Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 796. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1240  —  796. mál.




Skýrsla



samgönguráðherra um störf rannsóknarnefndar sjóslysa fyrir árið 2004.

(Lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



    Samgönguráðherra skipar rannsóknarnefnd sjóslysa í samræmi við lög um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000. Nefndarmenn og varamenn þeirra eru skipaðir til fjögurra ára í senn.
    Hinn 31. ágúst 2004 lauk skipunartíma nefndarinnar og voru sömu menn skipaðir til fjögurra ára.
    Nefndin var í byrjun árs þannig skipuð: Ingi Tryggvason héraðsdómslögmaður, formaður, Agnar Erlingsson skipaverkfræðingur, Hilmar Snorrason, skipstjóri og skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, Pétur Ágústsson skipstjóri og Pálmi K. Jónsson vélfræðingur.
    Eftirtaldir aðilar voru skipaðir varamenn fyrir sama tímabil: Lárentsínus Kristjánsson hæstaréttarlögmaður, varaformaður, Karl Lúðvíksson skipatæknifræðingur, Júlíus Skúlason skipstjóri, Rúnar Pétursson vélfræðingur og Símon Már Sturluson, skipstjóri og útgerðarmaður.
    Starfsmenn eru Jón A. Ingólfsson, sem er framkvæmdastjóri nefndarinnar, og Guðmundur Lárusson fulltrúi.
    Fjárveiting til nefndarinnar í fjárlögum ársins 2004 var 31,9 millj. kr. Á árunum 1995– 2004 var kostnaður vegna starfsemi nefndarinnar sem hér segir – tölur eru á verðlagi hvers árs en sambærilegar þar eð á árinu 2002 hefur verið tekið tillit til óreglulegs 8,4 millj. kr. kostnaðar vegna flutnings á starfsemi nefndarinnar út á land.

1995 8.707.209 kr.
1996 8.756.513 kr.
1997 11.555.170 kr.
1998 16.204.272 kr.
1999 14.914.467 kr.
2000 17.659.880 kr.
2001 20.662.317 kr.
2002 24.791.935 kr.
2003 32.367.836 kr.
2004 31.794.084 kr.

    Vefsíða rannsóknarnefndar sjóslysa, rns.is, var formlega opnuð á starfsstöð nefndarinnar í Stykkishólmi 23. september 2004. Samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, opnaði síðuna að viðstöddum um 50 manns enda um merkilegan áfanga að ræða í starfi rannsóknarnefndar sjóslysa. Menn binda miklar vonir við að hin nýja vefsíða eigi eftir að koma að miklu gagni í starfi nefndarinnar. Lokaskýrslur nefndarinnar birtast nú á vefnum jafnóðum og þær eru afgreiddar, auk þess sem hægt er að sjá hvaða mál hafa verið skráð og eru óafgreidd.
    Tilkynningar og skráning á málum hafa ekki verið fleiri frá upphafi starfsemi nefndarinnar. Árið 2004 voru 152 mál skráð hjá nefndinni, en meðaltal sl. tíu ára er um 117 mál á ári. Það merkir þó ekki að slys hafi verið fleiri heldur er um að ræða betri og skilvirkari tilkynningar frá ýmsum aðilum til nefndarinnar og má þar nefna lögregluembættin, Landhelgisgæslu Íslands og vaktstöð siglinga. Nefndin hefur undanfarin ár verið með sérstakt kynningarátak sem greinilega hefur skilað árangri. Á árinu var vinna hafin við að gera kynningarbækling um rannsóknarnefnd sjóslysa og verður hann gefinn út á árinu 2005.
    Eins og fram kemur í töflu I fjölgar málum nefndarinnar á milli áranna 2003 og 2004 úr 136 í 151, um rúmlega 10%.
    Þrjú dauðsföll voru á árinu, eitt þegar bátsverji fór útbyrðis með veiðarfærum og drukknaði og annað þegar maður fannst látinn í sjó, drukknaður, við bát sinn í höfn. Þá lést annar skipverja á kanadískri skútu sem sökk á Faxaflóa vegna leka af ókunnum orsökum, hinum var bjargað. Það mál er ekki í töflu I.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eins og fram kemur í töflunni er talsverð fjölgun á málum þegar skip sökkva, stranda eða leki kemur að skipum. Í sex tilfellum af ellefu þegar bátar hafa sokkið var um að ræða óvæntan leka í vélarúmi. Önnur tilfelli þegar skip hafa sokkið eru vegna strands, elds eða annarra ástæðna. Nefndin hefur haft sérstakar áhyggjur af tíðum lekavandamálum í skipum sem menn verða oft ekki varir við fyrr en allt er um seinan. Nefndin hefur því gert tillögu í öryggisátt um lekaaðvörun í öll skip og er Siglingastofnun Íslands með það mál til úrvinnslu.
    Á árinu hafa verið haldnir átta fundir og 116 mál hafa verið afgreidd með lokaskýrslu (nefndaráliti), ekki ályktað í 74 málum og skilað inn til Siglingastofnunar 16 tillögum í öryggisátt. Um áramótin 2004/2005 var eftir að vinna um 30 mál sem skráð hafa verið hjá nefndinni.
    Á árinu var gefin út prentuð skýrsla rannsóknarnefndarinnar fyrir árin 2000 og 2001. Hingað til hafa skýrslurnar verið gefnar út þegar öll mál frá viðkomandi ári hafa verið afgreidd, þannig að ávallt hafa þær verið að koma út nokkrum árum eftir að slys verður og tekið til slysa hvers árs fyrir sig. En áform eru uppi um að breyta því sem fyrst og gefa þær út árlega og þær taki þá til þeirra mála sem hafa verið afgreidd á viðkomandi ári, en miðist ekki við tilkynnt slys á árinu. Skýrslurnar fyrir 2000 og 2001 voru að þessu sinni gefnar út í einni bók, en í nýju broti og með breyttu sniði. Í fyrsta skipti voru þær gefnar út í stækkuðu broti og er það von nefndarinnar að það mælist vel fyrir. Skýrslur fyrir árin 2002 og 2003 hafa verið í vinnslu og verða gefnar út á árinu 2005 með sama sniði. Á árinu 2006 verði skýrslur fyrir 2004 og 2005 gefnar út saman og eftir það, þ.e. frá og með árinu 2007, verði svo komið að ársskýrslur verði gefnar út fyrir hvert ár fyrir sig.
    Dagana 4.–8. október 2004 sótti framkvæmdastjóri árlegan fund hjá MAIIF (Marine Accident Investigators International Forum) í Höfðaborg í Afríku. Fundinn sóttu í þetta sinn 56 aðilar frá 35 löndum. Mikil umræða var um mikilvægi góðra og persónulegra tengsla rannsóknaraðila í rannsóknum sjóslysa á tímum þar sem umhverfis- og öryggismál eru alltaf að verða flóknari. Með þessum félagsskap er rutt úr vegi mörgum hindrunum rannsóknaraðila í alþjóðaumhverfi siglinga. Á fundinum kynntu allir aðilar stöðu mála í sínum löndum á síðasta ári, auk þess að segja frá atvikum sem voru talin eiga sérstakt erindi til ráðstefnugesta. Ýmis vandamál voru rædd, t.d. rannsóknir á atvikum þar sem fánaríki skips er annað en viðkomandi strandríki. Þar kemur helst til traust almennings á erlendri rannsókn, kostnaður við rannsóknir eftir að ákvörðun er tekin um hver stjórni rannsókn o.s.frv.
    Á árinu var hafin vinna við tengingu nefndarinnar við gæða- og boðunarkerfi 112 (Neyðarlínuna) og vaktstöð siglinga vegna atvika sem tengjast bátum, skipum (laus för) og köfun í sjó eða vötnum.
    Eins og á undanförnum árum kemur aðeins hluti þeirra mála er varða slys á sjómönnum til nefndarinnar miðað við tilkynnt slys til Tryggingastofnunar ríkisins (TR). En eins og áður hefur komið fram hefur hlutfall tilkynntra slysa til hennar verið að hækka og á árinu 2004 fékk nefndin til sín um 30% af tilkynntum slysum til TR. Á tíu ára tímabili á undan var meðaltalið um 17%. Markmið nefndarinnar er að ná til sín og skrá öll atvik enda skylda allra aðila að tilkynna öll óhöpp og slys á sjó til nefndarinnar.
    Tafla II sýnir fjölda bótaskyldra slysa samkvæmt tilkynningum til TR frá árinu 1995 til 2004. Eins og þar sést voru tilkynnt slys á sjómönnum til stofnunarinnar 311 á árinu 2004 og eru það talsvert færri slys en á árinu áður en þá voru þau 350. Meðaltal tilkynntra slysa til TR undanfarin tíu ár eru 397.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.