Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 609. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1023  —  609. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um haf-, fiski- og rækjurannsóknir í Arnarfirði.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver hefur verið árlegur heildarkostnaður við haf-, fiski- og rækjurannsóknir í Arnarfirði síðan árið 1999, reiknað til núvirðis?
     2.      Hve miklum fjárhæðum hyggjast stjórnvöld verja til slíkra rannsókna í Arnarfirði á þessu ári?
     3.      Liggja fyrir áætlanir um að auka rannsóknir í firðinum og ef svo er, hvaða rannsóknir eru það, sundurliðað eftir verkefnum, og hvernig verða þær fjármagnaðar?


    Meðfylgjandi tafla sýnir heildarkostnað Hafrannsóknastofnunarinnar við þau verkefni sem unnið hefur verið að í Arnarfirði síðan 1999. Þar vega eðlilega þyngst árlegar rannsóknir á rækju, einkum stofnmælingar sem eru mikilvægar við ráðgjöf um leyfilegan hámarksafla á hverri vertíð. Á árunum 2001–2002 var Arnarfjörður einnig kortlagður með fjölgeislamæli.
Upplýsingar sem fengust í þeirri rannsókn um botngerð og lögun botnsins í firðinum gefa skýrari mynd af fiskgengd og útbreiðslu rækju en áður var fyrir hendi.
    Á árinu 2005 verða rækjurannsóknir með svipuðu sniði og áður. Þar að auki kemur til sérstakt átak vegna aukinna rannsókna á samspili þorsks og ýsu annars vegar og rækju í firðinum hins vegar. Annað nátengt og nýtt verkefni á þessu ári snýr að því að reyna að fanga fisk til áframeldis með fóðrun í kvíum. Heildarkostnaður vegna rannsókna í Arnarfirði á árinu 2005 verður því mun meiri en á undanförnum árum.
    Engar áætlanir liggja fyrir á þessu stigi málsins um aðrar rannsóknir í firðinum.

Kostnaður Hafrannsóknastofnunarinnar við rannsóknir í Arnarfirði í þús. kr.

1999 2000 2001 2002 2003 2004 2005
Rækjurannsóknir 4.467 5.123 4.457 2.560 2.956 2.956 5.156
Hörpudisksrannsóknir 1.490 1.490
Straummælingar vegna kalkþörunga 305 325
Botnmælingar með fjölgeislamæli 4.133 2.677
Mengunarsýnataka 105 440
Botndýrarannsóknir 420
Rallstöðvar 290 290 290 290 290 290 290
Söfnun á þorski og ýsu í kvíar 11.065
Samtals 6.247 5.413 10.780 6.292 3.246 3.666 16.511