Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 655. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1407  —  655. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Steinunnar K. Pétursdóttur um skoðun tölvuleikja.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ráðherra í hyggju að nýta sér heimild í 11. gr. laga nr. 47/1995 og setja reglur um skoðun tölvuleikja? Ef svo er, hvers konar reglur? Ef svo er ekki, hvers vegna?

    Samkvæmt 11. gr. laga nr. 47/1995, um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, er ráðherra heimilað að setja reglur um skoðun tölvuforrita sem hafa að geyma gagnvirka leiki til að tryggja að notkun þeirra sé ekki í ósamræmi við tilgang laganna. Fram til þessa hefur framangreind heimild ekki verið nýtt en í menntamálaráðuneytinu hefur verið unnið að gerð frumvarps um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum, sem ætlað er að leysa af hólmi lög nr. 47/1995. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að núverandi fyrirkomulagi á skoðun kvikmynda verði breytt í veigamiklum atriðum. Eitt nýmælanna sem frumvarpið byggist á er að lögfest verði skylda til að meta eða láta meta tölvuleiki sem framleiddir eru eða dreift er hér á land með sambærilegum hætti og kvikmyndir. Stefnt er að framlagningu frumvarpsins þegar Alþingi kemur saman í haust.
    Framleiðendur tölvuleikja hafa víða komið upp stofnunum sem annast leiðbeinandi mat á því fyrir hvaða aldursflokka einstakir leikir henta. Nær mat þetta alveg niður í þriggja ára aldur og eru leikirnir merktir með merki matsstofnananna. Má af slíkum matsstofnunum nefna ESRB, „Entertainment Software Rating Board“ í Bandaríkjunum, ELSPA, „European Leisure Software Publishers Association“, sem starfar í Bretlandi, og USK – Unterhaltungs software Selbstkontrolle, sem starfar í Þýskalandi. Mjög margir framleiðendur og dreifingaraðilar tölvuleikja eru aðilar að framangreindum samtökum og verður merking frá þessum samtökum að teljast þýðingarmikil leiðbeining fyrir foreldra og aðra kaupendur tölvuleikja.
    Nýverið var tekið upp samevrópskt flokkunarkerfi fyrir tölvuleiki sem ber nafnið PEGI (Pan European Games Information) og eru SMÁÍS, Samtök myndrétthafa á Íslandi, aðilar að því kerfi. PEGI-kerfinu er ætlað að tryggja að ólögráða börn fari ekki í leiki sem eru ekki við hæfi þeirra aldurshóps. Kerfið nýtur stuðnings framleiðenda á leikjatölvum, þar á meðal PlayStation, Xbox og Nintendo, sem og útgefenda og þróunaraðila gagnvirkra leikja um alla Evrópu. Evrópusamtökin um gagnvirkan hugbúnað (Interactive Software Federation of Europe, eða ISFE) þróuðu flokkunarkerfið og reka það í samstarfi við rekstraraðila hollenska skoðunarkerfisins sem heita NICAM. Kerfið nýtur dyggs stuðnings framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem telur það vera fyrirmynd að samhæfingu á sviði barnaverndar í Evrópu.
    Menntamálaráðuneytið hefur átt viðræður við fulltrúa SMÁÍS um hið nýja flokkunarkerfi fyrir tölvuleiki og telur rétt að reynsla komi á notkun þess. Varðandi frekari upplýsingar um flokkunarkerfið vísast til heimasíðu SMÁÍS, www.smais.is, og á heimasíðu PEGI, www.pegi.info. Tekið skal fram að 85–90% af öllum tölvuleikjum sem seldir eru hér á landi er dreift af fyrirtækjum sem eiga aðild að SMÁÍS. Þá hefur SMÁÍS leitað til fyrirtækja utan samtakanna hér á landi um þátttöku í PEGI-flokkunarkerfinu, en framleiðendur þeirra leikja sem dreift er af slíkum fyrirtækjum eru oftar en ekki aðilar að kerfinu.