Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 644. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1450  —  644. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Frá minni hluta menntamálanefndar.



    Af hálfu menntamálaráðherra var frumvarp þetta lagt fram sem fylgifrumvarp við frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf. (643. mál) og felur í sér að lagaákvæði um hlut Ríkisútvarpsins í rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands verði felld niður. Þegar ljóst varð að frumvarp um Ríkisútvarpið sf. yrði lagt til hliðar ákváðu liðsmenn ríkisstjórnarinnar á Alþingi að leggja þetta frumvarp einnig til hliðar. Athygli vekur að meiri hluti menntamálanefndar ákvað að skila nefndaráliti um RÚV-frumvarpið en hefur hins vegar ekkert álit á þessu frumvarpi.
    Fulltrúar minni hlutans lýstu því yfir við fyrstu umræðu um málið að þeir litu á frumvarp menntamálaráðherra um Sinfóníuhljómsveit Íslands sem sjálfstætt þingmál. Minni hlutanum þykir miður að það skuli nú stöðvað.
    Minni hlutinn er sammála efni frumvarpsins. Hins vegar verðskulda málefni hljómsveitarinnar betri umfjöllun af hálfu ráðherrans og nefndarinnar en nú varð raunin. Má þar m.a. nefna þátttöku sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í rekstri hljómsveitarinnar, en fram kom hjá fulltrúum Reykjavíkur og Seltjarnarness, þeim Stefáni Jóni Hafstein og Jónmundi Guðmarssyni, á fundi nefndarinnar að sveitarstjórnarmenn þar eru ekki sáttir við núverandi lög að þessu leyti. Minni hlutinn leggur áherslu á að þegar verði hafist handa við endurskoðun laganna, bæði rekstrarþáttarins, m.a. með viðræðum við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, og þeirra þátta sem varða starf hljómsveitarinnar.
    Hlálegt er að menntamálaráðherra hefur kastað svo höndunum til við frumvarp þetta að næði það fram að ganga óbreytt yrði Ríkisútvarpið losað undan rekstrarskyldum skv. 3. gr. laganna en ætti eftir sem áður að skipa mann í stjórn hljómsveitarinnar skv. 4. gr. og fulltrúa í verkefnavalsnefnd skv. 7. gr. auk þess sem áfram yrðu í lögunum ákvæði um sérstakan samning hljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins skv. 4. mgr. 3. gr. Þeir semjendur sem menntamálaráðherra fékk til verka virðast ekki hafa lesið lögin nema niður í miðja 3. gr. Minni hlutinn leggur hins vegar til með sérstökum breytingartillögum að í ofangreindum ákvæðum komi fulltrúi starfsmanna í stað fulltrúa Ríkisútvarpsins og lagaskyldan um samning milli hljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins verði afnumin.
    Minni hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Sigurjón Þórðarson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 11. maí 2005.



Mörður Árnason,


frsm.


Björgvin G. Sigurðsson.


Katrín Júlíusdóttir.