Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 769. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1395  —  769. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um stuðning við landbúnað og matvöruverð.

     1.      Hver er afstaða ráðherra til þess að teknar verði upp beinar greiðslur úr ríkissjóði til stuðnings landbúnaði í stað tolla á innfluttar búvörur í því skyni að lækka matvöruverð?
    Nú standa yfir viðræður á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (Doha-lotan) um umbætur í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Með viðræðunum er stefnt að því að draga verulega úr stuðningi við landbúnað í aðildarríkjunum í því augnamiði að skapa aðildarríkjunum sömu samkeppnisskilyrði á heimsmarkaði fyrir landbúnaðarvörur. Sérstaklega er gert ráð fyrir að framleiðslutengdum styrkjum til landbúnaðar verði veruleg takmörk sett. Ekki er ljóst hvernig lotan þróast þó að áherslur hafi verið lagðar í Doha-yfirlýsingunni í Katar árið 2001. Það er þess vegna mat ráðuneytisins að ekki sé tímabært á þessari stundu að taka afstöðu til þess hvort rétt sé að taka upp beinar greiðslur úr ríkissjóði til stuðnings við íslenskan landbúnað í stað tolla í því skyni að lækka matvöruverð.

     2.      Telur ráðherra að ríkisstuðningur verði sýnilegri og fyrirsjáanlegri með beinum greiðslum í stað tolla?
    Ráðuneytið telur ekki forsendur til þess að leggja mat á hvort ríkisstuðningur verði sýnilegri og fyrirsjáanlegri með beinum greiðslum í stað tolla þar sem ekki er ljóst á þessari stundu hvernig reglum um styrki til landbúnaðar verði háttað að lokinni Doha-lotunni.

     3.      Hafa þessi mál verið til skoðunar í ráðuneytinu?
    Ráðuneytið hefur fylgst með Doha-lotunni en tekur hins vegar ekki beinan þátt í viðræðum um landbúnaðarvörur. Viðræðurnar eru undir forustu utanríkisráðuneytisins með þátttöku landbúnaðarráðuneytisins.