Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 787. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1384  —  787. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um eignatengsl og hagsmunaárekstra hjá viðskiptabönkum.

    Ráðuneytið leitaði liðsinnis Fjármálaeftirlitsins við öflun upplýsinga vegna fyrirspurnarinnar.

     1.      Telur ráðherra rétt að takmarka þann tíma sem viðskiptabankar geta átt eignarhlut í óskyldum fyrirtækjarekstri og er ráðherra tilbúinn til að beita sér fyrir lögum þar að lútandi?
    Í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, er tilgreint til hvaða þátta starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða getur tekið til. Í 21. og 22. gr. laganna eru ákvæði um aðra þjónustustarfsemi, hliðarstarfsemi, tímabundna starfsemi og yfirtöku eigna viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánafyrirtækja. Í lögunum eru settar ákveðnar skorður við þátttöku lánastofnana í óskyldum atvinnurekstri, m.a. er aðeins gert ráð fyrir tímabundinni þátttöku þeirra í óskyldum atvinnurekstri, í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum eða til að endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila.
    Ekki er komin mjög löng reynsla á lög þessi né á leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2004 sem Fjármálaeftirlitið setti á síðasta ári um þátttöku viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja í atvinnustarfsemi og starfsheimildir þeirra samkvæmt fyrrnefndum greinum laga um fjármálafyrirtæki. Í tilmælunum eru settar fram kröfur um skýrsluskil til stjórnar viðkomandi fyrirtækis og Fjármálaeftirlitsins um starfsemi samkvæmt ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki. Það er mat Fjármálaeftirlitsins að ekki sé komin sú reynsla af skýrsluskilunum að unnt sé að fullyrða að upplýsingar samkvæmt þeim gefi fullnægjandi mynd af þessari starfsemi. Undir það mat tekur viðskiptaráðuneytið og telur rétt að fá heildstæðari mynd af starfseminni áður en mögulega verður gripið til frekari lagasetninga. Þá telur ráðuneytið mjög mikilvægt að íslensk löggjöf endurspegli alþjóðleg lög þannig að íslenskum fyrirtækjum séu búin sambærileg starfsskilyrði og gerist hjá þeim þjóðum sem við miðum okkur mest við, með öðrum orðum að Íslendingar búi ekki fyrirtækjum þrengri starfsramma en gerist hjá samkeppnisþjóðum okkar.

     2.      Er hægt að fá fram upplýsingar um hver eignarhlutur viðskiptabanka í óskyldum rekstri er mikill skipt eftir atvinnugreinum eða vísbendingu um hversu stór þáttur óskyldur fyrirtækjarekstur er í umsvifum bankanna innlendum og erlendum?
    Eins og fram kemur hér að framan setti Fjármálaeftirlitið á síðasta ári leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2004 um þátttöku viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja í atvinnustarfsemi og starfsheimildir þeirra skv. 20.–22. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Í tilmælunum eru settar fram kröfur um skýrsluskil til stjórnar viðkomandi fyrirtækis og Fjármálaeftirlitsins um starfsemi skv. 2. mgr. 21. gr. og 22. gr. laga nr. 161/2002, en þar er kveðið á um hliðarstarfsemi og tímabundna starfsemi viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja. Skýrslurnar taka til samstæðu.
    Fjármálaeftirlitið hefur tvisvar innheimt skýrslur samkvæmt framangreindum leiðbeinandi tilmælum. Tekur Fjármálaeftirlitið fram að ekki sé komin sú reynsla af skýrsluskilunum að unnt sé að fullyrða að upplýsingar samkvæmt þeim gefi fullnægjandi mynd af þessari starfsemi. Fjármálaeftirlitið hefur til athugunar hvort skýrslugjöf einstakra fyrirtækja sé fullnægjandi. Þá ber einnig að taka fram að framangreindar skýrslur gefa ekki heildarmynd af hlutabréfaeign viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja (lánastofnana) í fyrirtækjum í óskyldum rekstri þar sem viðskipti með smærri eignarhluti geta verið liður í reglulegri starfsemi lánastofnana sem ekki fellur undir ákvæði 21. og 22. gr. laganna.
    Samkvæmt yfirlitum frá 31. desember 2004 nemur eignarhlutur eða þátttaka í atvinnurekstri lánastofnana, sem grundvölluð er á 2. mgr. 21. og 22. gr. laganna, samtals 24 ma.kr. Í 60% tilfella hefur tímabundin starfsemi staðið lengur en 18 mánuði en í 40% tilfella í skemmri tíma. Efnahagsreikningur lánastofnana var um síðustu áramót um það bil 3.400 ma. kr. Þátttaka í atvinnurekstri á grundvelli framangreindra ákvæða er því um 0,7% af heildarefnahag lánastofnana um síðustu áramót.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar í ráðuneytinu um sundurliðun fyrrgreindra talna eftir atvinnugreinum.

     3.      Hefur Fjármálaeftirlitið gert athugasemdir við viðskiptabankana um að starfsemi þeirra skv. 21.–23. gr. laga um fjármálafyrirtæki feli í sér hagsmunaárekstra eða gangi gegn ákvæðum laga og reglna sem um slíka starfsemi gilda?
     4.      Hvernig hafa viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki uppfyllt 22. gr. laga um fjármálafyrirtæki um tímabundna heimild til að stunda starfsemi í óskyldum fyrirtækjarekstri, hve oft hefur Fjármálaeftirlitið gert athugasemdir við slíka starfsemi og í hve mörgum tilvikum hefur hún staðið í meira en 18 mánuði og þá hve lengi?

    Fyrrnefnd leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2004 um þátttöku viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja í atvinnustarfssemi og starfsheimildir þeirra skv. 20.–22. gr. laga nr. 161/2002, voru sett með það að markmiði að skerpa á eftirfylgni við viðkomandi ákvæði, þ.e. stuðla að því að lánastofnanir haldi sig innan starfsheimilda sinna í þátttöku í óskyldum atvinnurekstri. Með tilmælunum var brugðist við auknu umfangi í umbreytingafjárfestingum og fjárfestingabankastarfsemi viðkomandi fyrirtækja.
    Í tilmælunum er að finna skýringar og túlkun á 21. og 22. gr. laga nr. 161/2002 og fyrirmæli um undirbúning ákvörðunar um þátttöku í atvinnustarfsemi. Lögð er áhersla á að lagt sé fyrir fram mat á hugsanlega hagsmunaárekstra af fjárfestingu. Enn fremur er kveðið á um verkferla, eftirlit og upplýsingagjöf. Þar sem einungis er liðið tæpt ár frá setningu tilmælanna hefur ekki fengist fullnægjandi reynsla af þeim.
    Eftirlit Fjármálaeftirlitsins beinist að því að safna upplýsingum um starfsemina, taka afstöðu til álitaefna sem rísa við framkvæmd ákvæðanna, fylgjast með því að lánastofnanir fari ekki út fyrir starfsheimildir sínar og stuðla að því að fylgt sé lagafyrirmælum um að starfsemi skuli vera tímabundin. Fjármálaeftirlitið hefur í þessu efni gert athugasemdir við þátttöku lánastofnana í atvinnustarfsemi og krafist úrbóta í ýmsum tilfellum.
    Í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar er vikið að tímalengd atvinnuþátttöku lánastofnana.