Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 799. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1452  —  799. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Valdimars L. Friðrikssonar um efnisnámur.

     1.      Hversu margar efnisnámur eru í landinu, hversu margar þeirra teljast virkar og hversu mikið efni er tekið úr þeim á ári hverju?
    Í námuskrá Vegagerðarinnar eru nú skráðar 3044 námur, margar hverjar gamlar og smáar, og hafa ekki verið notaðar lengi. Af þessum námum eru 1010 skráðar ófrágengnar og 574 hálffrágengnar. Ekki hefur tekist að afla nákvæmra upplýsinga um það hversu margar af þessum námur teljast virkar. Þar sem stór hluti efnistökusvæða er ekki háður neinum leyfum eða reglubundnu eftirliti hefur ekki tekist að fá nákvæma yfirsýn yfir það hvaða efnistökusvæði eru í notkun. Vonast er til að þegar öll sveitarfélög á landinu hafa lokið við gerð aðalskipulags, þar sem m.a. á að gera grein fyrir efnistökusvæðum í sveitarfélaginu, fáist betri og nákvæmari upplýsingar um einstök efnistökusvæði. Umhverfisráðherra hefur á þessu þingi lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, sem hefur það að markmiði að leyfisbinda efnistöku í gömlum námum sem enn eru í notkun þannig að þær lúti sömu reglum og nýjar námur. Samkvæmt frumvarpinu ætti að nást betri yfirsýn yfir alla efnistöku sem fram fer í landinu, hvort sem er á nýjum efnistökusvæðum eða gömlum. Hvað varðar efnismagn hefur Vegagerðin áætlað að notkun jarðefna sé um 8 milljónir m 3 á ári að jafnaði, bæði úr námum og skeringum. Vegna virkjanaframkvæmda á Austurlandi er þó talið að nú sé þetta magn um 10 milljónir m 3 á ári á meðan þær framkvæmdir standa sem hæst.

     2.      Hversu margar námur teljast „ófrágengnar“?

    Samkvæmt námuskrá Vegagerðarinnar eru ófrágengnar námur nú skráðar 1010 og hálffrágengnar 574. Hálfrágengnar námur eru námur sem gengið hefur verið frá að hluta til og í mörgum tilvikum er lítil vinna eftir við frágang.

     3.      Áformar ráðherra að beita sér fyrir því að eigendur eða notendur gangi frá slíkum námum og ef svo er, hyggst hann grípa til viðurlaga ef því verður ekki sinnt?

    Umhverfisstofnun, áður Náttúruvernd ríkisins, Vegagerðin og Siglingastofnun hafa átt gott samstarf um að koma til framkvæmda ákvæði náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, um frágang efnistökusvæða. Mikill meiri hluti ófrágenginna náma er á ábyrgð Vegagerðarinnar og samstarfsaðila hennar. Árið 2000 hóf Vegagerðin skipulegan frágang eldri efnistökusvæða og hefur það verk gengið vel og töluvert áunnist. Auk þess hefur stofnunin sett sér þá vinnureglu varðandi nýjar námur að frá þeim er gengið strax að notkun lokinni. Vegagerðin hefur í samráði við umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun gert langtímaáætlun um frágang efnistökusvæða. Kostnaður við slíkan frágang er mikill auk þess sem um tímafrekt verkefni er að ræða sem krefst ákveðinnar verkþekkingar og reynslu. Ráðuneytið og Umhverfisstofnun hafa því tekið undir það sjónarmið Vegagerðarinnar að halda áfram á sömu braut og síðastliðin ár en setja sér jafnframt raunhæf markmið um að ljúka verkefninu og er gert ráð fyrir að því verði lokið árið 2018. Hvað varðar aðra aðila en Vegagerðina kemur í hlut Umhverfisstofnunar og einstakra sveitarfélaga að fylgja eftir ákvæðum 49. gr. náttúruverndarlaga þar sem segir að efnistökusvæði skuli ekki standa ónotað og ófrágengið lengur en í þrjú ár. Samkvæmt 73. gr. laganna er heimilt að beita dagsektum til að knýja menn til að gera þær ráðstafanir sem lög kveða á um.