Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 31. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 31  —  31. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Hlynur Hallsson, Kolbrún Halldórsdóttir,


Steingrímur J. Sigfússon.


1. gr.

    Í stað orðanna „10% af þeim tekjum“ í 3. mgr. 66. gr. laganna kemur: 18% af þeim tekjum sem eru umfram 120.000 kr. á ári.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „10% af þessum tekjum“ í 3. mgr. kemur: 18% af þessum tekjum.
     b.      2. málsl. 4. mgr. orðast svo: Skal hann vera 18% af þeim tekjum.
     c.      Í stað orðanna „10% tekjuskatti af slíkum vöxtum að tekjuári loknu“ í 4. málsl. 4. mgr. kemur: 18% tekjuskatti af slíkum vöxtum að tekjuári loknu.
     d.      Í stað orðanna „10% tekjuskatti af slíkum tekjum að tekjuári loknu“ í 5. málsl. 4. mgr. kemur: 18% tekjuskatti af slíkum tekjum að tekjuári loknu.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006 og koma til framkvæmdar þá þegar vegna tekna á árinu 2006.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 131. löggjafarþingi (7. mál) en var ekki afgreitt. Málið er nú flutt að nýju óbreytt að undanskildri dagsetningu á gildistöku. Í frumvarpinu er lagt til að hlutfall fjármagnstekjuskatts hækki úr 10% í 18% en jafnframt verði sett skattleysismörk við 120 þús. kr. tekjur einstaklinga á ári. Miðað við forsendur frumvarpsins má áætla að fjármagnstekjur ársins 2004 hefðu orðið rúmir 10 milljarðar kr. á rekstrargrunni í stað 7 milljarða kr., eða 3 milljörðum kr. hærri.
    Í frumvarpi til fjárlaga árið 2006 er gert ráð fyrir 12.300 millj. kr. fjármagnstekjuskatti á rekstrargrunni. Miðað við forsendur frumvarpsins yrðu tekjur af fjármagnsskatti rúmir 17 milljarðar kr., eða sem svarar aukningu upp á rúma 5 milljarða kr.
    Greinargerðin sem fylgdi frumvarpinu á 131. löggjafarþingi var að öðru leyti svohljóðandi:
    „Lagt er til að sett verði skattleysismörk við 120 þús. kr. fjármagnstekjur á ári hjá einstaklingum. Gera má ráð fyrir að við það verði rúm 90% einstaklinga og ríflega 70% hjóna sem nú greiða fjármagnstekjuskatt undanþegin skattinum. Þótt hlutfallið sé hátt er hér fyrst og fremst um að ræða smásparnað almennings sem hefur yfirleitt sínar tekjur af launavinnu.
    Á undanförnum árum hefur fjölgað þeim einstaklingum hér á landi sem afla töluverðs hluta heildartekna sinna með tekjum af fjármagni, sem þeir greiða aðeins 10% skatt af. Um leið breikkar bilið milli þeirra tekjuhæstu og tekjulægstu. Ætla má að fjármagnstekjur séu meira en helmingur af tekjum þeirra 5% framteljenda sem hæstar tekjur hafa í þjóðfélaginu. Þessir aðilar greiða lægra hlutfall af tekjum sínum til samfélagsins en launafólk gerir.
    Vinnandi fólk greiðir af launum sínum rúm 38,5% að samanlögðum tekjuskatti og útsvari og allt að 45% að viðbættum hátekjuskatti. Tekjur þeirra auðugustu í landinu, þ.e. þeirra sem eiga fjármagnið og þeirra sem þiggja hluta tekna sinna af hlutabréfakaupum eða kaupréttarsamningum, eru aftur á móti mestmegnis fjármagnstekjur. Af þeim greiða þeir, eins og fyrr segir, aðeins 10% skatt.
    Flutningsmenn vilja að brugðist verði við breyttu tekjumynstri í þjóðfélaginu og því óréttlæti sem stafar af misræmi í skattlagningu fjármagnstekna og launa. Þá mun sú lagabreyting sem hér er lögð til afla ríkissjóði aukinna tekna til að standa straum af nauðsynlegri velferðarþjónustu.
    Fróðlegt er að líta til skattheimtu af launum og fjármagnstekjum í nokkrum löndum Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku til samanburðar við lög hér á landi og þá breytingu sem flutningsmenn leggja til.
    Í Bandaríkjunum er notað stighækkandi skatthlutfall sem ræðst af tekjum og félagslegri stöðu fólks, allt frá 10% og upp í 38,6%. Fastur frádráttur er 4.750 bandaríkjadalir fyrir einstakling. Hægt er að draga frá persónuafslátt að upphæð 3.050 dalir. Ef tekið er dæmi af einhleypum einstaklingi líta skattþrepin svona út:

< 6.000 USD 10%
6.001– 28.400 USD 15%
28.401– 68.800 USD 27%
68.801– 143.500 USD 30%
143.501– 311.950 USD 35%
> 311.950 USD 38,60%

    Við þetta bætast ýmsir svæðisbundnir skattar þar sem skattstofninn er svipaður en persónuafsláttur og frádráttur eru mismunandi eftir einstökum ríkjum. Skatthlutfallið er oftast stighækkandi frá 3% upp í 25%. Fjármagnstekjur aðrar en söluhagnaður eru skattlagðar á sama hátt og aðrar tekjur. Skatthlutfall er að hámarki 20% af söluhagnaði langtímaeignar, þ.e. eignar sem viðkomandi hefur átt lengur en í 12 mánuði. Ef tekjur einstaklinga eru skattlagðar miðað við 15% skatthlutfall eru fjármagnstekjurnar skattlagðar að hámarki með 10% skatthlutfalli. Ef eignin hefur verið í eigu einstaklings til lengri tíma en fimm ára lækkar skatthlutfallið niður í 18% og 8%.
    Í Bretlandi eru þrjú skattþrep í almennum tekjuskatti: 10% á tekjur upp að 1.920 pundum, 22% á tekjur á bilinu 1.921–29.900 pund og 40% á tekjur umfram 29.900 pund. Um fjármagnstekjuskatt gildir að skattprósenta á söluhagnað ræðst af tekjuskattsstofni hvers einstaklings, nema ef fjármagnstekjur eru í milliflokknum en þá bera þær aðeins 20% skatt. Á skattárinu 2002–2003 voru einstaklingar að auki undanþegnir skatti af fyrstu 7.700 pundunum sem þeir höfðu í hagnað af sölu eigna. Fjármagnstekjur af sparifé bera 20% skatt í lægri flokkunum tveimur en 40% í hæsta flokknum. Arðgreiðslur bera 10–32,5% skatt þegar búið er að nýta sérstakan skattafrádrátt.
    Í Danmörku leggur ríkið skatt á tekjur sem hér segir:
                   


< 198.000 DKK 5,50%
198.000–295.000 DKK 6%
> 295.000 DKK 15%

    Að meðaltali er sá skattur sem greiddur er til sýslna og sveitarfélaga 32,6%. Fjármagnstekjur eru skattlagðar með öðrum tekjum. Innheimtur er 28% skattur af arðgreiðslum upp að 41.100 dönskum kr. en 43% af hærri upphæðum.
    Í Finnlandi leggur ríkið á tekjuskatt í eftirfarandi þrepum:
    


< 11.600 EUR 0%
11.600– 14.400 EUR 12,50%
14.400– 20.000 EUR 16,50%
20.000– 31.200 EUR 22,50%
31.200– 55.200 EUR 28,50%
> 55.200 EUR 35,50%

    Til sveitarfélaga er greiddur skattur á bilinu 15,5–20%. Heildarálögur ríkis og sveitarfélaga mega þó aldrei nema hærra hlutfalli en 70%. Fjármagnstekjur eru skattlagðar með flötum 29% skatti.
    Á Írlandi er lagður 20% skattur á tekjur upp að ákveðinni upphæð (28.000 evrur fyrir barnlausa einstaklinga) og þá tekur við 42% skatthlutfall. Fjármagnstekjur bera yfirleitt flatan 20% skatt en í undantekningatilfellum er skattprósentan 40%.
    Í Kanada er innheimtur tekjuskattur sem hér segir:
    
< 32.182 CAD 16%
32.183– 63.367 CAD 22%
64.368– 104.647 CAD 26%
> 104.647 CAD 29%

    Einstök fylki innheimta sína skatta með tekjuskatti alríkisstjórnarinnar og eru þeir því aðeins hluti af heildarskattinum. Fylkin geta líka lagt á sérstaka viðbótarskatta og flata skatta á tekjur umfram tiltekna upphæð. Heildarskattprósenta má þó aldrei vera hærri en á bilinu 39–48,6%. Fjármagnstekjur eru yfirleitt skattlagðar með lægra skatthlutfalli þar sem aðeins þarf að greiða skatt af helmingi hreinna fjármagnstekna.
    Í Noregi er lagður að hámarki 28% skattur á hreinar tekjur, skatthlutfall ríkisins er að hámarki 10,35% en sveitarfélaga að hámarki 17,65%. Persónuafsláttur einstaklinga er 310.000 norskar kr. Fjármagnstekjur eru skattlagðar með almennum tekjum (hreinum tekjum).
    Sænska ríkið leggur 20% skatt á tekjur á bilinu 284.300–430.000 sænskar kr. en 25% skatt á tekjur umfram 430.000. Tekjur undir 284.300 sænskum kr. bera ekki skatt. Persónuafsláttur er á bilinu 11.400–25.900 sænskar kr. Sveitarfélögin leggja á flatan skatt sem er yfirleitt um 32% og reiknaður af sama skattstofni og tekjuskattur hjá ríkinu. Fjármagnstekjur í Svíþjóð bera 30% flatan skatt.“