Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 781. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1398  —  781. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um lögheimili í sumarbústaðabyggðum.

     1.      Hvaða áhrif telur ráðherra að nýfallinn hæstaréttardómur um lögheimili í frístundabyggð hafi á þjónustuhlutverk sveitarfélaga?
    Það einkennir mál þetta að þar vegast annars vegar á réttur fólks til að nýta eign sína og stjórnarskrárvarinn réttur fólks til að ráða hvar það býr, sbr. 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar, og hins vegar tilgangur skipulags og nauðsyn sveitarfélags til þess að stýra landnotkun og þar með möguleikar þess á að veita íbúum og lögaðilum sem besta þjónustu.
    Samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 14. apríl sl. geta þeir sem hafa fasta búsetu í frístundabyggð skráð lögheimili sitt þar. Um fasta búsetu gildir ákvæði 1. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, en þar segir að maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika
    Mikilvægt er í þessu sambandi að hafa í huga að í dómnum felst ekki að fólk geti valið sér að skrá lögheimili sitt í frístundabyggð og jafnframt átt annað heimili í íbúðarbyggð í öðru sveitarfélagi, heldur er föst búseta í skilningi lögheimilislaga skilyrði fyrir því að hægt sé að skrá sig í frístundabyggð. Eftir því sem Hagstofa Íslands upplýsir er sjaldgæft að fólk hafi fasta búsetu í frístundabyggð. Á hinn bóginn er ljóst að nokkuð er um að fólk líti á frístundahús sem heilsárshús, dvelji þar í öllum sínum frítíma allan ársins hring og stefni jafnvel á fasta búsetu þar í ellinni. Tíminn einn getur skorið úr um hvort dómur Hæstaréttar hafi þau áhrif að fólk sækist meir en áður eftir því að eiga lögheimili sitt í frístundahúsi.
    Skyldur þær sem sveitarfélög bera gagnvart íbúum sínum, atvinnufyrirtækjum, opinberum stofnunum og fleiri aðilum eru margvíslegar og óþarft að rekja hér. Sveitarfélag skipuleggur landnotkun sveitarfélagsins. Um aðgreiningu byggða eftir notkun landsvæða fer eftir skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, og skipulagsreglugerð, nr. 400/1998. Í ýmsum atriðum getur þjónusta sem sveitarfélagið veitir verið mismunandi eftir því hvort um er að ræða íbúðarbyggð, frístundabyggð, svæði fyrir atvinnustarfsemi o.s.frv. Ljóst er því að forræði sveitarfélags í skipulagsmálum er algjör undirstaða þess að sveitarfélag geti veitt þá lögbundnu þjónustu sem við á hverju sinni á þann hátt að hagkvæmt sé.
    Greina má þjónustu sveitarfélaga við íbúa sína í einstaklingsbundna þjónustu annars vegar og almenna þjónustu hins vegar. Dæmi um einstaklingsbundna þjónustu sveitarfélaga við íbúa sína, einstaklinga og fjölskyldur, er grunnskóli, leikskóli, félagsþjónusta sem felur í sér margháttaða þjónustu, svo sem daggæslu barna í heimahúsum, barnavernd, íþróttir og tómstundir, húsaleigubætur, ferðaþjónustu fatlaðra, þjónustu við aldraða o.fl. Almenn þjónusta sveitarfélagsins er fjölbreytt en dæmi eru vatnsveitur, gatnagerð, snjómokstur, sorphirða, brunavarnir, hitaveitur, skólaakstur o.fl.
    Það er athugunarefni hvort íbúar með lögheimili í frístundabyggð eigi kröfu á allri sömu þjónustu og aðrir íbúar sveitarfélags. Telja verður líklegt að flest einstaklingsbundin þjónusta verði ávallt sú sama, en öðru máli kann að gegna um vissar tegundir af almennri þjónustu sveitarfélagsins, svo sem gatnagerð, snjómokstur, sorphirðu og fleira í þá veru sem ekki er venjan að veita í slíkum byggðum. Ekki er kveðið sérstaklega á um þetta í lögum.

     2.      Telur ráðherra að bregðast verði við dómnum með lagabreytingu?

    Eins og áður hefur komið fram getur tíminn einn skorið úr um það hvort dómur Hæstaréttar hafi þau áhrif að fólk muni í auknum mæli sækjast eftir að hafa fasta búsetu í frístundabyggð. Rétt er að benda á í þessu sambandi að samkvæmt lögum um tilkynningu aðsetursskipta hefur sveitarfélag umsagnarrétt um þá sem vilja skrá lögheimili sitt í sveitarfélagi og getur sveitarfélag mótmælt breytingu á lögheimilisskráningu. Það verður því ekki séð að það sé nauðsynlegt að koma með lagabreytingu á vorþingi. Mikilvægt er að íhuga málefni þetta frá öllum hliðum og í samráði við viðkomandi aðila, þ.e. Hagstofu Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, umhverfisráðuneyti og Skipulagsstofnun ríkisins. Sú vinna stendur nú yfir í félagsmálaráðuneyti. Við athugun á öllum hliðum þessa málefnis má ekki missa sjónar á því að skipulag í sveitarfélagi er grundvöllur þess að það geti risið undir þeim kröfum um þjónustu sem gerðar eru til sveitarfélaga.
    Ráðuneytið mun hafa samráð um málið við sveitarfélög, aðra opinbera aðila og samtök sumarbústaðaeigenda. Verði niðurstaðan sú að lagabreytinga sé þörf er gert ráð fyrir að frumvarp verði lagt fram á haustþingi.