Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 658. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1091  —  658. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar um Gini-stuðul fyrir ráðstöfunartekjur hjóna og sambúðarfólks.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver hefði Gini-stuðull fyrir ráðstöfunartekjur hjóna og sambúðarfólks, ásamt fjármagnstekjum, verið árið 2003, miðað við óbreyttar tekjur og óbreytt vinnuframboð:
     a.      ef nýsamþykktar tekjuskattsbreytingar sem koma eiga til framkvæmda á kjörtímabilinu hefðu verið í gildi árið 2003,
     b.      ef jafnmiklum fjármunum og áætlað er að fari í nýsamþykktar tekjuskattsbreytingar hefði verið varið til að hækka persónuafslátt?


    Í svari við fyrirspurn í janúar sl. um Gini-stuðul fyrir ráðstöfunartekjur hjóna og sambúðarfólks fylgdi útreikningur fyrir árin 1995–2003. Sá útreikningur er í samræmi við það sem Þjóðhagsstofnun hafði áður reiknað á grundvelli sögulegra gagna. Lítil óvissa er tengd slíkum útreikningum. Jafnframt er slíkur útreikningur í samræmi við viðteknar alþjóðlegar mælingar.
    Nú er beðið um mat á tekjudreifingu á grundvelli tilbúinna dæma um skattabreytingar sem er verulegt frávik frá mælingum á grundvelli raunverulegra hagstærða. Þá eru ýmsar afmarkandi forsendur gefnar í þeim tilgangi að einfalda útreikningana, en sem gera þá um leið mun óraunhæfari. Beðið er um útreikinga á grundvelli þess að allar skattabreytingar eigi sér stað á einu ári og að miðað sé við að tekjur og vinnuframboð haldist óbreytt. Viðbúið er að niðurstöðurnar verði ekki raunhæfar. Þar kemur tvennt til. Ekki er tekið tillit til áhrifa af hækkun persónuafsláttar eða lækkun tekjuskatts á vinnuframboð og þar af leiðandi á ráðstöfunartekjurnar og sparnað heimilanna sem hefur síðan varanleg áhrif á fjármagnstekjur. Að auki er viðbúið að áhrif svo veigamikilla breytinga komi fram á mörgum árum. Þá fylgir slíkum útreikningum mikil óvissa. Jafnvel þótt mikil vinna væri lögð í þá yrði erfitt að eyða þeirri óvissu.
    Með hliðsjón af fyrrgreindu telur ráðuneytið ekki gerlegt að veita frekara svar við fyrirspurninni.