu manna nefnd til að undirbúa tillögu að friðlýsingu og eigi í henni sæti einn fulltrúi frá hverju þessara sveitarfélaga: Húnaþingi vestra, Borgarbyggð og Hvítársíðuhreppi. Enn fremur eigi sæti í nefndinni fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands, sameiginlegur fulltrúi veiðiréttarhafa svæðisins, einn fulltrúi skipaður af þjóðminjaráði, einn fulltrúi Umhverfisstofnunar, einn fulltrúi náttúruverndarsamtaka og einn fulltrúi skipaður af umhverfisráðherra án tilnefningar og skal hann vera formaður. Nefndin ljúki starfi sínu fyrir árslok 2006.

Greinargerð.


    
    Efst á Arnarvatnshæðum
    oft hef eg klári beitt;
    þar er allt þakið í vötnum,
    þar heitir Réttarvatn eitt.

    Og undir Norðurásnum
    er ofurlítil tó,
    og lækur líður þar niður
    um lágan Hvannamó.

    Á öngum stað eg uni
    eins vel og þessum mér;
    ískaldur Eiríksjökull
    veit allt sem talað er hér.

         Jónas Hallgrímsson

    Venja hefur verið að friðlýsa svæði með reglugerðum sem byggjast á friðlýsingarákvæðum laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Náttúruverndaráætlun er síðan sjálfstæð stefnumörkun sem miðast við að byggja upp skipulegt net verndarsvæða með það að markmiði að vernda þær lífverur, búsvæði og jarðminjar sem þarfnast verndar af ýmsum ástæðum. Í sérstökum tilfellum hafa svæði verið friðlýst með sérlögum eða um friðlýsingu flutt sérstök þingmál. Þannig má nefna að nokkrir þingmenn fluttu þingsályktunartillögu um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum á 129., 130. og 131. löggjafarþingi en nýverið gerði ríkisstjórn Íslands samþykkt um þjóðgarð norðan Vatnajökuls og þar með friðlýsingu árinnar. Er að sjálfsögðu ekkert úr vegi að Alþingi og alþingismenn veki athygli á mikilsverðum náttúruperlum sem þeir telja brýnt að friðlýstar verði þótt náttúruverndaráætlun geri ekki ráð fyrir þeim. Sú áætlun er aðeins til fimm ára í senn og ávallt bundin fjárveitingu. Sjái fjárveitingavaldið sjálft, Alþingi, ástæðu til að ganga lengra en þar er gert er mikilvægt að sá vilji komi fram.
    Náttúra landsins eru þau verðmæti sem íslenskri þjóð eru fólgin til varðveislu. Sú náttúra hefur orðið okkur uppspretta auðs og allsnægta meiri en dæmi eru um víðast í veröldinni. Jarðvarmi, vatnsafl, sjávarnytjar og margvísleg önnur náttúrugæði hafa verið okkar helstu uppsprettur auðs. En náttúra landsins sjálf, ósnortin, hefur í æ ríkari mæli orðið okkur auðlind í sjálfri sér, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Ferðaþjónusta hefur þannig í ríkum mæli byggt á ímyndinni um hreina og óspillta náttúru landsins og í vaxandi mæli sækja hingað ferðamenn í leit að griðastað úr önnum hins daglega lífs og í sama tilgangi sækja sífellt fleiri Íslendingar í náttúruna, ekki síst inn á óbyggðir hálendisins til að sækja sér endurnæringu í friðsemi og fegurð óbyggðanna mitt í asa samtímans.
    Með þingsályktunartillögu þessari er stefnt að friðun norðvesturhluta hálendis Íslands, Arnarvatnsheiðar og Tvídægru. Þegar hafa eyjar Breiðafjarðar verið friðaðar, en vötnin á Arnarvatnsheiði og umhverfi þeirra eru enn ekki friðlýst. Ekki er svæðið aðeins ríkt af náttúrufegurð og friðsæld sem nútímafólk leitar æ meira í, það er líka hluti af sögu okkar frá því á landnámsöld og uppspretta margra helstu laxveiðiáa landsins. Engir virkjunarkostir eru á þessum hluta hálendisins og því engir ríkir atvinnu- eða efnahagslegir hagsmunir er mæla gegn friðlýsingu.
    Nú fer margt saman í senn; vaxandi straumur erlendra ferðamanna, aukin útivist, þensla höfuðborgarsvæðisins og stytting og umbætur leiðarinnar þaðan á Arnarvatnsheiði um Hvalfjarðargöng. Með vaxandi notkun svæðisins eykst þörfin á að huga að friðun þess og skipulagðri varðveislu. Sú friðun væri meðal annars í þeim tilgangi gerð að efla rannsóknir á fiski og fiskstofnum, því þótt friðun varni ekki veiði er mikilvægt að aukin ásókn gangi ekki nærri lífríki vatnasvæðisins. Má búast við því að nú þegar stór hluti leiðarinnar er lagður bundnu slitlagi og aksturstími úr höfuðborginni um þrjár klukkustundir, þá verði heiðin æ vinsælli til skemmri veiðiferða úr borginni. En jafnframt miðaði friðlýsing að því að verja landið uppblæstri og hlú að fuglalífi með vernd búsvæða og eyðingu minks. Til framtíðar litið kæmi annars vegar til álita að svæðið yrði hluti Snæfellsnessþjóðgarðs til eflingar ferðaþjónustu þar með svipuðum og hætti og dæmi eru um, t.d. í Noregi, en einnig mætti til lengri tíma sjá fyrir sér að svæðið sameinaðist stækkuðum þjóðgarði á Þingvöllum, sbr. tillögu til þingsályktunar á þingskjali 16 frá 123. löggjafarþingi.
    Með lögum nr. 54/1995, um vernd Breiðafjarðar, og lögum nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, eru þessi svæði friðlýst með vísan til náttúruverndar. Markmið þeirra eru m.a. að stuðla að verndun landslags, jarðmyndana, lífríkis og menningarminja. Flutningsmenn líta til þessara laga sem fordæmis um friðlýsingu í nánu samráði við heimamenn. Sú tillaga sem hér er lögð fram lýtur að sömu markmiðum en fjallar um norðvesturhluta hálendisins, þ.e. Arnarvatnsheiði og Tvídægru.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Heiðarflæmi (400–600 m.y.s.) er syðst og austast í hinum miklu heiðalöndum milli Húnavatnsþings og Borgarfjarðarhéraðs. Arnarvatnsheiði liggur norður og vestur af Eiríksjökli og Langjökli. Nær hún frá Hallmundarhrauni norðaustur að Stórasandi, vestur að Vesturheiði og norður fyrir Arnarvatn stóra en þar skarast heiðarnar.
    Heiðin er austan til þakin grágrýtisbreiðum en blágrýti er vestan til. Móberg er víða undir og jökulurðir mynda ása og hæðir. Þar skiptast á flóar, mýrar, móar og melahryggir en oft eru þó mosaþembur á hæðarkollum.
    Á Arnarvatnsheiði er mikill fjöldi vatna. Er vatnaklasinn stundum nefndur Veiðivötn eða Fiskivötn vestari til aðgreiningar frá Veiðivötnum á Landmannaafrétti.
     Í flestum vötnum og tjörnum er mikil fiskisæld og einhver veiði í þeim nær öllum. Hefur silungsveiði verið stunduð þar frá ómunatíð. Lágu veiðimenn við vötnin meðan þeir veiddu í klyfjar á hesta sína. Nú er vetrarveiði löngu aflögð í vötnunum en mikið er veitt á sumrum. Fyrrum var búsílag mikið í silungnum og mun hann hafa forðað mörgum manni frá hungri.
    Fuglalíf er mikið á Arnarvatnsheiði eins og öllum heiðunum þar í grennd en Arnarvatnsheiði – Tvídægra er talið vera alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Eru þar himbrimi, endur, gæsir og álftir auk fjölmargra mó- og vaðfugla. Áður var þar mikil eggja- og fjaðratekja og þóttu góð hlunnindi. Talið er að fuglalíf hafi minnkað á heiðinni á seinni árum og er minki um kennt.
    Þá er víða mikið um fjallagrös og var þar áður mikil grasatekja.
    Fyrrum áttu sekir menn oft bólstaði á Arnarvatnsheiði eða í grennd við hana og er þess meðal annars getið í Grettissögu.
    Áður fyrr var leiðin yfir Arnarvatnsheiði fjölfarin. Frá Kalmanstungu var talin 14 klst. ferð á hestum að Haukagili í Vatnsdal en 18–20 stunda ferð að Mælifelli í Skagafirði.
    Arnarvatnsheiði er stærsta náttúruverndarsvæðið í Vestur-Húnavatnssýslu og er ásamt Tvídægru á náttúruminjaskrá. Þessi svæði eru ásamt húnvetnsku heiðunum allt austur fyrir Blöndu þau svæði á miðhálendinu sem best eru gróin en um helmingur þess er votlendi. Þar sem lítið er um gróðurlaus svæði er fuglalíf mikið og talið er líklegt að umtalsverður hluti tveggja fuglastofna, álftar og himbrima, byggi afkomu sína á þessum heiðalöndum.
         
Gróðurfar.
    185 tegundir háplantna hafa fundist á Arnarvatnsheiði – Tvídægru, þar af tvær mjög sjaldgæfar tegundir, lensutungljurt og skrautpuntur. Gróðurkort eru til af svæðinu, gefin út 1970 og 1977, unnin á vegum RALA.
    Í Árbók Ferðafélagsins frá árinu 1962 segir Steindór Steindórsson frá gróðurfari svæðisins sem hann telur vart frábrugðið öðrum íslenskum heiðalöndum. Svæðið er eins og öll heiðalöndin vestan Langjökuls og Eiríksjökuls mikið gróin en þar veldur þrennt mestu: „Í fyrsta lagi eru heiðar þessar tiltölulega lágar, og landslagi svo háttað, að þar er flatlent, og vatn safnast því fyrir í afrennslislitlar tjarnir og flóa, í öðru lagi er þar allúrkomusamt, því að votviðri ná þangað bæði frá Suður- og Norðurlandi, og í þriðja lagi, sandfok er þar lítið, enda liggja engin gróðurlítil, víðlend hraun að þeim, en svo virðist sem hraunaflákarnir í hálendinu séu þrotlaus uppspretta sandfoks, en í kjölfar þess fylgir uppblásturinn. Ljóst er þó, að uppblásturs og mela gætir mest um austanvert svæðið næst Hallmundarhrauni og Stórasandi, en þar er einnig þess að gæta, að þar rís landið einna hæst norður um Arnarvatnshæðir.“
    Steindór flokkar aðalgróðurlendi svæðisins í fernt: Votlendi, heiði, mosaþembu og mel. Hann segir nánast allar deildir votlendis vera á svæðinu, allt frá hinum blautasta flóa til hálfdeigjumýrar en hinar blautari deildir votlendisins eru þó víðáttumeiri. Víða liggja tjarnir og stöðuvötn í flóasundunum, sem þá lyfta sér einungis fáeina sentimetra yfir vatnsborðið. Blástararflóinn er langvíðáttumestur um austanvert svæðið. Þrátt fyrir að meiri hluti votlendisins sé flói eru mýrarsvæði allvíða, einkum litlir mýrarblettir og sund. Aðaltegund mýranna er hvarvetna stinnastör, eins og tíðast er í hálendinu en grávíðir er algengastur í öllu mýrlendi.
    Heiðin og mólendið eru að mati Steindórs afar breytileg að gróðurfari. Í stað þess að vera víðáttumikil og samfelld heiðasvæði bendir hann á að heiðin liggi í beltum utan í ásum og hæðum. Það sérkennilegasta við svæðið er að mati Steindórs hið stórgerða þýfi sem gefur landinu óneitanlega nokkurn svip. „Þúfurnar eru 1–1,5 m háar með bröttum jöðrum, en flötum kolli, og má kalla, að kollarnir allir séu í sama fleti í hverju þúfnastykki. Milli þúfnanna eru stundum þröngir skorningar, að jafnaði gróðurlitlir, en þar sem lautirnar eru breiðar, eru þær algrónar. Vaxa þá ýmis grös í lautunum, en á þúfnakollunum er stinnastör aðaltegundin. Mosi er oft allmikill í þúfnakollum.“ Rakastig landsins er allbreytilegt eftir því hversu hátt það liggur yfir mýrasundunum. Á rökustu svæðunum sem lægst liggja er gulvíðir algengasta tegundin en gulvíðikjarrið er sérkennilegasta gróðurlendið á þessum slóðum, ef borið er saman við önnur afréttarlönd á hálendinu. Innan um víðikjarrið vaxa ýmsar aðrar plöntur, einkum grös. Algengustu grastegundirnar eru hálíngresi og snarrótarpuntur. Algengustu blómjurtir heiðanna eru sóleyjar, maríustakkar og sums staðar blágresi. Víðáttumesti heiðagróðurinn er lyngheiði og eru krækilyng og bláberjalyng drottnandi tegundir víðast hvar í henni. Efsta belti heiðagróðursins, næst blásnum melakollum, einkennist af sauðamerg og víða á heiðasvæðunum eru gulgráar skellur af hreindýramosa. Þá eru fjallagrös allvíða á þessum slóðum.
    Mosaþemba og melar eru víðáttumikil gróðurlendi eins og hvarvetna á hálendinu. Þó gætir örfoka mela vonum minna hér, og eru þeir einkum syðst og austast á Arnarvatnsheiði. En er vestar dregur eru melarnir oft með mosabreiðum, og stundum er erfitt að skera úr hvort fremur beri að kalla lendið mel eða grýtta mosaþembu. Aðaleinkennistegund mosaþembunnar er gamburmosinn eða grámosinn sem gefur henni lit og líf.

Veiði.
    Á Arnarvatnsheiði eru fjölmörg vötn, bæði stór og smá. Oft eru þau sögð óteljandi. Flest eru vötnin grunn, dýpið 1–2 m, og verður upprót af botni þeirra flestra þegar vind hreyfir. Mörg vatnanna tengjast með lækjum og ám og hafa því bæði í- og úrrennsli. Upptök nokkurra gjöfulustu laxveiðiáa á Íslandi, svo sem Þverár í Borgarfirði, Hrútafjarðarár og Miðfjarðarár í Húnavatnssýslu, eru á Arnarvatnsheiði.
    Stærst vatnanna eru Arnarvatn stóra (4,3 km 2 að flatarmáli) og Úlfsvatn (3,85 km 2). Réttarvatn, Reykjavatn, Krókavatn, Mordísarvatn, Krummavatn, Veiðitjörn, Gunnarssonavatn, Hlíðarvatn, Arfavötn, Arnarvatn litla og Stóralón eru einnig allstór. Silungur er í flestum stærri vatnanna, bæði bleikja og urriði, og hefur silungsveiði verið stunduð á heiðinni frá ómunatíð. Áður fyrr var netaveiði stunduð bæði sumar og vetur og dorgveiðar að vetri til en nú á dögum er stangaveiði orðin algengari. Veiðifélag Arnarvatnsheiðar og Tvídægru fer með forræði yfir veiðivötnunum á svæðinu norðan vatnaskila en aðild að félaginu eiga eigendur allra lögbýla í Torfastaðahreppum fyrrverandi í Miðfirði, hvort heldur um er að ræða jarðir í byggð eða eyðibýli. Veiðivörður er á svæðinu á sumrin en menn hafa verið að veiðum frá því í júní og fram í byrjun september samkvæmt upplýsingum félagsins. Silungsveiðin er best efst þar sem Austuráin rennur úr Arnarvatni stóra og er bleikja uppistaðan í veiðinni. Arnarvatn stóra varð snemma frægt í sögunni fyrir mikla veiði en með tilkomu stangaveiða hefur stofninn í Arnarvatni stóra þó smækkað.
    
Fornminjar.
    Margvíslegar fornleifar eru í Hallmundarhrauni, á Tvídægru og Arnarvatnsheiði. Skiptast þær í þessa flokka helsta:
     Minjar um útilegumenn. Það eru annars vegar hleðslur í hellum í Hallmundarhrauni og tóftir við Arnarvatn stóra sem tengdar hafa verið við Gretti Ásmundarson, en hluti Grettissögu gerist á þessum slóðum. Minjar í hellum hafa talsvert verið rannsakaðar og nýleg athugun á fornleifum í Vígishelli sýndi að þar hafa menn hafst við á landnámsöld.
     Minjar um fjárleitir. Um alla heiðina eru náttstaðir leitarmanna og gangnamannakofar. Miðstöð fjárleita var við Arnarvatn stóra og Réttarvatn sem er sunnan við það.
     Samgönguminjar. Leiðir lágu þvert yfir heiðina, en samgönguminjar tengjast helst Leggjabrjóti og Skagfirðingavegi um Stórasand.
     Búsetuminjar. Innan hins afmarkaða svæðis eru tvö eyðibýli, Halldórstóftir við Norðlingafljót og Aðalbreið í Austurdal, en einnig eru sel í Kjarradal. Þá eru vísbendingar um minjar sem tengjast veiði í vötnum á heiðinni.
     Þjóðsögu- og sögustaðir. Svæðið er sögusvið Grettissögu og Heiðarvígasögu og eru ýmsir staðir og örnefni tengd atburðum og persónum sem lýst er í sögunum. Almennt er talið að Grettir Ásmundarson hafi dvalist við Arnarvatn í útlegð sinni og segir Grettissaga að hann hafi dvalið á Arnarvatnsheiði fyrstu þrjú ár sektartíma síns. Þar hafi hann gert sér skála sem enn sér merki, fengið sér net og bát og lifað á fiskveiðum. Í Árbók Fornleifafélagsins 1933– 1936 fjallar Matthías Þórðarson um Grettisskála. Kemur fram að Grettisskáli hafi verið norðan megin við austasta hluta Arnarvatns eða sunnan við Grettishöfða. Þar má samkvæmt Matthíasi sjá skálatóftir, þrjár talsins og litlar. Tvær eru næstar vatninu en sú þriðja nokkra metra frá þeim í austur. Eftir nokkrar rannsóknir telur Matthías óefandi að þarna hafi Grettir hafst við, eins og segir í sögu hans.
    Mannvirkjaleifar í Vígishelli og Halldórstóftir eru friðlýstar fornleifar en langmest af fornleifum er við Arnarvatn stóra og Réttarvatn og er sá staður afmarkaður á fornleifakorti sem fylgir svæðisskipulagi miðhálendisins og talinn lykilstaður sem ástæða er til að fái sérstaka verndunar- og kynningaráætlun.
    Ekki er skylt að gera kostnaðaráætlanir um þingmannamál en reynslan sýnir að marklaust er að friðlýsa svæði ef þeim yfirlýsingum fylgja ekki aðgerðir og fjármagn. Það er mat flutningsmanna að kostnaður við undirbúning friðlýsingar geti numið allt að 15 millj. kr. og árlegur kostnaður um 10 millj. kr.

HEIMILDIR

Arnarvatnsheiði:
         Tómas Einarsson og Helgi Magnússon: Íslandshandbókin – Náttúra, saga og sérkenni, fyrra bindi. Reykjavík 1989, Örn og Örlygur (bls. 124–125).
Miðhálendi Íslands – Svæðisskipulag 2015 – Skipulagsáætlun.
Heath, M.F. & Evans, M.I.: „Important Bird Areas in Europe“, í Birdlife International, 2000.
Kort af fyrirhuguðu verndarsvæði Arnarvatnsheiðar og Tvídægru unnið hjá Landmælingum.

Gróðurfar:
         Steindór Steindórsson: „Um gróður á Arnarvatnsheiði“. Árbók Ferðafélagsins 1962 – Arnarvatnsheiði og Tvídægra. Reykjavík 1962, Ferðafélag Íslands.

Veiði:
         Guðni Guðbergsson og Sigurður Már Einarsson: „Fiskirannsóknir á Arnarvatnsheiði 1987 – Arnarvatn litla, Úlfsvatn, Grunnuvötn og Stóralón“. Veiðimálastofnun, VMST-R 88007X.
                  Eiríkur St. Eiríksson: „Veiðifélag Arnarvatnsheiðar og Tvídægru“ í Stangaveiðihandbókinni, 3. bindi, 2004.
Landssamband veiðifélaga: Vötn og veiði 1981 og 1989.

Fornminjar:
         Íslenzk fornrit VII. Grettis saga Ásmundarsonar. Bandamanna saga. Útg. Guðni Jónsson. Rv. 1936, Hið íslenzka fornritafélag.
         Matthías Þórðarson: „Tvö Grettisbæli.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1933–1936. Rv. 1936, Ísafoldarprentsmiðja hf.