Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 668. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1020  —  668. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um sameiningu rannsóknarnefnda á sviði samgangna.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Arnbjörg Sveinsdóttir,


Björgvin G. Sigurðsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðjón Hjörleifsson,
Steinunn K. Pétursdóttir, Kristján L. Möller, Magnús Stefánsson.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa fimm manna nefnd er kanni möguleika þess að sameina í heild eða að hluta starfsemi rannsóknarnefndar umferðarslysa, rannsóknarnefndar flugslysa og rannsóknarnefndar sjóslysa og meti kosti slíkrar sameiningar. Nefndin skili niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. febrúar 2006.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er flutt í samræmi við álit samgöngunefndar á frumvarpi til laga um rannsóknarnefnd umferðarslysa, 236. máli þessa löggjafarþings. Við meðferð samgöngunefndar á því máli veltu nefndarmenn fyrir sér þeim möguleika að sameina rannsóknarnefndir sem starfræktar eru á sviði samgangna, þ.e. rannsóknarnefnd umferðarslysa, rannsóknarnefnd flugslysa og rannsóknarnefnd sjóslysa.
    Rannsóknarsvið hverrar nefndar er sérhæft og því óvíst að hægt sé að sameina þær að fullu í eina nefnd en flutningsmenn telja rétt að athugun verði gerð á þessum möguleika auk þess sem kannað verði hvort auka megi hagkvæmni í rekstri þessara nefnda með sameiningu eða samþættingu ýmissa starfsþátta. Flutningsmenn telja óráðlegt að ráðast í slíka sameiningu nema að vel athuguðu máli enda ákveðnir kostir sem fylgja því að reka nefndirnar eins og þær starfa í dag, þ.e. sjálfstætt og með sérhæfða starfsmenn en í ákveðinni nálægð við aðrar stjórnsýslustofnanir á því sviði sem þær rannsaka. Því leggja flutningsmenn til að ráðherra verði falið að skipa nefnd fimm manna sem meti möguleika á sameiningu rannsóknarnefndanna.