Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 670. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1022 —  670. mál.




Frumvarp til laga



um gæðamat á æðardúni.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Lög þessi gilda um íslenskan æðardún og gæðamat á honum.

2. gr.

    Allur æðardúnn, hvort sem er til dreifingar á innanlandsmarkaði eða til útflutnings, skal metinn og veginn af lögskipuðum dúnmatsmönnum eftir fullhreinsun. Áður en að dreifingu á innanlandsmarkaði eða til útflutnings kemur skal liggja fyrir að æðardúnn standist gæðamat dúnmatsmanna með vottorði þeirra þar að lútandi.

3. gr.

    Landbúnaðarráðuneytið gefur út leyfi til handa dúnmatsmönnum til starfa á þeim stöðum sem það telur þörf á að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands og Félags íslenskra stórkaupmanna. Dúnmatsmenn skulu undirrita eiðstaf áður en þeir taka til starfa. Kostnaður af störfum þeirra greiðist af matsbeiðanda í samræmi við gjaldskrá sem ráðuneytið staðfestir.
    Nánar er kveðið á um framkvæmd laganna, starfsskyldur og hæfniskröfur dúnmatsmanna í reglugerð.

4. gr.

    Brot á lögum þessum varða sektum og sæta meðferð opinberra mála.

5. gr.

    Lög þessi taka gildi þegar í stað. Á sama tíma falla úr gildi lög nr. 39/1970, um gæðamat á æðardún, og frá og með 1. júlí 2005 er lögð niður skipun þeirra aðila sem starfa við dúnmat samkvæmt þeim lögum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Árið 2004 var skipuð nefnd af hálfu landbúnaðarráðherra til að endurskoða lög nr. 39/1970, um gæðamat á æðardún. Í nefndinni sátu: Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, lögfræðingur í landbúnaðarráðuneytinu, formaður, Árni Snæbjörnsson, hlunnindaráðunautur, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, Jónas Helgason, bóndi í Æðey, tilnefndur af Æðarræktarfélagi Íslands, og Sigtryggur R. Eyþórsson, forstjóri XCO ehf., tilnefndur af Félagi íslenskra stórkaupmanna. Nefndin hélt sex fundi og fór yfir öll gögn máls sem hefur verið til meðferðar hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna meintrar mismununar á kröfum til gæða æðardúns annars vegar til sölu innan lands og hins vegar til útflutnings. Í frumvarpinu er tekinn af allur vafi um að það sama gildir um dreifingu innan lands og erlendis.
    Niðurstaða nefndarinnar af endurskoðun laganna er það frumvarp sem hér er lagt fram.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin tekur á gildissviði laganna. Hún er nýmæli en nauðsynlegt þykir að kveða sérstaklega á um gildissvið laganna, þ.e. að þau gilda einungis um íslenskan æðardún og mat á honum en ekki um æðardún sem fluttur er til landsins.

Um 2. gr.


    Greinin fjallar um dreifingu á æðardúni og að hann skuli veginn og metinn eftir fullhreinsun af dúnmatsmönnum sem hafa leyfi til starfa. Nánar er fjallað um þá í 3. gr. Skýrt er kveðið á um það að sömu skilyrði gilda um dreifingu æðardúns hvort sem hann er ætlaður innanlandsmarkaði eða erlendum mörkuðum. Dreifing merkir í lögum þessum sölu eða afhendingu á fullhreinsuðum æðardúni. Áður en til dreifingar á æðardúni kemur er skilyrði að hann hafi staðist gæðamat dúnmatsmanna.
    Um framkvæmd dúnmatsins og störf matsmanna verður nánar kveðið á um í reglugerð, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Í lögum nr. 39/1970, um gæðamat á æðardún, segir m.a. í 1. gr. að allur æðardúnn sem fluttur er úr landi skuli veginn og metinn af lögskipuðum dúnmatsmönnum. Í erindisbréfi nr. 64/1972 sem sett er á grundvelli laganna segir í 2. mgr. 3. gr. að aðeins 1. flokks æðardún megi selja úr landi. Nauðsynlegt er að samræma þau ákvæði sem gilda eiga við dreifingu æðardúns innan lands og erlendis og tekur greinin af allan vafa um að sömu skilyrði gilda um dreifingu innan lands og erlendis.

Um 3. gr.


    Greinin kveður á um dúnmatsmenn og er gerð sú breyting frá gildandi lögum að skipunarvaldið er fært frá lögreglustjórum og lagt til að starfsleyfi til handa dúnmatsmönnum verði gefið út af landbúnaðráðuneytinu. Eðlilegt er að mat á þörf fyrir fjölda dúnmatsmanna sé hjá landbúnaðarráðherra sem fer með málaflokkinn. Í gildandi lögum eru tilnefningar um skipun dúnmatsmanna í höndum Bændasamtaka Íslands, en nefndin leggur til að Félag íslenskra stórkaupmanna tilnefni einnig dúnmatsmenn til starfa. 2. málsl. greinarinnar er efnislega samhljóða 1. málsl. 6. gr. laga nr. 39/1970. Í 3. málsl. er lögð til sú breyting að matsbeiðandi beri kostnað af gæðamatinu en í gildandi lögum er kveðið á um að útflytjandi greiði það. Eðlilegra er að sá aðili sem óskar eftir gæðamati greiði þann kostnað sem af því hlýst og lagt er til að landbúnaðarráðherra setji gjaldskrá um gjaldtöku. Matsbeiðandi getur verið æðardúnsbóndi/æðardúnsræktandi, hreinsunarstöð eða hver sá sem sér um dreifingu á æðardúni.
    Í 2. mgr. segir að nánar verði kveðið á um framkvæmd laganna, starfsskyldur og hæfniskröfur dúnmatsmanna í reglugerð. Hæfniskröfur matsmanna felast m.a. í því að þekkja til æðardúns og eiginleika hans auk þess sem nauðsynlegt er að nýir matsmenn undirgangist þjálfun eða fari á námskeið.

Um 4. og 5. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um gæðamat á æðardúni.

    Markmiðið með frumvarpinu er að tryggja jöfn gæði æðardúns sem seldur er á Íslandi eða til útflutnings. Samkvæmt því verður sala á æðardúni aðeins heimil eftir að hann hefur verið veginn og metinn eftir fullhreinsun af lögskipuðum dúnmatsmönnum. Framleiðendur skulu greiða fyrir þennan kostnað samkvæmt gjaldskrá sem landbúnaðarráðuneytið gefur út og miðast við raunkostnað af eftirlitinu. Lögreglustjóraembætti hafa hingað til séð um að skipa dúnmatsmenn og hefur gjaldið til þeirra miðast við 200–300 kr. fyrir hvert kíló dúns. Með hliðsjón af núverandi umfangi dúnframleiðslu er gert ráð fyrir að eftirlitið skili um 800 þús. kr. ríkistekjum sem standi undir kostnaði af eftirlitinu.