Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 635. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1182  —  635. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar um kynningu á íslenska kvótakerfinu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað vörðu íslensk stjórnvöld miklum fjármunum árin 1999–2004 til kynningar á íslenska kvótakerfinu, annars vegar utan lands og hins vegar innan lands, reiknað á núvirði?

    Ráðherra og starfsmenn sjávarútvegsráðuneytisins nota öll tækifæri sem gefast til að kynna fiskveiðistjórnarkerfið fyrir þeim sem hafa áhuga á stjórn fiskveiða. Ráðuneytið hefur hins vegar ekki efnt til sérstaks átaks eða verkefnis til að kynna íslenska kvótakerfið, hvorki innan lands né utan.
    Ráðuneytið reynir eftir megni að veita víðtækar upplýsingar um íslenskan sjávarútveg. Á heimasíðu þess og í bæklingi ráðuneytisins Close to the Sea er að finna upplýsingar um kvótakerfið ásamt umfangsmiklum upplýsingum um aðra þætti er varða sjávarútveg. Einnig berast ráðuneytinu stundum óskir um erindi um íslenska fiskveiðistjórn á einstökum ráðstefnum eða fundum og hefur oft verið orðið við þeim. Þar sem upplýsingar um fiskveiðistjórnarkerfið eru aðeins hluti af almennri upplýsingagjöf sem fellur undir starfsemi ráðuneytisins er ógerlegt að aðgreina kostnað vegna þessa í bókhaldi. Þó er óhætt að fullyrða að kostnaður við þennan þátt í starfsemi ráðuneytsins er ekki stórvægilegur.