Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 720. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1078  —  720. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:

    a. (IX.)
    Í stað þess að öðru gjaldtímabili þungaskatts skv. B-lið 7. gr. ljúki 10. júní 2005 skal því ljúka 30. júní 2005. Eigandi eða umráðamaður ökutækis skal án sérstakrar tilkynningar koma með ökutæki sitt til álestraraðila á tímabilinu frá 15. júní til 30. júní 2005 og láta lesa af ökumæli og skrá stöðu hans.
    Gjalddagi þungaskatts skv. 1. mgr. er 1. júlí 2005 og eindagi er 15. ágúst 2005.
    Sé lesið af ökumæli ökutækis sem er undir 10.000 kg að leyfðri heildarþyngd á tímabilinu 15. til og með 29. júní skal akstur ökutækisins áætlaður frá álestrardegi til loka álestrartímabils. Aksturinn skal áætlaður þannig að reiknað er út meðaltal ekinna kílómetra á dag á milli álestra og það margfaldað með fjölda þeirra daga er eftir eru af álestrartímabilinu.
    Ef eigandi eða umráðamaður ökutækis lætur ekki lesa af ökumæli þess á álestrartímabilinu gilda ákvæði 2. og 3. mgr. 13. gr.

    b. (X.)
    Gjaldskyldir aðilar skv. 3. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., skulu senda tollstjóra upplýsingar um birgðir af olíu sem fellur undir gildissvið þeirra laga og er í þeirra eigu eða vörslu 1. júlí 2005. Í þeim upplýsingum skal koma fram hve mikið af birgðum er á innlendum birgða- og sölustöðum. Upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein skulu berast tollstjóra eigi síðar en 1. ágúst 2005.
    Aðilar sem ekki eru gjaldskyldir skv. 3. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., skulu senda tollstjóra upplýsingar um birgðir af olíu sem fellur undir gildissvið þeirra laga og er í þeirra eigu eða vörslu 1. júlí 2005 ef þær eru yfir 1.500 lítrum. Þeim aðilum ber að greiða olíugjald af heildarbirgðum sínum í samræmi við ákvæði þeirra laga. Eiganda eða umráðamanni birgða skal skylt að aðstoða við birgðakönnun óski tollstjóri slíkrar aðstoðar. Tollstjóri getur krafist upplýsinga frá innflytjendum og seljendum gas- og dísilolíu um sölu til viðskiptamanna er fram fór fyrir 1. júlí 2005. Þeir sem gjaldskyldir eru samkvæmt þessari málsgrein skulu skila olíugjaldi til innheimtumanns ríkissjóðs eigi síðar en 15. ágúst 2005.
    Þrátt fyrir ákvæði 24. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., gildir ákvæði þetta þar til staðin hafa verið skil á olíugjaldi af þeim gjaldskyldu birgðum sem eru í landinu 1. júlí 2005, í samræmi við 2. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði tvö ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum. Tilefni þessa frumvarps eru þau lagaskil er verða 1. júlí 2005 þegar olíugjald og kílómetragjald leysa núverandi þungaskattskerfi af hólmi, sbr. lög nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl.
    Vegna upptöku olíugjalds 1. júlí 2005 er nauðsynlegt að kveða á um hvernig uppgjöri þungaskatts ökutækja á ökumæli skuli háttað við þau tímamót.
    Í a-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að farin verði sú leið að lengja annað gjaldtímabil ársins 2005 þannig að í stað þess að því ljúki 10. júní 2005 skuli því ljúka 30. júní 2005. Þá er lagt til að álestrartímabilið verði stytt úr 20 dögum í 15 daga og að gjalddagi verði færður til 1. júlí og eindagi til 15. ágúst 2005.
    Í 3. mgr. er lagt til að reiknað verði út meðaltal ekinna kílómetra á dag á milli álestra af ökumælum ökutækja sem eru undir 10.000 kg að leyfðri heildarþyngd og látið er lesa af á tímabilinu 15. til og með 29. júní. Á grundvelli þess meðaltals yrði akstur áætlaður til 30. júní. Með þessu móti er álagning þungaskatts tryggð út gjaldtímabilið en ekki hefði verið unnt að stefna öllum eigendum ökutækja á ökumæli til álestrar sama dag. Til frekari skýringar á ákvæðinu má nefna eftirfarandi dæmi: Lesið er af ökumæli ökutækis 28. júní. Síðasti álestur er frá 10. febrúar. Á þessu 138 daga tímabili hefur ökutækinu verið ekið 6.900 km. Að meðaltali hefur þá ökutækinu verið ekið 50 km á dag (6.900 km/138 dagar). Samkvæmt ákvæðinu bætast þá við 100 km (2 dagar . 50 km) þannig að við álagningu þungaskatts er miðað við 7.000 km akstur.
    Rétt er að geta þess að hafi eigandi ökutækis látið lesa af ökumæli ökutækis síns snemma á álestrartímabilinu á hann þess kost að láta lesa af ökumælinum að nýju seinna á álestrartímabilinu telji hann það sér í hag.
    Ökutæki sem eru 10.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd verða áfram á ökumæli, sbr. lög nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl. Mun því verða farið með þau eins og jafnan hefur verið við gjaldskrárbreytingar, að reiknað er meðaltal aksturs milli álestra og álagning hlutfallsleg í samræmi við það eftir gömlu og nýju gjaldskránni.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að 2. og 3. mgr. 13. gr. laganna gildi ef eigandi eða umráðamaður ökutækis lætur ekki lesa af ökumæli þess á álestrartímabilinu, en ákvæði þessi fjalla um áætlanir þungaskatts og álagsbeitingu. Með þessu ákvæði eru tekin af öll tvímæli um að þessar reglur gildi á öðru gjaldtímabili 2005.
    Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða við lögin er fjallar um olíubirgðir á landinu við þau lagaskil er verða 1. júlí 2005 þegar lög nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., öðlast gildi og afnema lög nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum. Í 1. mgr. er lagt til að gjaldskyldir aðilar í skilningi 3. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., sendi upplýsingar um magn olíu sem fellur undir gildissvið þeirra laga og er í þeirra eigu eða vörslu 1. júlí 2005 til tollstjóra. Nauðsynlegt er með tilliti til eftirlits að við þessi tímamót liggi fyrir þessar upplýsingar um magn gjaldskyldrar olíu á landinu.
    Í 2. mgr. er fjallað um birgðir annarra en þeirra er gjaldskyldir eru skv. 3. gr. laga nr. 87/ 2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl. Hér getur bæði verið um að ræða einstaklinga og fyrirtæki. Samkvæmt ákvæðinu hvílir sú skylda á þessum aðilum að upplýsa tollstjóra um magn birgða og greiða af þeim olíugjald í samræmi við ákvæði laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., ef birgðirnar eru meiri en 1.500 lítrar. Gjalddagi olíugjalds samkvæmt þessari málsgrein er 15. ágúst 2005.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 3/1987,
um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru í fyrsta lagi ákvæði um hvernig uppgjöri þungaskatts af ökutækjum með ökumæli skuli hagað þegar lög um olíugjald taka gildi 1. júlí nk. Í öðru lagi eru í frumvarpinu ákvæði um að aðilar veiti upplýsingar um magn olíubirgða þegar lögin um olíugjaldið ganga í gildi. Lögfesting frumvarpsins ætti ekki að hafa í för með sér teljandi kostnað fyrir ríkissjóð.