Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 792. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1225  —  792. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Flm.: Una María Óskarsdóttir.



1. gr.

    Við 25. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Foreldrar eða forráðamenn geta tryggt sér rétt til slysabóta vegna íþróttaiðkunar barna og unglinga yngri en 16 ára með því að skrá í skattframtal í byrjun hvers árs ósk þar að lútandi.
         

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að foreldrar eða forráðamenn geti tryggt sér rétt til slysabóta vegna íþróttaiðkunar barna sinna og unglinga yngri en 16 ára með því að skrá í skattframtal í byrjun hvers árs ósk þar að lútandi.
    Skipulögð íþróttastarfsemi hinna margvíslegu íþróttafélaga eflist sem betur fer ár frá ári. Rannsóknir, bæði hér á landi sem erlendis, bera þess glöggt vitni að ástundun íþrótta hefur mikil og góð áhrif á almenna velferð og vellíðan fólks. Hin síðari ár hefur í ríkari mæli verið lögð áhersla á að börn byrji snemma að stunda hreyfingu. Boðið er upp á ungbarnasund, alhliða íþróttaskóla, fimleikaskóla, knattspyrnuskóla, dansskóla og fleira. Þeim foreldrum og uppalendum hefur fjölgað sem kjósa að kynna iðkun íþrótta fyrir ungum börnum sínum. Lengi býr að fyrstu gerð, segir máltækið, og það skiptir svo sannarlega miklu máli að allir kynnist snemma á lífsleiðinni hegðun og viðhorfum sem geta haft góð áhrif á þátttöku þeirra í samfélaginu.
    Í lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, er m.a. kveðið á um tryggingar einstaklinga vegna slysa sem eiga sér stað við vinnu, iðnnám, björgunarstörf og hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar og íþróttakeppni og er miðað við að bótaskylt slys valdi sjúkleika og vinnutjóni í minnst tíu daga. Þá er í e-lið 1. mgr. 24. gr. laganna fjallað nánar um slysatryggingar íþróttafólks og segir þar að slysatryggðir séu íþróttafólk sem tekur þátt í íþróttaiðkunum, hvort heldur er æfingum, sýningum eða keppni og er orðið 16 ára.
    Bætur almannatrygginga vegna slysa eru vinnuslysatryggingar og felast í sjúkrahjálp, dagpeningum, örorkubótum og dánarbótum. Meðal annars greiðir slysatrygging að fullu alla nauðsynlega læknishjálp, lyfjakostnað, tannviðgerðir, hjálpartæki, sjúkraflutninga, sjúkraþjálfun og orkulækningar. Þá er heimilt að greiða hjúkrun í heimahúsum, ferðakostnað o.fl. Ef slys veldur varanlegri örorku sem er 10% eða meiri á sá sem slasast rétt á örorkulífeyri eða örorkubótum.
    Það hefur vakið athygli að börn sem stunda íþróttir og hafa ekki náð 16 ára aldri njóta ekki verndar slysatryggingar almannatrygginga eins og þau sem eldri eru og uppfylla skilyrði laganna um vinnutap. Þannig ættu þau eða foreldrar þeirra ekki rétt á þeim bótum sem tilgreindar eru hér að framan vegna íþróttaslyss þó að um vinnutap foreldra og útlagðan kostnað vegna slysanna geti verið að ræða. Framangreind lagaregla kom inn í almannatryggingalög árið 1975 og er því 30 ára gömul. Ætla má að þegar reglan var lögfest hafi íþróttaiðkun barna og unglinga ekki verið orðin eins almenn og nú.
    Samkvæmt skráningu slysa hjá Slysaskrá Íslands (http://landlaeknir.is) hefur íþróttaslysum barna á aldrinum 0–14 ára farið fjölgandi. Skráningin nær ekki til landsins alls, en m.a. hefur verið stuðst við skráningu frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Upplýsingar úr Slysaskrá Íslands eiga því að gefa ákveðna og raunsæja vísbendingu um tíðni íþróttaslysa þessa aldurshóps. Formleg skráning í Slysaskrá Íslands hófst árið 2002, en þá lentu 244 drengir og 189 stúlkur í íþróttaslysum, árið 2003 lentu 440 drengir og 325 stúlkur í íþróttaslysum og árið 2004 lentu 480 drengir og 374 stúlkur á aldrinum 0–14 ára í slysum í íþróttum. Aukning slysa á milli ára er sláandi.
    Aukin þátttaka barna í skipulögðu íþróttastarfi kallar á breyttar reglur. Það er því mjög brýnt að lög um almannatryggingar nái til íþróttaslysa barna og unglinga sem eru ekki orðin 16 ára gömul. Leggur flutningsmaður því til að unnt verði að óska eftir því við gerð skattframtals í byrjun hvers árs að þeir sem eiga börn eða unglinga yngri en 16 ára geti tryggt sér rétt til slysabóta vegna íþróttaiðkunar barna sinna og unglinga með því að skrá í skattframtal í byrjun hvers árs ósk þar að lútandi, eins og þeir sem stunda heimilisstörf geta gert óski þeir eftir slysatryggingu við heimilisstörf.