Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 739. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1157  —  739. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um flutning fíkniefnaleitarhunda milli Norðurlandanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur verið kannað hvort unnt er að gera starfsmönnum með fíkniefnaleitarhunda kleift að fara á mót á Norðurlöndum, þar sem slíkir hundar eru m.a. þjálfaðir, og hvort hægt væri að halda þess háttar mót hérlendis?
     2.      Hvernig er farið með þessi mál annars staðar á Norðurlöndum?


    Aflað var upplýsinga hjá embætti ríkislögreglustjóra vegna fyrirspurnarinnar. Í svörum frá embættinu kemur fram að því hafi ekki borist erindi með beiðnum af þessu tagi. Embætti ríkislögreglustjóra hefur tekið upp það fyrirkomulag varðandi þjálfun fíkniefnaleitarhunda lögreglu að fá hingað til lands sérfræðing norsku tollgæslunnar til að sjá um þjálfun þeirra og próf. Það er gert í samstarfi við sýslumanninn á Keflavíkurflugvelli og tollstjórann í Reykjavík sem einnig halda úti fíkniefnaleitarhundum og hafa notað þetta þjálfunarkerfi um nokkurt skeið. Þetta hefur gefist ákaflega vel og vegna þjálfunar þarf ekki að senda fíkniefnaleitarhund til annarra landa. Áhersla lögreglunnar er nú að efla þjálfun hunda og hundaþjálfara á næstu missirum.
    Í þessu sambandi þarf að hafa í huga lög nr. 54/1990, um innflutning dýra, og reglugerð nr. 935/2004, um innflutning gæludýra og hundasæðis. Ef farið væri með fíkniefnaleitarhund til annarra landa þyrfti að setja hann í 28 daga sóttkví við heimkomuna. Á þeim tíma er hvorki hægt að nota hundinn til leita né þjálfa hann. Enn fremur yrði hann innilokaður allan tímann, sem ekki getur talist góð meðferð á hundi sem vanur er mikilli hreyfingu.
    Fyrir komu hunds til landsins þarf jafnframt að bólusetja hann gegn ýmsum sjúkdómum og í sumum tilvikum alllöngu áður. Sumar bólusetningar eru ekki gerðar hér á landi, t.d. gegn hundafári.
    Efnt er til Norðurlandamóta í fíkniefnaleit og taka þátt í þeim hundar frá löndum þar sem aðrar og vægari reglur gilda um flutning dýra á milli landa.
    Gott ástand er hér á landi varðandi dýrasjúkdóma og sumir þeirra óþekktir, t.d. hundafár. Því gilda strangar reglur í þessum efnum. Nokkur bið kann að vera eftir sóttkví fyrir hunda í Hrísey.
    Eins og að framan er lýst er þátttaka fíkniefnaleitarhunda frá Íslandi á erlendum mótum alls ekki einföld í framkvæmd og í reynd illframkvæmanleg. Þannig gæti hundur sem færi héðan á slíkt mót þurft að dvelja erlendis í nokkurn tíma fyrir komu til landsins og síðan að fara í sóttkví við heimkomuna. Gera má ráð fyrir að ekki yrði hægt að nota hundinn til fíkniefnaleitar hér á landi í 2–3 mánuði eftir slíkt mót.