Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 563. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1147  —  563. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Ágústs Ólafs Ágústssonar um Innu – upplýsingakerfi fyrir framhaldsskóla.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er heildarkostnaður við Innu – upplýsingakerfi fyrir framhaldsskóla?
     2.      Hver er árlegur kostnaður við kerfið og endurbætur þess og hver er áætlaður rekstrarkostnaður kerfisins næstu árin?
     3.      Hver sér um rekstur kerfisins, var verkið boðið út og til hve langs tíma var samið um rekstur þess?
     4.      Hver er greiðsluþátttaka framhaldsskólanna í kerfinu og hvert renna þær greiðslur?
     5.      Er framhaldsskólum skylt að vera hluti af þessu kerfi? Hafa einhverjir framhaldsskólar komist hjá því að vera í kerfinu og ef svo er, hvaða skólar eru það?
     6.      Vinnur menntamálaráðuneytið einhverjar upplýsingar úr kerfinu og ef svo er, hvaða upplýsingar?

    Inna á uppruna sinn að rekja til óska framhaldsskóla um samræmt upplýsingakerfi sem uppfyllti nútímakröfur vegna stjórnunar framhaldsskóla, veitti gott aðgengi fyrir nemendur og kennara að upplýsingum og tryggði öryggi gagna. Að frumkvæði nokkurra framhaldsskóla var unnin kröfulýsing sem ráðuneytið tók við og lét, í samráði við fulltrúa framhaldsskóla, þróa í lýsingu á kerfi sem hentaði öllum framhaldsskólum. Kerfið var tekið í notkun árið 2001 og hefur þróun þess síðan verið í höndum stjórnar Innu sem er skipuð fulltrúum framhaldsskóla. Stjórn Innu hefur yfirumsjón með rekstri og þróun kerfisins.
    Stofnkostnaður við smíði við Innu var 40 millj. kr. Rekstrarkostnaður árin 2001–2004 nemur um 90 millj. kr.
    Kostnaður við rekstur og þróun Innu var 39 millj. kr. árið 2004 og er áætlað að sá kostnaður haldist stöðugur næstu árin.
    Skýrr hf. sér um rekstur Innu. Samið var við Skýrr um rekstur kerfisins á grundvelli tilboðs félagsins í smíði og rekstur þess að undangengnu útboði á vegum Ríkiskaupa. Samningar um rekstur kerfisins renna út um mitt ár 2006.
    Menntamálaráðuneytið greiddi stofnkostnað kerfisins en framhaldsskólar greiða fyrir rekstur þess. Ráðuneytið stendur straum af kostnaði við breytingar á kerfinu sem gerðar eru að ósk þess. Greiðsluhlutdeild framhaldsskóla ræðst af stærð þeirra. Greiðslur vegna reksturs Innu renna til Skýrr hf. en ráðuneytið hefur milligöngu um innheimtu þeirra.
    Ráðuneytið mæltist til þess á sínum tíma að allir framhaldsskólar tækju þátt í Innu. Allir framhaldsskólar nema Verslunarskóli Íslands eru nú hluti af kerfinu.
    Menntamálaráðuneytið hefur ekki haft aðgang að gögnum úr kerfinu og því ekki sjálft unnið upplýsingar úr því. Skýrr hefur unnið lista fyrir ráðuneytið úr Innu um áfanga sem kenndir eru í framhaldsskólum. Ráðuneytið hefur nú til skoðunar að vinna frekari upplýsingar úr kerfinu.