Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 763. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1337  —  763. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ástu Möller um rekstur vínveitingastaða.

     1.      Hvaða leyfa, vottorða og trygginga þurfa eigendur vínveitingastaða að afla sér áður en þeir hefja starfsemi og til hvaða aðila þurfa þeir að leita í þessu sambandi?
    Þau leyfi sem þarf til að reka vínveitingastað og heyra undir málaflokka dómsmálaráðuneytisins eru leyfi til áfengisveitinga samkvæmt áfengislögum, nr. 75/1998, og til þess að hafa viðkomandi veitingastað opinn lengur en til kl. 23.30 þarf skemmtanaleyfi samkvæmt reglugerð nr. 587/1987, um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum.
    Í 13.–14. gr. áfengislaga og 7.–8. gr. reglugerðar nr. 177/1999, um smásölu og veitingar áfengis, eru talin upp þau skilyrði sem umsækjendur um leyfi til áfengisveitinga þurfa að uppfylla. Sækja skal um leyfi til sveitarstjórnar í viðkomandi sveitarfélagi og verður leyfi einungis veitt þeim sem hefur gilt veitingaleyfi samkvæmt lögum um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985. Áður en leyfi er veitt skal sveitarstjórn afla umsagnar heilbrigðisnefndar sem metur innréttingu og annað svipmót veitingarekstrar.
    Einnig skal sveitarstjórn leita álits viðkomandi byggingar- og skipulagsnefnda og lögreglustjóra. Þá skal umsækjandi setja tryggingu fyrir greiðslu krafna á hendur honum ef til gjaldþrotaskipta eða rekstrarstöðvunar kemur. Upphæð og skilmálar tryggingarinnar eru ákveðin í reglugerð nr. 177/1999. Trygging getur verið fólgin í ábyrgð viðskiptabanka eða sparisjóðs, eða öðrum sambærilegum tryggingum. Vátryggingarfjárhæðir eru 500.000 kr. fyrir veitingastað með leyfðan fjölda gesta 100 eða færri, en getur verið að hámarki 3.000.000 kr. fyrir veitingastað með fjölda gesta 1.001 eða fleiri.
    Önnur leyfi ótalin eru:
    Starfsleyfi samkvæmt lögum um matvæli, nr. 93/1995, og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, en heilbrigðisnefndir gefa út slík leyfi til framleiðslu og dreifingar á matvælum.
    Hafi veitingamaður í hyggju að selja tóbak þarf tóbakssöluleyfi, sem heilbrigðisnefnd gefur út skv. 8. gr. laga um tóbaksvarnir, nr. 6/2002.
    Samkvæmt 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, þarf byggingarleyfi sveitarstjórnar, er byggja á húsnæði sem hýsa á veitingarekstur, breyta því, formi þess, svipmóti eða notkun.

     2.      Eru hugmyndir uppi innan dómsmálaráðuneytisins um að einfalda skilyrði til starfrækslu vínveitingastaða?
    Starfshópi á vegum umhverfisráðuneytisins hefur verið falið að gera tillögur um hvernig leyfisútgáfu fyrir veitingahús og áfengisveitingahús verði best háttað. Af hálfu dómsmálaráðuneytis er þar lögð áhersla á einföldun slíkrar leyfisútgáfu í eitt leyfi, sem innihéldi starfsleyfi, sem nú er gefið út af heilbrigðiseftirliti, veitingaleyfi sem lögreglustjóri gefur út og áfengisveitingaleyfi sem sveitarstjórn gefur út. Utan þessa er skemmtanaleyfi gefið út af lögreglustjóra.
    Í starfshópnum eru fulltrúar þriggja ráðuneyta, umhverfisráðuneytis vegna heilbrigðiseftirlits og starfsleyfa samkvæmt ákvæðum laga um matvæli, samgönguráðuneytis vegna laga um veitinga- og gististaði og leyfa samkvæmt þeim lögum og dómsmálaráðuneytis vegna áfengislaga og leyfa til áfengisveitinga. Tillögur liggja ekki fyrir en vinna starfshópsins mun vera langt komin.