Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 745. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1110  —  745. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um atvinnulíf í litlum samfélögum.

Flm.: Katrín Ásgrímsdóttir, Birkir J. Jónsson.



    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að skipa breiðan faghóp sem geri tillögu að ítarlegri áætlun til lausnar þess vanda sem skapast þegar stórir vinnustaðir í litlum samfélögum hætta starfsemi.

Greinargerð.


    Sú staða kemur af og til upp að vinnustaðir sem veita stórum hluta íbúa lítilla samfélaga viðurværi hætta starfsemi. Líklegt má telja að slík staða eigi eftir að koma upp í framtíðinni í minni samfélögum, ekki síst sjávarbyggðum, og er hún í vissum tilfellum óhjákvæmilegur fylgifiskur hagræðingar í grunnatvinnugreinum þjóðarinnar. Mikilvægt er að bregðast með mjög ákveðnum og skipulögðum hætti við slíkri stöðu þannig að íbúar minni samfélaga geti gengið að því vísu að við taki samræmd áætlun þegar fótunum er kippt undan grunnatvinnuvegi viðkomandi samfélags.
    Hér á landi hefur við slíkar aðstæður verið gripið til aðgerða af hálfu iðnaðarráðherra og heimamanna. Úrræðin hafa verið mismunandi á milli staða og sums staðar hefur tekist ágætlega til. Víða í nágrannalöndunum hefur slík staða einnig komið upp og finna má mjög góð dæmi þar sem tekist hefur að byggja upp ný tækifæri með endurmenntun starfsmanna og með samstilltu átaki ríkis og mennta- og rannsóknastofnana. Mikilvægt er að tekið verði á sama hátt á málum hér. Ætla má að með samhæfðu, fyrir fram skipulögðu ferli megi ná enn betri árangri hérlendis. Það gæti bæði tryggt lífsgrundvöll fólks í minni samfélögum út um land betur en nú er og einnig betri sátt um grunnatvinnuvegina.