Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 643. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1438  —  643. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Ríkisútvarpið sf.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Magnússon, Val Árnason og Jón Vilberg Guðjónsson frá menntamálaráðuneyti, Sigurbjörn Magnússon hrl., Jón Sveinsson hrl., Finn Magnússon hdl., Ara Edwald frá Samtökum atvinnulífsins, Björgu Evu Erlendsdóttur og Önnu Kristínu Jónsdóttur frá Félagi fréttamanna, Markús Örn Antonsson og Þorstein Þorsteinsson frá Ríkisútvarpinu, Margréti Sverrisdóttur og Þorgrím Gestsson frá Hollvinasamtökum Ríkisútvarpsins, Friðbjörn Orra Ketilsson og Gunnlaug Jónsson frá Frjálshyggjufélaginu, Kristínu Atladóttur og Hjálmtý Heiðdal frá Framleiðendafélaginu – SÍK, Ernu Guðmundsdóttur og Gest Jónsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Gísla Tryggvason frá Bandalagi háskólamanna, Arnþrúði Karlsdóttur og Pétur Gunnlaugsson frá Útvarpi Sögu, Magnús Ragnarsson frá Íslenska sjónvarpsfélaginu – Skjá einum, Jóhönnu Margréti Einarsdóttur og Sigríði Margréti Guðmundsdóttur frá Starfsmannasamtökum Ríkisútvarpsins, Stefán Jón Hafstein frá Reykjavíkurborg, Jón Yngva Jóhannsson og Sverri Jakobsson frá Hagþenki, Gunnar Smára Egilsson og Pál Magnússon frá 365 – ljósvakamiðlum, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Hauk Hafsteinsson frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Þorbjörn Broddason, Herdísi Þorgeirsdóttur og Pál Þórhallsson.
    Frumvarpið var sent til umsagnar og bárust umsagnir frá Bandalagi íslenskra leikfélaga, Íslenskri málstöð, Höfundaréttarfélagi Íslands, útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, stjórn Félags fréttamanna, Hollvinum Ríkisútvarpsins, Starfsmannasamtökum Ríkisútvarpsins, Frjálshyggjufélaginu, útvarpsréttarnefnd, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna, Félagi kvikmyndagerðarmanna, Framleiðendafélaginu – SÍK, Hagþenki – félagi höfunda fræðirita og kennslugagna, Íslenska sjónvarpsfélaginu hf. – Skjá einum, Samtökum atvinnulífsins, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Útvarpi Sögu, 365 – ljósvakamiðlum ehf., Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, borgarráði Reykjavíkurborgar, Blaðamannafélagi Íslands og Alþýðusambandi Íslands. Þá bárust nefndinni meiri- og minnihlutaálit frá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.
    Með frumvarpinu er lögð til ný heildarlöggjöf um Ríkisútvarpið. Helstu nýmæli frumvarpsins eru í fyrsta lagi að leggja á niður ríkisstofnunina Ríkisútvarpið og stofna samtímis sameignarfélag um reksturinn. Í öðru lagi er mælt fyrir um afnám afnotagjalda frá og með 1. janúar 2008 og lagt til að rekstur sameignarfélagsins verði eftir það grundvallaður á sérstöku gjaldi, nefskatti, sem lagt verði á einstaklinga og lögaðila, auglýsingatekjum og öðrum tekjum sem Alþingi kann að ákveða sérstaklega. Í þriðja lagi er lagt til að stjórn félagsins verði breytt þannig að útvarpsráð verði lagt niður í núverandi mynd og við taki sérstök rekstrarstjórn sem ræður útvarpsstjóra sem síðan ræður allt annað starfslið félagsins. Auk framangreinds er lagt til að útvarpið taki ekki þátt í rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sbr. 644. mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um Sinfóníuhljómsveit Íslands.
    Í 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins er útvarpsþjónusta í almannaþágu sundurliðuð í 18 liðum. Meiri hlutinn telur 10. og 18. tölul. vera helst til of víðtæka og 16. tölul. óþarfan og leggur því til að þeir verði felldir brott. Þá leggur meiri hlutinn til breytingar á tveimur öðrum töluliðum, annars vegar á 14. tölul. sem lýtur að því að gera ákvæðið markvissara og hins vegar á 15. tölul. sem lýtur að því að breyta skyldu í heimild enda telur meiri hlutinn ekki rétt að félaginu sé gert skylt að hafa til útláns eða sölu valið dagskrárefni sem flutt hefur verið.
    Í 6. gr. er fjallað um þátttöku félagsins í nýrri starfsemi. Meiri hlutinn telur að svo stöddu ekki ástæðu til að veita heimild til starfsemi sem ekki telst beinlínis til útvarpsþjónustu í almannaþágu og leggur því til að greinin verði felld brott, sbr. einnig 2. mgr. 3. gr.
    Þá leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar á 9. gr. Samkvæmt 1. málsl. b-liðar 1. mgr. á starfssvið stjórnar að ná til þess að taka ákvarðanir um lán til þarfa félagsins og taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni. Meiri hlutinn telur orðalagið „að taka ábyrgð á greiðslum“ óheppilegt og leggur því til breytingar til að taka af allan vafa um að ekki sé um að ræða persónulega ábyrgð stjórnarinnar. Samkvæmt c-lið greinarinnar er það á starfssviði stjórnarinnar að taka allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur félagsins, þ.e. ákvarðanir sem ekki falla undir daglegan rekstur. Í síðari málslið c-liðar eru nefnd dæmi um slíkar ákvarðanir og leggur meiri hlutinn til að málsliðurinn verði felldur brott, einkum í ljósi breytingartillögu meiri hlutans um að fella 6. gr. brott. Samkvæmt e-lið heyrir það undir starfssvið stjórnar Ríkisútvarpsins sf. að gefa út reglur um fréttaflutning og auglýsingar í útvarpi, þar á meðal auglýsingatíma, og gæta þess að reglum sé fylgt. Í nokkrum umsögnum var ákvæðið gagnrýnt mjög og talið að slíkt fyrirkomulag mundi vega að sjálfstæði fréttastofa Ríkisútvarpsins. Meiri hlutinn telur ástæðu til að koma til móts við fyrrgreint sjónarmið og leggur til að liðurinn verði felldur brott.
    Í 12. gr. er fjallað um verkefni samkvæmt óskum stjórnvalda. Þar kemur fram að óski stjórnvöld eftir því að Ríkisútvarpið sf. leggi í framkvæmdir eða rekstur til almannaheilla í öryggisskyni fyrir landsmenn eða vegna byggðasjónarmiða, sem ljóst er að ekki skilar arði, skuli gera um það samning milli ríkisstjórnarinnar og Ríkisútvarpsins sf. Við umfjöllun málsins var gerð athugasemd við orðalagið „sem ljóst er að ekki skilar arði“. Þeirri spurningu var velt upp hvort ástæða væri til að gagnálykta frá ákvæðinu þannig að útvarpsþjónusta í almannaþágu ætti að skila arði. Það er skilningur meiri hlutans að svo sé ekki og til að það sé engum vafa undirorpið er lagt til að fyrrnefnd orð verði felld brott enda telur meiri hlutinn þau óþörf að öðru leyti.
    Í nefndinni fóru fram töluverðar umræður um réttindamál starfsmanna Ríkisútvarpsins. Bent var á að ákvæðin um réttindi starfsmanna væru nokkuð óljóst orðuð og því ekki nægilega skýrt hvernig réttindamálum starfsmanna yrði háttað hvað varðar biðlaunarétt og lífeyrisréttindi, þ.m.t. lífeyrisréttindi sjóðfélaga í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR). Að teknu tilliti til helstu gagnrýnisradda varðandi réttindamál starfsmanna leggur meiri hlutinn til breytingar á ákvæði til bráðabirgða II. Í fyrsta lagi verði ekki gerður greinarmunur á fastráðnum og lausráðnum starfsmönnum. Í öðru lagi verði hnýtt við 5. mgr., sem er samhljóða 6. mgr. frumvarpsins, að réttur til aðildar að A-deild LSR haldist „á meðan þeir gegna starfi hjá Ríkisútvarpinu sf.“. Í þriðja lagi verði losað um takmarkanir á biðlaunarétti þannig að hafi félagið boðið starfsmanni stofnunarinnar sambærilega stöðu hjá félaginu með eigi lakari kjörum en hann áður naut, og hann samþykkt það boð félagsins, skuli hann halda biðlaunarétti sínum verði starf hans lagt niður síðar. Þá er tekið fram að hafni hann boðinu skuli hann hefja töku biðlauna í samræmi við almenn ákvæði laga nr. 70/1996. Í fjórða lagi leggur meiri hlutinn til að sett verði sérstakt ákvæði um lífeyrisréttindi sjóðfélaga í B-deild þannig að þeir starfsmenn Ríkisútvarpsins sem við gildistöku laganna eiga aðild að B-deild LSR skuli halda þeim rétti sínum í samræmi við ákvæði laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og reglur settar samkvæmt þeim.
    Í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar kemur fram varðandi 11. gr. frumvarpsins að ef til vill þurfi að gera nánari grein fyrir þeirri undanþágu sem þar er gerð frá ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt um undanþágu fyrirtækja og stofnana sem ríkissjóður rekur og ber ótakmarkaða ábyrgð á, sbr. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Meiri hlutinn leggur til að þetta verði skoðað gaumgæfilega áður en nefskattur verður lagður á.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 11. maí 2005.



Gunnar Birgisson,


form., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.



Hjálmar Árnason.


Birkir J. Jónsson.