Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 761. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1432  —  761. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um leyfi til ræktunar á erfðabreyttu byggi.

     1.      Hyggst ráðherra veita frekari leyfi til tilraunaræktunar á erfðabreyttu byggi utan húss samkvæmt reglugerð nr. 493/1997, um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera? Ef svo er, telur ráðherra þörf á að skilyrða ræktunina við takmarkað magn eða svæði?
    Samkvæmt reglugerð um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera, nr. 493 frá 1997, er það Umhverfisstofnun sem fer með leyfisveitingar vegna tilraunaræktunar erfðabreyttra lífvera.
    Umhverfisstofnun þarf að leggja mat á allar slíkar umsóknir sem berast og ef stofnunin telur að umsókn uppfylli ákvæði laga og reglna þar að lútandi, og að fenginni jákvæðri umsögn ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur og Náttúrufræðistofnunar Íslands, veitir hún leyfi til slíkrar ræktunar. Leyfi er ávallt bundið við skilgreint ræktunarsvæði og getur verið takmarkað við ákveðinn tíma. Komi fram nýjar upplýsingar um viðkomandi ræktun, eftir að leyfið hefur verið veitt, hefur stofnunin heimild til þess að afturkalla leyfið.

     2.      Hve lengi má ætla að tilraunaræktun þurfi að standa til að niðurstöður fáist um öryggi ræktunar gagnvart erfðamengun í íslenskri náttúru?
    Nú þegar liggja fyrir niðurstöður í skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands sem benda eindregið til þess að bygg sé mjög afmarkað við þær aðstæður sem ríkja hér á landi. Í skýrslunni segir að dreifing á erfðaefni byggs yfir í villtar tegundir sé óhugsandi hér á landi.

     3.      Til hve langs tíma gilda núverandi leyfi til tilraunaræktunar?
    Leyfi sem veitt var 23. febrúar 2003 gildir fyrir árin 2003–2008. Leyfi sem afgreitt verður í maí 2005 mun væntanlega gilda fyrir árin 2005–2009.

     4.      Mun ráðherra veita leyfi til almennrar ræktunar á erfðabreyttu byggi utan húss eftir að tilraunaræktun lýkur?
    Ákveðinn laga- og reglugerðarrammi gildir fyrir veitingu slíkra leyfa og fer Umhverfisstofnun með framkvæmdina eins og áður hefur komið fram. Ef umsókn uppfyllir ákvæði sem þar eru og áhættumat leiðir í ljós að ekki stafar hætta af erfðabreyttu byggi fyrir menn, aðrar lífverur eða umhverfi má gera ráð fyrir að Umhverfisstofnun veiti slíkt leyfi.




Prentað upp.


     5.      Telur ráðherra að beita eigi mengunarbótareglunni ef bændur eða landeigendur verða fyrir tjóni af erfðaefnum frá ökrum með erfðabreyttum plöntum?
    Samkvæmt 24. gr. í lögum um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996, er skýrt kveðið á um að sá sem ber ábyrgð á afmarkaðri notkun, sleppingu og dreifingu eða markaðssetningu erfðabreyttra lífvera samkvæmt þeim lögum er skaðabótaskyldur vegna tjóns sem af hlýst berist þær út í umhverfið, án tillits til þess hvort tjón verði rakið til saknæms hátternis eða ekki. Þetta ákvæði er í fullu samræmi við mengunarbótaregluna.