Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 27. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 27  —  27. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skipan nefndar sem meti kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

Flm.: Magnús Þór Hafsteinsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Gunnarsson.



    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd sem meti kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Í nefndinni verði fulltrúar frá hverjum þingflokki á Alþingi, Háskóla Íslands, sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri og sjávarútvegsráðherra og skipi ráðherra jafnframt formann nefndarinnar. Nefndin skili skýrslu og ráðherra kynni Alþingi niðurstöður hennar eigi síðar en 10. desember 2006.

Greinargerð.


    Færeyska fiskveiðistjórnarkerfið hefur mikið verið til umræðu undanfarin ár. Færeyingar hafa að ýmsu leyti valið að fara aðrar leiðir í fiskveiðistjórn en aðrar þjóðir við Norður- Atlantshaf. Árangur þeirra og reynsla hefur að mörgu leyti verið athyglisverð þó að deilt sé bæði um meinta kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Athygli vekur að svo virðist sem nokkuð almenn sátt ríki um fiskveiðistjórnina í Færeyjum. Fiskstofnar við Færeyjar virðast einnig hafa spjarað sig þokkalega almennt séð undir þeirri veiðistýringu sem viðhöfð er við Færeyjar.
    Þó að fiskveiðistjórn Færeyinga hafi iðulega vakið umræður á Íslandi hefur aldrei farið fram ítarleg úttekt á því kerfi hér á landi. Fátt liggur fyrir af íslenskum heimildum um það þrátt fyrir að reynsla Færeyinga sé merkileg. Samantekt á henni yrði þarft innlegg í umræðuna um fiskveiðistjórn hér á landi og gæti leitt til þess að Íslendingar drægju gagnlegan lærdóm af henni sem nota mætti við umbætur í fiskveiðistjórn hér.
    Ekki er mælst til að neinir fulltrúar hagsmunaaðila í sjávarútvegi hér á landi eigi sæti í nefndinni. Nauðsynlegt er að reyna eftir megni að nálgast viðfangsefnið á hlutlausan hátt og nefndin mundi að sjálfsögðu kalla eftir áliti þessara aðila.
    Eðlilegt er að nefndin leggi m.a. mat sitt á tengsl fiskveiðiráðgjafar við heimilaðan afla, brottkast, þjóðhagslegan ávinning, takmörkun afkastagetu fiskveiðiflotans, tengsl landvinnslu og útgerðar, launamál sjómanna, verndun veiðistofna, takmörkun veiðisvæða, takmörkun veiðiskipa, markaðsmál, nýliðun í útgerð, endurnýjun veiðiskipa og fleiri skyld atriði og beri saman við fiskveiðistjórn Íslendinga.
    Lagt er til að störf nefndarinnar verði launuð af Verkefnasjóði sjávarútvegsins og að hún skili niðurstöðum sínum í skýrsluformi til sjávarútvegsráðherra sem síðan kynni hana fyrir Alþingi.